SENDUM KÆRLEIKSORKU TIL HEIMSINS

SENDUM KÆRLEIKSORKU TIL HEIMSINS

Ég hef á undanförnum mánuðum oft hvatt fólk sem hefur hlustað á beinar útsendingar á Facebook síðu minni eða er í námskeiðshópnum mínum STJÖRNUSKIN, til að stunda HJARTAÖNDUN.

Hugmyndin að HJARTAÖNDUN kemur frá Institute of HeartMath[i] í Bandaríkjunum, sem er sjálfstæð starfandi rannsóknarstofnun, sem kannar áhrif hjartans og mikilvægi þess á líf okkar og umhverfi.

 „Hafðu þor til að tengjast hjarta þínu. Með því munt þú ekki aðeins
hækka þína eigin tíðni, heldur líka þeirra sem þú elskar og
þykir vænt um, svo og heimsins sem þú býrð í.“

– Doc Childre stofnandi HeartMath

BETRI TENGING VIÐ HJARTAÐ

Með því að stunda HJARTAÖNDUN og tengjast þannig hjörtum okkar betur förum við að koma jafnvægi á efnisleg, huglæg og tilfinningaleg kerfi líkamans. Samtímis förum við að ná betra sambandi við innsæiseiginleika hjartans og eiga auðveldar með að fylgja leiðbeiningum þess.

Þegar við tengjumst visku hjartans verða djúpstæðar breytingar innra með okkur, sem hjálpa okkur að takast á við kringumstæður af meira tilfinningalegu jafnvægi, umburðarlyndi, skýrleika og persónulegu sjálfstrausti.

TÍÐNI HJARTANS ER KÆRLEIKUR

Kærleikurinn er grunntíðni hjartans. Hann nær að sameina og lyfta fólki upp yfir aðgreiningu. Með því að senda frá okkur kærleiksorku erum við smátt og smátt að auka vægi kærleikans í umhverfi okkar, svo og í öllum heiminum.

Með því að æfa sig í að senda reglubundið út kærleiksorku erum við ósjálfrátt að byggja upp þann ásetning að taka á öllum málum með kærleikann að leiðarljósi. Það leiðir svo til þess að það verður minna um streitu í samskiptum okkar við aðra.

Þegar við sendum reglulega frá okkur kærleiksorku mildar það orkusviðið í kringum okkur og auðveldar öðrum að tengjast sinni eigin kærleiksorku og upplifa einlægari tengingu við okkur.

ÁHRIFIN Á HEIMINN

Þau áhrif sem HJARTAORKAN hefur á heiminn eru enn á byrjunarstigi, en þau eru að aukast með aukinni meðvitund og skilningi á þeim krafti sem í kærleikanum býr. Þau munu halda áfram að aukast samhliða því sem við færum okkur upp í fimmtu víddina. Hugurinn einn getur ekki tekist á við streitu og örvæntingu, en með því að tengja sig við hjartað er hægt að vinna á slíkum tilfinningum.

Við eigum erfitt með að finna hamingju og frið, nema því aðeins að við opnum hjörtu okkar. Þegar við opnum hjörtu okkar fara samskipti okkar að byggjast á góðvild, samvinnu og virðingu fyrir menningarlegum mismun. Þeirri umbreytingu getur kærleikurinn einn áorkað.

Margir eru farnir að skilja þetta, en eiga erfitt með að muna að senda kærleika reglulega frá sér, en endurteknar og reglubundnar sendingar á kærleiksorkunni geta skipt svo miklu máli.

Ég hef mjög góða persónulega reynslu af HJARTAÖNDUN, því ég hef æft hana daglega í rúmlega hálft ár.

ÆFUM OKKUR Í REGLULEGUM KÆRLEIKSSENDINGUM

Væri ekki frábært ef við værum öll tilbúin til að skuldbinda okkur, til að senda frá okkur kærleiksorku í eina eða tvær mínútur á dag. Við getum gert það inn á milli verkefna yfir daginn, fyrst á morgnana eða seint á kvöldin.

Þetta er tiltölulega einfalt verkefni sem hægt er að framkvæma með því að anda í HJARTAÐ og senda út kærleika hvar sem verið er. Meðan verið er í búðinn að versla, þegar verið er í símanum, að hlusta að fréttirnar, með fjölskyldu og vinum, fyrir fundi eða meðan þeir standa yfir, meðan verið er að keyra eða í gönguferðinni.

Jafnvel þótt við séum kannski ekki tilbúin til að skuldbinda okkur lengur en í eina viku til að gera þetta, mun það auka okkar eigin vellíðan og leiða til skýrari hugsunar og skilvirkari valkosta.

SVONA SENDUM VIÐ ÚT KÆRLEIKA

HeartMath gefur út eftirfarandi leiðbeiningar um það hvernig við sendum kærleiksorku frá okkur.

1 – Beindu athygli þinni að hjartanu og andaðu að þér þeirri kærleikstilfinningu og þeirri virðingu sem þú berð til einhvers. Það eykur áhrifin á ásetning hjartans og þenur út orkusvið þess[ii].

2 – Skynjaðu svo hvernig hjarta þitt tengist öðrum um allan heim, sem eru að senda kærleika og umburðarlyndi inn í orkusvið Jarðar, til að stuðla að hærri hjartatíðni mannkyns og draga úr streitu hjá heildinni.

3 – Sendu frá þér kærleiksorku og umburðarlyndi með þeim ásetningi að orkan dragi úr þeirri þjáningu sem svo margir eru að upplifa, til að heila alla aðgreiningu, dómhörku og klofning manna á milli, sem er að búa til öldur af streitu, kvíða og óöryggi um allan heim. Um leið og þú æfir þig í að senda út kærleiksorku, skynjaðu þá hvernig þú ert að leggja þitt af mörkum til bestu útkomu fyrir alla.

4 – Taktu ákvörðun um að senda út kærleiksorku, inn á milli annara verkefna dagsins, eins oft og þú manst eftir, til einstaklinga, kringumstæðna eða málefna sem þér er annt um. Það er líka mjög áhrifaríkt að senda út kærleiksorku til þeirra sem þér er ekki annt um, því kærleikurinn er öflugri en öll önnur orka.

Við byggjum upp dásamlega kærleiksorku í okkur sjálfum, vellíðan og meiri tengingu við tilfinningar okkar með því að senda reglulega út kærleiksorku til annara og heimsins í heild sinni.

Fyrir þá sem vilja læra meira um hjartaorkuna hjá HeartMath, bendi ég á vefsíðu þeirra þar sem þeir bjóða upp á ókeypis aðgang að námskeiði um hjartaorkuna og hvernig hægt er að auka hana.

Myndir:  Jude Beck on Unsplash

[i] HeartMath – https://www.heartmath.com/

[ii] Mynd frá Institute of HeartMath sem sýnir orkusvið hjartans – https://www.heartmath.org/research/science-of-the-heart/energetic-communication/

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram