Matarbloggari síðunnar hún Björg Helen
er þessa vikuna með uppskrift að
að fersku grænmetis- og bauna-
salati. Það hentar sérlega vel
núna þegar allt íslenska
grænmetið er að koma
á markað.
Kæri lesandi,
Eftir sukk sumarsins finnst mér svo gott að gera mér salatskál með nýju íslensku grænmeti og góðum baunum. Það verður bæði svo girnilegt og fallegt þegar maður er búin að skera það niður eða rífa á rifjárni og raða í fallega skál ásamt góðum baunum.
Auðvelt og fljótlegt er að gera sér góða salat dressingu sem ég set yfir salatið og geymist hún í nokkra daga í ísskáp. Þetta er fullkomin máltíð finnst mér eða meðlæti með mat. Gott er að taka afganginn með í nesti í vinnuna næsta dag.
Það er um að gera að nota sitt uppáhalds grænmeti og baunir og setja í skálina. Ég er frekar löt að útvatna baunir þannig að ég kaupi mér lífrænar í dósum og skola vel af þeim safann áður en þær fara í skálina hjá mér. Salat dressinguna útbý ég þannig að ég set allt í eina krukku, loka henni og hristi allt saman. Gerist ekki einfaldara.
Með dásamlegri matarkveðju
Björg Helen
FERSKT GRÆNMETIS- OG BAUNASALAT
GRÆNMETIÐ OG BAUNIRNAR
gulrætur
rauðlaukur
paprika
agúrka
tómatar
gular baunir
svartar baunir
Rífið og skerið niður grænmetið. Skolið af svörtu baununum vökvann. Hellið vökvanum af gulu baunum en það þarf ekki að skola þær.
SALAT DRESSINGIN (hlutföllin svolítið eftir smekk hvers og eins):
½ krukka (undan fetaosti t.d.) góð extra virgin ólífuolía
½ hvítlaukur
1 msk Dijon sinnep
börkur af 1 sítrónu eða lime rifinn
safi úr ½ til 1 sítrónu eða lime
2-3 msk. af Teriyaki sósa, smakkist til
chilli flögur (elska þær) má sleppa
3-5 msk kalt vatn
1 msk Agave síróp eða eftir smekk
Öll hráefnin eru sett saman í krukkuna og hrist saman.
Salat dressingin er tilbúin.
Myndir: Björg Helen Andrésdóttir
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025