D-VÍTAMÍN Á DIMMUSTU DÖGUM ÁRSINS

D-VÍTAMÍN Á DIMMUSTU DÖGUM ÁRSINS

Núna á dimmustu dögum ársins er um að gera að taka inn D-vítamíni til að styrkja ónæmiskerfið. Líkaminn framleiðir nefnilega ekki D-vítamín nema fyrir örvun frá sólarljósinu og þegar sólar nýtur nánast ekkert við, er nauðsynlegt að bæta sér upp skortinn með því að taka inn bætiefni.

D-VÍTAMÍN HEFUR VÍÐTÆK ÁHRIF Á HEILSUNA

Á síðustu árum hefur þekking á virkni D-vítamíns aukist mjög og vísindamenn komist að raun um að það hefur áhrif á næstum alla starfsemi líkamans. Í einni rannsókn var þáttur D-vítamíns og áhrif þess á starfsemi eða sjúkdómsmyndun í skjaldkirtli rannsakaður, svo og hvort D-vítamínskortur hefði áhrif á sjálfsónæmissjúkdóma í skjaldkirtli eins og Hashimoto‘s, sem er vanvirkni í skjaldkirtli eða Graves‘ sjúkdóminn, sem er ofvirkni í skjaldkirtli. Einnig voru tengslin á milli D-vítamíns og krabbameins í skjaldkirtli rannsökuð.

Ég velti fyrir mér hvort hin háa tíðni vanvirks skjaldkirtils hjá konum á Íslandi sé vegna D-vítamínsskorts. Væntanlega myndi gott magn af D-vítamíni í líkamanum bæta virkni skjaldkirtilsins, en hann gegnir meðal annars mikilvægu hlutverki í efnaskiptum líkamans.

Með lyfjum gegn vanvirkum skjaldkirtli er hins vegar slökkt á starfsemi kirtilsins og lyfin eiga að sjá um að framleiða þau hormón sem hann annars gerir.

SKORTUR MEÐAL BARNA OG FULLORÐINNA

Rannsóknir bandaríkjamannsins Dr. Michael Holick sýna að skortur á D-vítamíni er algengari en talið var, bæði meðal barna og fullorðinna. 

Einkenni um D-vítamínskort tengjast m.a. þunglyndi, þar sem serótónín-framleiðsla eykst í sólarljósi og birtu. D-vítamínskortur er einnig mjög tengdur beinum, svo og höfuðsvita, jafnvel hjá nýfæddum börnum, auk þess sem hann er tengdur vefjagigt og einkennum hennar. 

D-VÍTAMÍNNÆMIR SJÚKDÓMAR

Þeir D-vítamínnæmu sjúkdómar sem tengjast í dag helmingi dauðsfalla í heiminum eru hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, sýkingar í öndunarvegi, öndunarvegssjúkdómar, berklar og sykursýki. Rétt er að minna á að hér áður fyrr voru sólböð einmitt notuð til að lækna berkla. 

Minni hætta er á ofangreindum sjúkdómum hjá þeim sem eru með nægilega mikið af D-vítamíni í líkamanum. Sem vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum bendi ég líka á Ubiquinol, sem er sérlega gott bætiefni fyrir alla starfsemi hjarta- og æðakerfisins.

D-VÍTAMÍN GEGN C-19

Margir læknar hafa á undanförnum mánuðum bent á mikilvægi þess að taka inn D-vítamín til að vinna á eða verja sig gegn C-19. Breski læknirinn Dr. Damien Downing er einn þeirra, en hann er sérfræðingur í vistfræðilegum lækningum, þótt hann hafi í gegnum tíðina starfað við geðlækningar, taugasjúkdóma og heimilislækningar. Hann leggur í dag áherslu á heildrænar leiðir til að lækna fólk.

Dr. Downing talar reyndar um mikilvægi þess að taka líka inn C-vítamín, sink og magnesíum, til að styrkja ónæmiskerfið, en hann hefur fjallað um mikilvægi D-vítamíns og sólarljóssins í bókum og greinum í meira en 30 ár.

ÁHUGAVERÐ RANNSÓKN Á SPÁNI

Í grein á Orthomolecular Medicine News Service fjallar Dr. Downing um rannsókn sem gerð var í Cordoba á Spáni á 76 sjúklingum, sem lagðir voru inn á sjúkrahús, bæði með einkenni um Covid-19 og bráða öndunarfærasýkingu.

Af þessum sjúklingum fengu 26 almenna sjúkrahúsumönnun, en 50 fengu líka D-vítamín. Notað var 25-hydroxy D-3 vítamín, sem er það virka og yfirleitt það sem mælt er í blóði. 

Skammturinn af D-3 vítamíninu var nokkuð hár eða 18.000 einingar (IU) á dag, en ekki hættulegur. Niðurstaðan úr rannsókninni varð sú að 50% eða 13 úr 26 manna hópnum þurftu að fara á gjörgæslu, á meðan einungis einn úr 50 manna hópnum sem fékk líka D-vítamín þurfti þess.

SKAMMTURINN ER MIKILVÆGUR EN YFIRLEITT MISSKILINN

Dr. Downing segir að við búum yfir öflugri aðferð til að vernda líf og spyr af hverju hún sé ekki notuð? Hann telur það vera vegna víðtæks misskilnings á skammtastærð, bæði á D- og C-vítamínum, sem ræðst af fyrirmælum um ráðlagða dagskammta.

Til að geta varið sig fyrir C-19 með D-vítamíni þarf magn af því í blóði að vera minnst 75 nmol/L. Fullorðinn einstaklingur þarf að taka 4000 IU á dag af D-3 vítamíni í þrjá mánuði til að ná þessu magni. Þeir sem eru með dökka húð þurfa að taka tvisvar sinnum meira. Þessi skammtur getur hindrað eða dregið stórlega úr hættu á alvarlegum veikindum, en er ekki nægilega stór til að meðhöndla bráða sýkingu, ef til hennar er komið. Þá þarf að gefa 60.000 til 120.000 einingar (IU) sem dreift væri yfir eina viku. 

ÞAÐ TEKUR TÍMA AÐ BYGGJA UPP BIRGÐIR

Sumir hafa varað við því að ef teknar séu inn meira en 4000 einingar af D-3 á dag, gæti það valdið skaða með því að magn D-vítamíns færi upp í 500 nmol/L.

Dr. Downing segir stórt bil vera á milli 75 nmol/L og 500 nmol/L, því til að ná birgðum upp í 75 nmol/L af D-vítamíni í blóði, þurfi að taka 4000 IU á dag í þrjá mánuði – en það þyrfti að taka inn 30.000 IU á dag í þrjá mánuði til að komast upp í 500 nmol/L í blóði, og nálgast þar með einhverja mögulega hættu á eitrunaráhrifum.

TAKTU MÁLIN Í EIGIN HENDUR

Í grein Dr. Downing kemur fram að ef öllum hefði verið gefið nægilega mikið magn af D-vítamíni í mars á þessu ári, þegar allir á norðurhveli Jarðar voru að koma út úr dimmum vetri, hefði verið hægt að bjarga mörgum mannslífum. Hann segir jafnframt að ef heilbrigðisyfirvöld séu ekki að mæla með D-vítamíni, getir þú alltaf VALIÐ að taka málin í þínar hendur og byrjað að taka það inn.

Hann bendir líka á að Michael Holick, sem hafi unnið hvað mestar rannsóknir á D-vítamíni, sé kominn með App sem heitir D*minder og að gott sé að byrja á að hlaða því niður í símann. Og svo er bara að kaupa gott D-vítamín, því lýsi dugi ekki. Í því er of mikið af A-vítamíni.

Sjálf nota ég Liposomal Vitamin D3 frá Dr. Mercola, en liposomal bætiefni eru mjög auðupptakanleg fyrir líkamann. Bætiefnin frá Mercola fást í verslunum Mamma Veit Best í Kópavogi og Reykjavík.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Myndir: CanStockPhoto/ Eraxion/Gamjai/zaganDesign

Aðrar heimildir en tenglar í grein eru: Medical News TodayMercola.comPatient.co.ukAjcn.org

Sunshine vitamin and thyroid

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram