MAGNAÐUR NÓVEMBER OG NÝTT TUNGL

MAGNAÐUR NÓVEMBER OG NÝTT TUNGL

Áhrifa frá Myrkvunum sem voru í október mun gæta áfram í um það bil 6 mánuði í viðbót, en þeir voru sérstaklega áhrifamiklir og Tunglmyrkvinn í Nauti 28. október var mjög áhrifamikill tími losunar og því að sleppa tökum á því gamla. Öllu því sem við vitum að við þurfum að hætta, því sem virkar ekki lengur, því sem er þungt og tómt. Það gæti verið samband, starf, búseta eða hegðunarmynstur.

Október var mjög magnaður mánuður en allar líkur eru á að nóvember verði enn magnaðri svo við fylgjumst bara með hvert stefnir. Verum bara meðvituð um að þetta hraða þróunarferli, þar sem hlutirnir brotna niður hefur gríðarlegan tilgang því við erum ekki  í niðurrifinu og eyðileggingunni að ástæðulausu. Hafið bara í huga meðan farið er í gegnum þetta öfluga Sporðdrekatímabil, að Sporðdrekinn gefur okkur gríðarlega einbeittan viljastyrk.

Sporðdrekinn er líka tímabil leyndarmála, svo líklegt er að við sjáum mörg fleiri leyndarmál koma upp á yfirborðið núna. Við erum á tímum endaloka og nýs upphafs og sá tími mun halda áfram næstu árin, en þetta eru ekki bara endalok, því við erum nú þegar að skapa nýtt upphaf og því meira sem við leggjum áherslu á það því betra.

MARS OG SÓLIN

Plánetan Mars, sem í goðsögninni var Guð hernaðar, er mjög sterkur allan þennan mánuð, því mestan hluta hans eða til 24. nóvember er hann í Sporðdrekanum. Hann er sterkur í Sporðdrekanum, því eitt sinn var hann stjórnandi hans, en það gefur honum meira afl og fókus.

Hin ástæðan er sú að Mars hreyfist mjög hratt í gegnum nóvember, vegna þess að hann heldur í rauninni nokkurn veginn takti við Sólina, sem er merkilegt. Þetta verður áberandi frá 11. nóvember og fram að næstu mánaðarmótum, en á þeim tíma eru Sól og Mars í samstöðu og Sólin gefur Mars kraft og orku.

UPPHAF MÁNAÐARINS

Orkan í tengslum við bæði Sól- og Tunglmyrkva leiðir yfirleitt til varanlegra breytinga. Verið því meðvituð um það, því hvar í lífi ykkar sem þær verða, getur fylgt þeim depurð eða sorg, en við gætum líka verið að finna þá tilfinningu að þetta þyrfti að hverfa úr lífi okkar, til að skapa rými fyrir eitthvað nýtt.

Eitt af því mikilvægasta í upphafi mánaðarins er að Satúrnus er í kyrrstöðu á 0 gráðu í Fiskum, að snúa við til að breyta um stefnu og fara fram á við. Þegar það gerist magnast sú táknmynd sem plánetan er táknræn fyrir upp, og eins og Satúrnus snýst oft um þrengingar eða þvinganir, reglur eða valdboð yfirvalda sem á að hlýða.

Satúrnus er fulltrúi ytri valdhafa, hin upprunalega föðurímynd, svo við gætum leitað inn á við til að meta hver hún er. Við gætum líka þurft að skoða persónulegar takmarkanir sem væru að koma upp í lífi okkar. En Satúrnus getur líka veitt okkur styrk og aga og gert okkur mjög meðvituð um það hvernig við erum að nota orku okkar, á leið okkar fram á við.

ERIS OG NORÐURNÓÐAN

Eris er svo í samstöðu við Norðurnóðuna, en Eris er systir Mars, líka með mikla stríðsorku, tilbúin til að berjast fyrir sannleika, frelsi og réttlæti og fyrir sanngjarnara samfélagi. Bæði Mars og Eris eru því mjög sterk núna, þannig að við stöndum líklega sterkari í sannleika okkar og fullveldi en við höfum nokkurn tíma gert, hugsanlega á lífsleiðinni.

Það er mjög gott vegna þess að Norðurnóðan er leið heildarinnar og er að gefa til kynna hvert við þurfum að halda til að sálir okkar vaxi sameiginlega á þessum tíma.

4. NÓVEMBER

Þann 4. nóvember, er 180 gráðu spennuandstaða á milli Merkúrs í Sporðdreka og Úranusar í Nauti. Þessi Merkúr-úraníski þáttur getur tengs niðurhali upplýsinga og auknu næmi, auk þess sem hann getur dregið fram fram í dagsljósið ýmsan óvæntan sannleika.

Niðurhalið getur líka tengst einhverjum snilldar hugmyndum eða hraðari hugsun, en þessi afstaða getur táknað að við höfum aðgang að æðri huganum á miklu stærri hátt. Þessi afstaða getur líka bent til netárása, því samspil Merkúrs og Úranusar er tengt við internetið.

Merkúr er líka tengdur ferðalögum og flutningum, svo það geta verið truflanir á því sviði. Úranus var í goðsögninni himnaguð, svo hann er sterklega tengdur flugi þannig að það gætu orðið einhverjar truflanir á því. Það gæti líka gneistað af okkur, ef  frelsi okkar yrði á einhvern hátt ógnað á þessum tíma.

6. NÓVEMBER

Þann 6. nóvember verður Venus sem er á 28 gráðum í Meyju í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Plútó á 28 gráðum í Steingeit. Sú afstaða gæti leitt til spennu í sambandi við einhvers konar samskipti, jafnvel á jákvæðan hátt í kringum ástarsamband, en hún gæti líka ýtt undir afbrýðisemi og eigingirnu, eða spennu í kringum fjármál.

Þennan sama dag verður Merkúr í 120 gráðu afstöðu við Neptúnus. Sú orka gerir daginn dásamlegan fyrir öll sköpunar- eða listaverkefni, í raun hvað sem er sem tengist ímyndunaraflinu, og henni fylgja risastórar hugmyndir.

11. NÓVEMBER

Þegar svo kemur að 11. nóvember, verður orkan aftur mjög mögnuð, því þann dag verður Mars á 21 gráðu í Sporðdreka í 180 gráðu spennuafstöðu við Úranusi á 21 gráðu í Nauti. Þetta er mjög öflug afstaða, því hún er í samstöðu við Úranus í Íran, auk þess sem kort Íran var með sterkar afstöður við Tunglmyrkvann, svo og kort Tyrklands. Að auki höfðu bæði Sól- og Tunglmyrkvinn áhrif á kort Ísrael og Palestínu. Líklegt er því að þar verði mikil spenna í kringum dagana frá 11.-14. nóvember.

Spennuandstaða Mars við Úranus, er nokkuð klassísk einkum vegna þess að báðar pláneturnar eru í föstum merkjum og Mars er mjög öflugur í Sporðdrekanum. Þessi afstaða getur gefið til kynna jarðskjálfta af öllum gerðum og hvort sem þeir verða í Jörðinni, í stjórnmálunum eða fjármálunum, þá er þetta gjósandi, heit og spengikennd orka.

Sporðdrekinn er líka með hala sem getur stungið svo þetta getur snúist um hefnd og gæti verið íkveikjupunktur, mögulega líka fyrir heftingu á frelsi okkar. Bæði tengist það Úranusi sem er mjög tengdur frelsi, svo og Mars, þar sem pláneturnar eru tengdar saman á þessum tíma. Svo gæti þetta táknað bakslag gegn reglum og stjórnun.

12. NÓVEMBER

Þann 12. nóvember verður Tunglið í Sporðdreka í 180 gráðu spennuandstöðu við Júpíter í Nauti, þannig að Júpíter mun þenja út allar þær sterku tilfinningar sem fylgja Tunglinu. Tunglið er í stjörnuspeki landa, táknrænt fyrir fólkið, svo þessi afstaða gæti sprengt upp allar tilfinningar þess.  

Þær gætu tengst fjármálum út af Sporðdreka-Nauts öxlinum, en líka öryggi okkar og fæðuöryggi sem tengist Nautinu. Með alla þessa hástemmdu viðbraðgsorku og afstöðuna á milli Mars og Úranusar, væri gott að verja tíma í að draga andann rólega og vera meðvitaður um að framkvæma ekkert að óhugsuðu máli.

Kortið miðast við Reykjavík

NÝJA TUNGLIÐ

Eins og alltaf eru Sól og Tungl í samstöðu á nýju Tungli, sem kveiknar þann 13. nóvember kl. 09:27 samkvæmt GMT tíma. Sól og Tungl eru á 20 gráðum og 43 mínútum í Sporðdreka, í samstöðu við Mars sem er á 22 gráðum og Ceres, gyðju uppskeru korns á 24 gráðum og 56 mínútum.

Mars er því mitt á milli Sólar og Tungls annars vegar og Ceres hins vegar, svo allar líkur eru á að hann magni upp allar þær tilfinningar sem við komum til með að finna fyrir á þessum tíma. Skoðið endilega hvar 20 gráður og 43 mínútur í Sporðdreka lenda í kortum ykkar og munið að setja fram ásetning ykkar á þessu nýja Tungli og sá þannig fræjum þess sem þið vilji sjá vaxa og dafna í lífi ykkar.

Þessi afstaða gæti tengst vandamálum á fæðuframboði, til dæmis á korni, einkum vegna þess að við Tunglmyrkvann var Tunglið í samstöðu við Júpiter í Nauti – og Nautið tengist fæðu og Júpiter getur valdið verðbólgu og þannig hækkandi verði á mat vegna truflana á fæðuframboði sums staðar í heiminum.

Nokkrum klukkustundum eftir nýja Tunglið, hefur það fært sig til og verður í nákvæmri samstöðu við Mars. Við megum þá gera ráð fyrir mikilli og djúpri ókyrrðartilfinningu, svo skoðið hvaða áhrif þetta gæti verið að hafa í kortunum ykkar, til að sjá hvar sú tilfinning gæti verið að koma fram.  

Sporðdrekinn er tengdur fjármálakerfum heims, og Sól og Tungl eru í 180 gráðu spennuandstöðu við Úranus í Nauti á þess nýja Tungli og Nautið tengist bæði fjármálakerfum, svo og fæðubirgðarmálum. Úranus er í raun í spennuandstöðu við Sól, Tungl, Mars og Ceres, svo spennan er mögnuð í kringum F-in þrjú FÆÐU, FJÁRMÁL OG FRELSI.

Öll þessi mál gætu komið upp í kringum þetta nýja Tungl, svo og þessi mjög svo skyndilega gjósandi orka.

NEPTÚNUS, SÓL, TUNGL, MARS OG CERES

Samhliða öllu framansögðu er einnig á þessu nýja Tungli, mjög falleg 120° samhljóma afstaða á milli Neptúnusar á 25 gráðum Fiskum og Sólar, Tungls, Mars og Ceres. Hún er mjög hjálpleg, vegna þess að hún setur allt það tilfinningaþrungna sem er að gerast í heiminum í mun stærra andlegt samhengi og hjálpar okkur að skilja hver tilgangur alls þessa ferlis er, sem við erum að ganga í gegnum. Mikilvægt er að hafa í huga að þróunin er hröð, svo og breytingin yfir í hærri tíðni.

Stjörnuspekin segir ekki til um örlög okkar og pláneturnar með afstöðu sinni eru ekki að gera okkur eitthvað. Stjörnuspekin eins konar kosmísk veðurspá og upplýsingarnar sem veðurspáin veitir okkur eru gagnlegar vegna þess að þegar við vitum hver líkindi orkunnar eru og getum valið hvernig við bregðumst við henni.

Við getum valið að draga andann djúpt, stíga til baka og nota þessa orku á uppbyggjandi hátt. Við getum nýtt okkur fókus Sporðdrekans til að ljúka verkefnum og vera skapandi í þessari orku. Koma okkur fyrir á syllu arnarins og sjá heildarmyndina – og hætta að horfa á sjónvarpsfréttir.

MERKÚR, ÚRANUS OG SATÚRNUS

Á þessu nýja Tungli er einnig 165 gráðu afstaða á milli Merkúrs og Úranusar, sem er svipuð og sú sem varð lýsti þann 4. Nóvember, en þá var 180 gráðu spennuafstaða á milli plánetanna. Nú er hún hins vegar 165 gráður og Merkúr er að fara úr Sporðdrekanum og inn í  Bogmanninn.

Þessi afstaða gæti tengst því að bæði Bogmaðurinn og Úranus er táknrænir fyrir sannleikann, svo þetta gæti verið merki um að einhver stór sannleikur kemur í ljós. Þetta gæti líka tengst netárásum eða truflunum á flugferðum, þar sem bæði Bogmaðurinn og Úranus er tengdir þeim þáttum, svo eitthvað tengt þeim gæti komið upp.  

Satúrnus á núll gráðu í Fiskum er líka í 90 gráðu spennuafstöðu við Merkúr á 4 gráðum í Bogmanni,  þannig að með öllum þeim upplýsingum sem freyða út, er sannleikurinn hugsanlega að koma í ljós. Satúrnus gæti verið að reyna að setja lok á þessar upplýsingar, Merkúr að berjast gegn ritskoðun á sannleikanum og sterkum skoðunum, jafnvel tengdum ýmsum lagamálum, því Bogmaðuirnn er tengdur lögunum. Hvernig sem þetta fer, eru allar líkur á að tilraunir verðir gerðar fyrri hluta mánaðarins, til að setja lok á upplýsingar og samskipti eða að upplýsingar nái ekki til fólks vegna skyndilegra rafmagnsskerðinga.

SÓLGOS OG BLOSSAR

Það eru mörg Sólgos og blossar á Sólinni þessa dagana sem slá reglulega út rafmagni í ýmsum heimshlutum. Það er kannski ekki svo mikið mál, en mjög stórt X klassa sólgos, gæti leitt til rafmagnsleysis víðar í heiminum. Á meðan Úranus er í Nauti alveg fram til 2026 þegar hann fer að fullu út úr því merki, getum við átt von á óstöðugleika í jarðsegulsviðinu, líkt og við höfum séð síðan plánetan kom inn í Nautið árið 2018.

Eitt af lykilþemum Úranusar í Nauti er einmitt óstöðuguleiki í jarðsegulsviðinu. Hann tengist mun meiri tíðni Sólgosa, en  þau eru einn af lykilþáttunum í framþróun okkar vegna allra ljósagnanna sem streyma til Jarðar.

Mars á 22 gráðum í Sporðdreka er reyndar líka í 150 gráðu afstöðu við bæði Norðurnóðuna á 23 gráðum í Hrút og Eris á 24 gráðum í Hrút, svo enn á ný sjáum við þessi sömu þemu tengd fullveldi einstaklingsins, réttindum hans og frelsi.

16. NÓVEMBER

Það verður háspenna í loftinu um miðjan mánuðinn, einkum frá og með 11. nóvember og ekki dregur úr henni þann 16. nóvember, þegar Mars verður í nákvæmri 150 gráðu afstöðu við Eris. Sólin verður líka í 150 gráðu afstöðu við Eris og Merkúr verður í 135 gráðu afstöðu við Eris, svo það eru miklar afstöður við Eris þann 16. nóvember. Svo má ekki gleyma T-spennuafstöðunni sem verður fram til loka nóvember, en þessi T-spennuafstaða Plútós tengist bæði Norður- og Suðurnóðunni.  

T-spennuafstaðan er að byrja að breytast, því pláneturnar eru að færast til, en þetta hefur verið stóra árið fyrir val og flestir hafa nú þegar valið á hvaða tímalínu þeir ætla að vera. Spurningin er bara hvort þeir hafi valið að vera á enda fórnarlambins sem er Suðurnóðan eða fortíðin, eða að vera á hinum skapandi enda Öxulnóðunnar, sem er Norðurnóðan eða framtíðin? Lifum við í ótta eða lifum við í kærleika?

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna. Nýir áskrifendur fá ókeypis vefeintak af bók minni LEIÐ HJARTANS þegar þeir skrá sig.

Heimildir: Útdráttur úr stjörnuspekiskýringum Pam Gregory sem sjá má í fullri lengd HÉR

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 592 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram