LAMBAPOTTRÉTTUR MEÐ SÆTUM KARTÖFLUM OG DÖÐLUM

Þetta er einfaldur og fljótgerður lambapottréttur, sem frábært er að njóta hvort sem er í miðri viku eða um helgi. Döðlurnar og kryddið gefa honum sérstakt og örlítið sætt bragð, svo notið frekar meira en minna af döðlunum, því allir vilja fá minnst 2–3 á sinn disk.

FYRIR 2-3:

 • 500 g lambakjöt, gúllaskjöt eða lærvöðvi, skorið í 2,5 cm teninga
 • 300 g sætar kartöflur, afhýddar, þvegnar og skornar í 2,5 cm teninga
 • 1 smátt saxaður laukur
 • 1 msk steikingarolía frá Himneskri hollustu
 • fínt himalajasalt og nýmalaður svartur pipar
 • 1½ tsk kúmenfræ
 • 2 tsk malað kóríander
 • 2 tsk Ceylon-kanill frá Himneskri hollustu
 • 1½ msk tómatpúrra frá Himneskri hollustu + 4 dl sjóðandi vatn
 • ½–1 bolli af steinlausum döðlum frá Himneskri hollustu
 • 2 msk gróft saxað ferskt kóríander eða steinselja

Aðferð:

1. Hitið olíuna að meðalhita í stórum potti. Byrjið á að steikja kúmenfræin í henni og þegar af þeim kemur sætur ilmur, bætið þá fyrst lauk og svo lambakjöti út í pottinn, kryddið með salti og pipar og steikið, þar til lambakjötsbitarnir eru brúnaðir á öllum hliðum.

2. Bætið sætum kartöflum og öðru kryddi í pottinn og veltið því í olíunni og látið brúnast dálítið. Hrærið saman sjóðandi vatni og tómatpúrru og hellið í pottinn. Látið suðuna koma upp.

3. Setjið lok á pottinn og látið krauma við lágan hita í 20–25 mínútur þar til sætu kartöflurnar og lambakjötið eru orðin mjúk. Bætið heilum döðlunum út í pottinn og sjóðið í 5 mínútur til viðbótar.

4. Stráið fersku söxuðu kóríander eða steinselju yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

Hægt er að bera þennan rétt fram með soðnu kínóa, sem þá er sett í botninn á djúpum diski og kjötrétturinn svo ofan á. Ef ekki er til kínóa má bæta aðeins meira af sætkartöflubitum í réttinn og láta þá duga sem meðlæti.

Uppskriftin er úr bókinni HREINN LÍFSSTÍLL, en í henni eru uppskriftir að glútenlausum réttum.
Bókin er á sérstöku tilboðsverði 4.790 kr. í eina viku – þ.e. frá þriðjudegi 4. sept. til loka dags mánudaginn 10. sept. FRÍ heimsending. 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
 • 601 Posts
 • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram