PLÚTÓ, ÚRANUS OG FULLT TUNGL

PLÚTÓ, ÚRANUS OG FULLT TUNGL

Í síðari hluta janúar verða ótrúlega mikil umskipti í stjörnuspekinni. Fyrir utan Tunglið sem verður fullt í Ljóninu þann 25. janúar, tengjast þessi umskipti bæði Úranusi og Plútó. Það tekur Úranus 84 ár að fara einn hring um sporbaug sinn og Plútó 248 ár. Því utar sem pláneturnar eru á sporbaug sínum og þeim mun lengri tíma sem það tekur þær að fara einn hring um sporbaug sinn, því meira mikilvægi hafa þær í stjörnuspekinni.

Við vitum að Sól, Tungl og Merkúr fara nokkuð hratt yfir, en þegar það verða breytingar hjá þessum ytri plánetum, eru það breytingar sem mannkynið sem heild finnur fyrir, en við finnum líka vel fyrir þeim hvert og eitt okkar. Um næstu áramót, eru allar líkur á að við lítum til baka og gerum okkur grein fyrir að hlutirnir verði aldrei eins aftur.

EINSTAKT ÞRÓUNARTÆKIFÆRI

Þetta er á mjög jákvæðan hátt einstakt þróunartækifæri og við munum virkilega finna það og fá jafnframt meiri upplýsingar um heimsfræðina, eðlisfræðina og meiri upplýsingar á margan hátt um eigin persónulega andlega reynslu okkar.

Kringumstæður eru líklegar til að verða yfirþyrmandi í þessu ferli og við eiga erfitt með að átta okkur strax á þeim, en þá er gott að segja: Ég tek á móti aukinni meðvitund um kærleika.“ Árið framundan kemur til með að snúast um aukna meðvitund okkar um kærleikann og aukna meðvitund almennt. Skilningur okkar á fjölvídd kemur til með að tengjast tilfinningu okkar fyrir einingu alls sem er.

JARÐSEGULSVIÐSORKAN ÓSTÖÐUG

Jarðsegulsviðsorkan er mjög óstöðug sem stendur og vegna þess að það er mikil virkni á Sólinni (Sólgos o.fl.). Slíkt getur leitt til mikils óstöðugleika, vegna þess að það er svo mikið af nýjum upplýsingum sem koma til okkar frá fjarlægum Vetrarbrautum, en hafið í huga að þessar nýju upplýsingar flytja með sér efni (agnir) sem eru að stuðla að framþróun okkar.

Allt kemur til með að gerast mjög hratt, en við erum að taka á móti þessum nýju hráefnum fyrir framþróun okkar og breytingin er að koma djúpt utan úr geimnum vegna þess að í Alheiminum er allt eitt. Orkan hefur áhrif á hverja einustu frumu í líkama okkar, því það er bara eitt flæði og í flæðinu erum við ein meðvitund.

PLÚTÓ OG BYLTINGARORKAN

Tuttugasti janúar var mjög stór dagur vegna þess að Sólin var í samstöðu við Plútó á allra síðustu mínútu Steingeitarinnar eða á 29 gráðum og 59 mínútum. Samstaða þeirra var næstum eins og upphrópunarmerki, því þetta var lokagráðan og lokamínútan í Steingeitinni.  Nokkrum klukkustundum síðar renndu báðar pláneturnar sér saman inn í Vatnsberann.

Plútó var í Vatnsberanum í 3 mánuði í fyrra, frá mars og fram í júní. Á þessu ári verður hann  í 9 mánuði í Vatnsberanum, fer aftur inn í Steingeitinn frá 2. september til 19. nóvember, og síðan aftur inn í Vatnsberann, þar sem hann verður næstu rúmlega 20 árin. Tuttugasti janúar er ekki eins dags fyrirbæri, heldur upphafið á tuttugu og eins árs ferli Plútós í Vatnsberanum, sem mun hjá mörgum okkar ná yfir restina af lífi okkar – og þess vegna er þetta svo mikið mál.

Orkan verður allt önnur og þema hennar er mjög skýrt, svipað og þegar franska byltingin og ameríska byltingin urðu fyrir um það bil 250 árum. Hún gæti orðið hægfara til að byrja með, en svo tekur hraðari þróun við. Skoðið hvað hefur verið að gerast í Þýskalandi undanfarna daga hjá þýskum bændum. Þar kemur fólk saman og neitar að fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Við stöndum með okkur sjálfum, hvað sem pólitíkin segir.  Sjáið stóru myndina í þessu og forðist að falla inn í allt tal um hægri eða vinstri, bláa eða rauða flokka og það gamla þriðju víddar viðhorf.

AFHJÚPUN SPILLINGAR

Ferli Plútós er frekar flókið en þegar plánetan færist á milli stjörnumerkja, er einn þáttur í því ferli hennar að draga fram spillingu og leyndarmál í kringum táknmynd þess stjörnumerkis sem hún er í hverju sinni. Þegar Plútó fór inn í Steingeitina árið 2008 lentum við í fjármálakreppu vegna þess að Steingeitin er táknræn fyrir stórfyrirtæki, auðlegð, hlutabréfamarkaði og banka.

Núna þegar Plútó er í Vatnsberanum gæti komið upp einhvers konar kreppa. Hún þarf ekki að verða í janúar, því það gætu liðið nokkrir mánuðir þar til hún yrði áberandi, en við megum eiga von á opinberun á spillingu í tengslum við vísindin, sem gæti orðið mjög áhugaverð. Eins eru líkur á að opinberun verði á spillingu í kringum tækni sem gæti leitt í ljós ýmis konar falda dagskrá í kringum aðrar verur í Galaxíinu.

ENDURVIRKJUN OG UMBREYTING

Vatnsberinn er einnig tengdur ókeypis orku og tækni sem ekki hefur verið í boði fyrir almenning. Plútó er líka að endurvirkja þá STÓRU samstöðu, sem varð á Vetrarsólstöðum þann 21. desember árið 2020 á milli Júpíters og Satúrnusar. Þessi mikla samstaða markaði upphafið á nýrri 800 ára hringrás plánetanna og í um það bil fyrstu 200 árin mun samstaða Júpíters og Satúrnusar alltaf verða í loftmerkjum.

Sú samstaða kemur til með að setja af stað nýtt félagslegt, efnahagslegt og pólitískt ferli, eða endurreisn í samfélagshagfræði og pólitískri uppbyggingu. Skilaboðin eru skýr, því um leið og  Plútó fer úr Steingeitinni yfir í Vatnsberann, hættir stjórnun að verða ofan frá og niður og færist í átt að láréttri stjórnun, þar sem venjulegt fólk kemur að stjórnuninni.

ENDALOK HINS GAMLA 

Tuttugasta og níunda gráðan sem Plútó var á rétt áður en hann rann inn í Vatnsberann, hefur tilhneigingu til að tjá skuggahliðar þess sem hvert stjörnumerki er táknrænt fyrir. Hjá Steingeitinni eru það málefni í kringum stjórnun og vald að ofan og niður. Líklegt er að mál í kringum slíkt verði háværari og að mikil hvöt verði til að halda fast í óbreytt ástand á þeirri valdaskipan sem verið hefur. Það gæti verið sérlega áberandi í kringum janúar, september, október og nóvember á meðan Plútó verður á þessari síðustu gráðu í Steingeitinni, en hann kemur til með að verða á þeirri gráðu og fyrstu gráðu í Vatnsberanum allt þetta ár.

Sú staða markar endalok hins gamla og upphaf hins nýja. Það er því enginn vafi á því að á þessu ári verða stórfelldar breytingar. Verið meðvituð um það og líka það að miklar tilraunir verði gerðar til að halda óbreyttu stjórnarfari. Orkan frá plánetunum er þó að stýra okkur  í átt að alveg nýju samfélagi og alveg nýrri framtíð.

DANS SENDA OG PLÚTÓ

Framundan er langtímadans í 120 gráðu samhljóma afstöðu á milli dvergplánetunnar Sedna í Nauti, sem tekur 11.400 ár í að fara einn hring um sporbraug sinn, og Plútós bæði meðan hann er aftast í Steingeitinni og eins þegar Plútó er kominn inn í Vatnsberinn. Þessi afstaða mun halda áfram allt þetta ár og meirihluta næsta árs.

Táknmynd beggja pláneta snýst um umbreytingar og við munum sjá þær gerast á fjármálasviðinu (Nautið), svo og á samskiptasviðinu (Vatnsberinn), í nýjum uppfinningum og nýrri tækni, sem geysist fram á miklum hraða.

Orkan kemur líka til að snúast um að sleppa tökum á gömlum öryggisþáttum, því eins og þið munið úr mýtunni um Sedna, skar faðir hennar fingurna af henni þegar hún reyndi að klifra inn í kajakinn hans til að bjarga sér. Kajakurinn var hennar eina öryggi í gamla samhenginu, svo hún reyndi að hanga á honum til að bjarga lífi sínu.  

KRAFTUR OKKAR OG GLEÐIN

Þótt Sedna hafi sokkið niður á hafsbotn og umbreyst er það ekki merki um að við séum að fara að deyja. Við munum dafna á margan hátt en við þurfum að sleppa takinu á því sem við höfum hingað til litið á sem gamla öryggisþætti, því þeir eiga eftir að breytast róttækt. Það verður í raun líka spennandi og það er mikilvægt að taka ákvörðun um að dafna og vera glaður.

Við þurfum að velja að vera glöð í lífi okkar vegna þess að það er svo auðvelt að vera í ótta, kvíða og drunga. Það er svo mikilvægt að finna gleði í hverjum degi og ákveða að hlæja daglega eins og börn gera.

Eins er mikilvægt að gera sér grein fyrir því á þessu ári hvar kraftur okkar liggur. Er hann utan við okkur eða innra með okkur. Mikilvægt er að setja sér skýran ásetning um að lifa innan frá og út, vegna þess að þegar þú leiðir líf þitt út frá þínum innri krafti, ert þú ekki að víkja fyrir utanaðkomandi yfirvöldum eins og mörg okkar hafa gert allt okkar lífi, en því er mikilvægt að breyta núna.

ÚRANUS BREYTIR UM STEFNU

Innan sjö daga frá því að Plútó fer aftur inn í Vatnsberinn mun Úranus sem stjórnar Vatnsberanum stöðvast til að snúa við og fara beint áfram. Hann er síðasta plánetan til að breyta um stefnu og fara beint áfram og þeirri breytingu mun fylgja mikill skriðþungi. Merkúr mun fara afturábak í 3 vikur í apríl en þar fyrir utan eru hinar pláneturnar allar á hreyfingu fram á við, fram í júní þegar Plútó breytir um stefnu til að fara afturábak.

Úranus hreyfist varla þennan mánuð, kannski nokkrar mínútur á hverjum degi, uns hann verður kyrrstæður þann 27. janúar á 19 gráðum í Nauti. Ef þið eruð með einhverjar plánetur í föstu merkjunum Nauti, Ljóni, Sporðdreka eða Vatnsbera, einhvers staðar á milli 18 til 22 gráður í þessum merkjum, eru líkur á það finnið fyrir eirðarleysi. Afstaðan vekur upp brýna þörf fyrir nýjungar og fjölbreytni. Skoðið því hvar þessar gráður lenda í fæðingarkortum ykkar.

Hreyfing Plútós fram á við í Vatnsberanum, mun verða samhljóma orkunni sem tengist Úranusi. Úranus stjórnar Vatnsberanum og verður því í samhljómi við Vatnsberaorkuna. Það eru líkur á að við finnum fyrir meiri jarðskjálftavirkni og stórum, öfgafullum atburðum í náttúrunni. Líklegt er að við sjáum mikið af eiginlegum jarðskjálfum, svo og pólitískum, fjármála- og hagfræðilegum jarðskjálftum.

RAFSEGULMAGN – EMF BYLGJUR

Við erum líkleg til að læra mikið um rafsegulmagn(-bylgjur) á þessu ári, vegna þess að Úranus og Vatnsberinn eru tengdir rafsegulmagni, bæði náttúrulegu rafsegulmagni, auk þess sem við erum rafsegulverur sem búum í stórri rafsegulsúpu, með allri þeirri nútímatækni, sem notar í auknu mæli óeðlilega mikið af rafsegulorku.

Við megum eiga von á að það verði meira um rafmagnsleysi, netárásir af öllum gerðum, og alls konar sannleikur afhjúpast sem sjokkerar og kemur á óvart – meðal annars sannleikur um Vetrarbrautina og verur frá öðrum plánetum. Allt þetta og meira til er líklegt til að koma upp á yfirborðið og orkan á eftir að verða mjög hverful og getur breyst án fyrirvara allt þetta ár.

HÁTÍÐNILJÓS

Umbreytingin tengist mun meira hátíðniljósi sem er að koma inn til Jarðar og er að hræra upp í gömlu rykugu umhverfi og dregur fram allt hið grugguga sem liggur fast í rykinu á lágri tíðni. Þessi lága tíðni mun leysast upp og molna en því fylgir óstöðugleiki á öllum stigum, vegna þess að þessi ósýnilega háa orkutíðni hefur áhrif á Jörðina og á hverja einustu frumu hjá okkur sem einstaklingum.

Hvort sem það verður hækkandi tíðni orkunnar, náttúruhamfarir á Jörðinni, pólitískar eða efnahagslegar hamfarir eða eitthvað annað eru líkur á að ástandið leiði til eldfimra aðstæðna sem geta breyst án fyrirvara

Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að stunda hugleiðslu eða aðrar leiðir til að öðlast innri ró, til að geta sett sig í það ástand þegar allt virðist vera á hvolfi í kringum okkur. Finna sinn eigin innri kjarna og þá ró sem þar ríkir. Góð leið er líka að segja við sjálfan sig þegar farið er á fætur á morgnana: „Ég lifi í kærleika og friði“ – og setja þannig tóninn fyrir daginn.

FULLT TUNGL Í LJÓNI

Ástæðan fyrir því að umfjöllun um fulla Tunglið byrjar á umfjöllun um innkomu Plútós í Vatnsberann og þær breytingar sem við megum vænta þegar Úranus breytir um stefnu og fer fram á við, er sú að fulla Tunglið tengist þessum umfangsmiklu umbreytingum. Þessar afstöður hafa áhrif í nokkrar vikur fyrir og nokkrar vikur eftir að þær verða, svo væntanlega eru miklar breytingar að gerast á bak við tjöldin. Óvíst er að við sjáum þær fyrr en eftir að Tunglið verður fullt, en full Tungl marka gjarnan endalok einhvers ferlis.

Tunglið verður fullt hér á landi kl. 17:54 þann 25. janúar á 5 gráðum og 14 mínútum í Ljóni. Skoðið endilega hvar þessi staða lendir í persónulegu stjörnukortunum ykkar, til að skoða hvaða ferli í lífi ykkar er að enda eða er komið að hápunkti, til að skilja betur merkingu lífs ykkar og það sem er að gerast í því. Ljónið tengist fyrst og fremst hjartaorkunni og á fullu Tungli eru Sól og Tungl alltaf í 180 gráðu spennuandstöðu hvort við annað.

HJARTAORKA LJÓNSINS

Ljónið er það stjörnumerki sem tengdast er hjartanu og þar sem Sólin er í Vatnsbera og Tunglið í Ljóni, snýst þetta í raun um jafnvægi milli æðri hugans (Vatnsberinn) og hjartans (Ljónið). Þess vegna er Hjartaöndun svo mikilvæg, því með henni öndum við inn og út um hjartað og tengjum hjartað við hugann og myndum samræmi í líkamanum.

Hjartað sendir  meira af upplýsingum til heilans, en heilinn sendir til hjartans. Með þessari öndun drögum við úr streitu,  komum á innra jafnvægi í líkamanum, lækkum blóðþrýsting og fínstillum heilsuna okkar.  

TÁKN KONUNGSINS

Hjartaorka Ljónsins er tákn konungsins. Hún er tákn fullveldis og styrkir okkur í að vera leiðtogar í eigin lífi. Með þessari orku Ljónsins getum við í hreinskilni sagt að við séum leiðtogar í eigin lífi og stöndum sterk í fullveldi okkar. Fullveldi sem er ekki árásargjarnt á nokkurn hátt, heldur fullt af kærleika.

Þessi orka gerir okkur kleift að vera öflugir meðskapendur, því þetta er eins konar andlegt fullveldi. Ljónsmerkið er mjög táknrænt fyrir áreiðanleika, heiðarleika og að koma á réttlæti gagnvart fólki sem  hefur logið og/eða verið hrokafullt hér á Jörðinni.

STÓRKROSS Í KORTINU

Eitt af stóru þemunum í korti fulla Tunglsins er fastur Stórkross (ekki teiknaður inn á kortið) á milli Sólar og Tungls á 5 gráðum í sínum merkjum og Júpiters á 6 gráðum í Nauti og Haumea á 2 gráðum í Sporðdreka. Þessum krossi í föstum merkjum fylgir gífurleg ákveðni, gremja og fastheldni á að sjá hlutina á ákveðinn máta og því eru líkur á að margir muni upplifa orkuna á þann máta.

Júpíter á 6 gráðum í Nauti sem er í 90 gráðu spennuafstöðu við fullt Tungl í Ljóni, er líklegur til að stækka og þenja út allt sem er að gerast núna. Líkur er á að það verði einhver stór atburður á Jörðinni, einhver stór jarðskjálftaviðburður eða eitthvað því um líkt,  vegna þess að Júpiter er ekki svo langt frá Úranusi og í nokkuð nákvæmri 90 gráðu spennuafstöðu við Plútó sem er nýkominn inn í Vatnsberann. Sú staðreynd að Júpíter er í Jarðarmerki, bendir til þess að við gætum orðið vitni að mjög stórum atburði tengdum Jörðinni, en hafið í huga að allt slíkt umrót er hluti af því að mynda nýja Jörð.

Á MIÐJU SVIÐI Í LEIKRITI LÍFSINS

Þessi fasti Stórkross með Júpíter, Tungli, Haumea og Sólinni er ofurmáttugur. Sólin er enn í samstöðu við Plútó eins og hún var þann 20. janúar. 180 gráðu andstaða hennar við Tunglið í Ljóni er klassískt tákn um að standa á miðju sviði í leikriti lífsins. Svona eins og, „Ég er mættur og við getum byrjað núna“. Þetta er á vissan hátt kosmískur brandari og er mjög tengdur leiklistarheiminum eða fólki sem verið hefur í kastljósinu.

IXION, LJÓNIÐ OG DRAMAÐ

Ixion er ótamdi þátturinn í okkur sem spyr reglulega að því hvort reglurnar sem við erum að spila eftir séu þær réttu. Ixion er á 5 gráðum í Steingeit í samstöðu við Venus á 2 gráðum í Steingeit. Þar sem þessar plánetur eru núna í Steingeit, ættum við að vera að spila eftir réttu reglunum og það með kærleika Venusar okkur til halds og trauts.

Við þurfum að stefna að því að vera alltaf í kærleikanum og hafa hann sem viðmið í öllu sem við gerum á þessu ári og vinna alla hluti út frá hjartanu og út frá andlegu fullveldi okkar, sem vinnur innan frá og út – en ekki utan frá og inn.

 Þetta gæti orðið frekar dramatískt því Ljónið elskar drama og Plútó og Úranus undirstrika þá orku frekar en hitt – en eftir janúar höldum við inn í það sem kalla má rafmagnaðan mánuð – því febrúar verður rafmagnaður á margan máta. Munið því að halda innri ró, hugleiða, biðja eða hlusta á róandi tónlist til að slaka á, vera í augnablikinu og tengjast ykkar innri kjarna.

Eftirfarandi tilvitnun er í orð Dr. Martin Luther King  sem aldrei gaf neitt eftir, hélt áfram að stíga inn í eigið fullveldi allt sitt líf og sagði:

„Myrkur verður ekki rekið út með myrkri, aðeins ljós getur gert það. Hatur verður ekki rekið út hatri, aðeins kærleikur getur gert það.“

Hægt er að fá nánari upplýsingar um persónuleg stjörnukort með dvergplánetunum með því að SMELLA HÉR!

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn. Allir nýjir áskrifendur fá ókeypis netútgáfu af bók minn LEIÐ HJARTANS þegar þeir skrá sig.

 Myndir: Stjörnukort fyrir Reykjavík á fullu Tungli, stytta af Sedna í gömlu höfninni í Nuuk á Grænlandi.

Heimildir: Útdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory fyrir fullt Tungl í Ljóni í janúar 2024. Skýringarnar í heild sinni má SJÁ HÉR!

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram