Þessi uppskrift er ein af mörgum úr jólamáltíð
að hætti hjónanna í Kryddhúsinu.
Þú finnur uppskrift að JÓLAKALKÚN
KRYDDHÚSSINS – HÉR!
og uppskrift að MEÐLÆTI MEÐ
KALKÚNANUM – HÉR!
Svo er líka uppskrift
að HÁTÍÐASALATI – HÉR!
Það er svo dásamlegt að fá uppskrift að
heilli jólamáltíð svona á einu bretti!
Engin máltíð er alveg fullkomin fyrr en eftirrétturinn toppar hana. Hér gefur Ólöf Einarsdóttir í Kryddhúsinu okkur uppskrif að spennandi eftirrétti, sem á örugglega eftir að kveikja í bragðlaukunum hjá mörgum
KANIL- OG PEKANHNETU ÍS MEÐ KRYDDLEGNUM PERUM
INNIHALDSEFNI Í ÍSNUM
500 gr pekanhnetur
3-4 msk hlynsíróp
1 tsk kanill malaður frá Kryddhúsinu
AÐFERÐ VIÐ HNETURNAR:
1 – Blandið hlynsírópinu og kanilnum saman í skál og veltið pekanhnetunum upp úr kanilsírópinu.
2 – Dreifið hnetunum á smjörpappírsklædda ofnplötu og ristið í 180° C heitum ofni í u.þ.b. 10 mín.
3 – Þá er platan tekin út og hneturnar látnar kólna svo þær verði stökkar í ísnum.
INNIHALDSEFNI Í ÍSBLÖNDUNA
2 bollar rjómi
1 bolli mjólk
2/3 bollar hrásykur
1-2 tsk vanilla
1 msk Kanill malaður frá Kryddhúsinu
5 eggjarauður (hrærðar)
AÐFERÐ VIÐ ÍSINN:
1 – Setjið rjómann, mjólkina og kanilinn í pott og hitið nær suðu.
2 – Þegar hliðarnar byrja að krauma takið þá pottinn af hellunni, lækkið strauminn á miðlungs hita og takið eins og 1/3 bolla af heitri rjómablöndunni og hellið í mjórri bunu út í skálina með hrærðu eggjarauðunum.
3 – Passið að hræra í allan tímann. Þetta er gert 2-3 sinnum til að tempra eggjarauðurnar. Hellið svo eggjarauðunum út í pottinn og setjið á helluna og látið krauma án þess að sjóði þar til hræran fer að þykkna.
4 – Mikilvægt að standa hjá pottinum og hræra annað slagið í annars er hætta á að eggjarauðurnar fari að skilja sig og þá er hræran ónýt.
5 – Þetta tekur u.þ.b. 10 mín. Þegar hræran helst aftan á skeið án þess að leka af þá er hún tilbúin.
6 – Bætið vanillunni út í og látið hræruna kólna áður en grófskornum pekanhnetunum eru bætt útí og ísinn settur í ílát með loki og inn í frysti.
Mér finnst betra að setja blönduna í ísvél en þannig verður ísinn léttari og „rjómakenndari“ en það gengur vel að sleppa því að nota ísvél.
Athugið! Það er gott að leggja plastfilmu ofan á yfirborðið áður en lokið er sett á til að varna því að það myndist klaki.
Takið ísinn út úr frysti eins og 10-15 mín áður en hann er borinn fram.
RAUÐVÍNSLEGNAR PERUR Í JÓLAGLÖGGSSÍRÓPI
Það er smart að bera þessar perur fram með KANIL- OG PEKANHNETUÍSNUM eða einar sér með þeyttum rjóma. Þær krefjast smá undirbúnings en er það ekki einmitt það sem við leyfum okkur um jólin, að verja meiri tíma í matarundirbúning en aðra daga.
PERURNAR OG SÍRÓPIÐ
1 lítri rauðvín (ég nota ódýrt beljuvín)
2 kúfaðar msk Jólaglöggskryddblanda frá Kryddhúsinu
500 gr hrásykur
6-8 litlar perur eða færri stærri og þá skera þær til helminga.
AÐFRÐ:
1 – Setjið rauðvínið í stórann pott ásamt Jólaglöggskryddinu og hrásykrinum. Látið suðuna koma upp og sjóðið á meðan þið græjið perurnar eða í u.þ.b. 10-15 mín.
2 – Það er fallegt að hafa litlar perur en ef þær fást ekki þá má nota þessar venjulegu en skera þær þá til helminga. Kjarnhreinsið perurnar og setjið þær út í sjóðandi rauðvínið.
3 – Látið sjóða í 20-30 mín eða þar til perurnar eru orðnar mjúkar í gegn (passið að mauksjóða þær ekki).
4 – Veiðið þá perurnar upp úr pottinum og látið rauðvínssírópið sjóða niður þar til þið eruð sátt við þykkt/áferð sírópsins.
5 – Sigtið þá kryddið frá og hellið sírópinu í krukku. Þetta má gera daginn áður og geyma perurnar í lokuðu íláti inn í ísskáp.
6 -Gott er að taka perurnar úr ískápnum þó nokkru áður en þær eru bornar fram eða að taka svolítið síróp og hita í potti með perunum til að fá þær mýkri áður en þeirra er neytt.
7 – Hellið aðeins af sírópinu yfir perurnar og berið þær þannig fram með ísnum. Restina af sírópinu má nota til að bragðbæta sósur, út á hvers kyns eftirrétti eins og Ris a la mand, í heita drykki svo eitthvað sé nefnt. Það geymist vel í lokuðu íláti á svölum stað.
Jólaglöggssírópið er til dæmis frábært út í sósuna með JÓLAKALKÚNANUM
Myndir: Ólöf Einarsdóttir
Kryddin frá Kryddhúsinu fást í Hagkaup, Krónunni, Nettó og Fjarðarkaupum – og á Kryddhus.is.
—
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025