Einkatímar - Heilsu- og lífsstílsráðgjöf - Guðrún Bergmann

Ég býð upp á einstaklingsbundna HEILSU- OG LÍFSSTÍLSRÁÐGJÖF, sem byggist á einum eða fleiri viðtalstímum. Þjónustan er sniðin að þörfum og tíma hvers og eins.

Sendu mér endilega póst á gb@gudrunbergmann.is ef þú hefur áhuga á því að ég liðsinni þér við að koma heilsunni í betra horf. Þú færð svar við fyrsta hentugleika.

Ef póstur skýrir ekki málið nógu vel býð ég upp á 15 mínútna símtal eða Skype samtal þar sem hægt er að fara yfir málín þín og ég get komið með tillögur að því á hvaða hátt ég get liðsinnt þér.

BAKGRUNNUR

Ég hef verið með heilsutengd námskeið frá árinu 1990 og fjallað á þeim um ýmsar hliðar heilsu, bæði líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar. Frá sama tíma hef ég haldið ótal (hef ekki tölu á þeim) námskeið og fyrirlestra um heilsumál, skrifað 19 bækur um heilsutengd málefni og þýtt úr ensku 14 bækur, m.a. bækurnar um Blóðflokkamataræðið.

Auk þess hef ég skrifað ótrúlegan fjölda greina, bæði hér á vefsíðuna mína, á síðu Smartlands á mbl.is og í ýmis tímarit, bæði íslensk og erlend.

Ég vann í nánu samstarfi við Hallgrím heitinn Magnússon lækni með námskeið og fyrirlestra frá árinu 1990, auk þess sem við skrifuðum bókina CANDIDA SVEPPASÝKING saman, fyrst árið 1993 og síðan uppfærðum við hana árið 2011.

Ég fylgist daglega með greinum og bókum helstu enskumælandi lækna um það nýjasta í heildrænum lækningum – og því hvernig við getum fundið leiðir til að lifa betra lífi og njóta meiri lífsgæða, óháð lyfseðilskyldum lyfjum.

MARKÞJÁLFUNARNÁM

Ég er útskrifuð sem ONE COMMAND markþjálfi frá Bandaríkjunum, en  í minni ráðgjafavinnu blanda ég saman markþjálfatækni,  innsæishæfileikum mínum (skyggni) og ýmsum öðrum aðferðum, sem ég hef lært í gegnum tíðina, til að hjálpa þeim sem ég vinn með að ná árangri.

Ég hef verið að veita fólki heilsu- og lífsstílsráðgjöf allt frá árinu 1990, þegar ég átti og rak verslunina Betra Líf. Þá var ekkert til sem hét “markþjálfun”, en fólk fór að leita til mín, vegna þekkingar minnar, persónulegrar reynslu og vegna þess að ég hef ákveðna skyggnihæfileika og mjög virka innsæisvitund.

Ég skoða einstaklinginn og sögu hans, og vinn út frá þeim áföllum sem hann kann að hafa orðið fyrir. Mín reynsla er að áföllin myndi blokkir sem geta haft áhrif á heilsuna, auk þess sem þau festa fólk í sama farinu. Að auki geri ég alltaf stjörnukort fyrir þá sem sækja ráðgjöf hjá mér, því stjörnurnar hafa áhrif á svo margt í lífi okkar.

VILTU AÐSTOÐ?

Ef þú ert þreytt/-ur á því að reyna að bæta lífsstílinn og heilsuna á eigin spýtur og mistakast – aftur og aftur – gætirðu þurft góðan “þjálfara” til að styðja þig og hvetja til dáða með ákveðnu aðhaldi. Með stuðningi frá mér færðu slíkan “þjálfara” sem hjálpar þér að ná varanlegum árangri og opna þér nýja sýn á betra líf.

Heilsu- og hamingjukveðja
Guðrún

UMSÖGN

Annska Arndal, leikkona og frumkvöðull
Guðrúnu Bergmann kynntist ég fyrir allnokkrum árum er ég leitaði á náðir hennar með persónulega ráðgjöf mér til handa. Kom ég ekki að tómum kofanum hjá Guðrúnu og reyndist það mér ómetanlegt að fá hlutdeild í visku hennar og lífsspeki.

Guðrún er hvetjandi, úrræðagóð og hafsjór af fróðleik um allt frá matarræði til innstu sálarkima. Hún sýndi hluttekningu og kærleika í ráðgjöfinni og hafði verulega mótandi áhrif á mig. Ég lærði aðferðir í samskiptum við sjálfa mig sem hafa fylgt mér allar götur síðan og þó það kunni að hljóma hádramatískt þá fann lífslækur minn sér þarna nýjan farveg.

 

image_print