FRÁ MARKMIÐUM AÐ ÁRANGRI

MEGINEFNI GREINARINNAR:

Markmið eru að mínu mati nauðsynleg og virka fyrir mig sem drifkraftur og áttaviti fyrir hvert ár fyrir sig. Þau þurfa hins vegar að fela í sér nokkra lykilþætti, svo hægt sé að ná þeim.

  • Í fyrsta lagi þurfum við að vita hvers vegna við viljum ná ákveðnu markmiði.
  • Í öðru lagi þurfum við að hafa markmiðin mælanleg.
  • Í þriðja lagi þurfa þau að vera tímasett, þ.e. við þurfum að setja upphafs- og endadag á markmiðin.

FRÁ MARKMIÐUM AÐ ÁRANGRI

Það eru ennþá nokkrir dagar eftir af þeim þrettán dögum jóla, sem enda ekki fyrr en 6. janúar. Sumir láta markmiðasetningu fyrir árið 2018 bíða fram yfir þrettándanna, á meðan aðrir nýta sér nýársdag til að setja stefnuna fyrir komandi ár. Markmið eru að mínu mati nauðsynleg og virka fyrir mig sem drifkraftur og áttaviti fyrir hvert ár fyrir sig. Þau þurfa hins vegar að fela í sér nokkra lykilþætti, svo hægt sé að ná þeim.

  • Í fyrsta lagi þurfum við að vita hvers vegna við viljum ná ákveðnu markmiði.
  • Í öðru lagi þurfum við að hafa markmiðin mælanleg.
  • Í þriðja lagi þurfa þau að vera tímasett, þ.e. við þurfum að setja upphafs- og endadag á markmiðin.

AF HVERJU NÁUM VIÐ SUMUM EN ÖÐRUM EKKI?

Þetta er stór spurning hjá flestum og væntanlega getur svarið verið aðeins mismunandi, en í flestum tilvikum náum við ekki markmiðum okkar vegna þess að við höfum ekki nægilega brennandi löngun til að ná þeim. Við þurfum nefnilega að hafa þennan tilfinningalega þátt með, til að þau náist. Hún verður eins og stjórntæki og veitir okkur úthald, þegar við þurfum mest á því að halda. Það er nefnilega ekki nóg að skrifa markmiðin niður vegna þess að:

  • Einungis 3% af árangri markmiðasetningar byggist á því að skrifa markmiðin niður.
  • Um 17% af áranginum felst í því að vera með gott plan og áætlun um útfærslu þess – svo og að mæla reglulega hversu vel miðar í átt að því að ná markmiðunum.
  • Um 80% af árangri hvers markmiðs sem sett er, byggist á því að hefjast handa. Taka fyrstu skrefin, fylgja staðfastlega stefnu sinni eftir og veita athygli því sem kann að vera að hindrun í ferlinu. Það eru nefnilega oft tilfinningar eins og ótti, vanmetakennd, lágt sjálfsmat eða aðrar tilfinningar sem geta verið stærsta hindrunin. Afsökunin getur líka verið leti, þegar ákveðið er að nenna ekki einhverju sem reynir á. Til að koma í veg fyrir að falla í þá gryfju er mikilvægt að horfa á bæði innri og ytri hindranir sem tækifæri til frekari þroska og vaxtar – og velja það ferli umfram stöðnun.

MARKMIÐ GETA SNÚIÐ AÐ HVERJU SEM ER

Það er hægt að setja sér markmið um nánast hvað sem er í lífinu. Hjá mörgum kemur mataræði og megrun fljótt upp á listann, einkum um áramót þegar búið er að borða mikið af góðum og frekar fitandi mat yfir hátíðirnar. Líkamsrækt er líka eitt af markmiðunum og í janúar er selt meira af árskortum (sem ekki eru svo notuð nema í skamman tíma) í líkamsræktarstöðvum landsins en aðra mánuði ársíns.

Að mínu mati er heilsan mikilvæg og ég set mér árlega markmið tengd henni. En markmið geta líka snúið að því að hitta meðlimi stórfjölskyldunnar oftar, hafa reglulega samband við vini eða vinkonur, fara í óvissuferð með maka, börnum eða barnabörnum. Í raun geta markmið verið sett um hvað sem okkur dettur í hug að gera til að árið 2018 verði skemmtilegra og skilji eftir sig minningar sem hafa mikið gildi í minningabankanum. Sá banki elskar nefnilega að hlaða niður góðum minningum, sem hægt er að rifja upp aftur og aftur og tapa aldrei gildi sínu.

Veldu að eiga gleðilegt og árangursríkt 2018 – með markmiðum sem gera líf þitt innihaldsríkt og ánægjulegt.

Guðrún Bergmann hefur haldið fyrirlestra og verið leiðbeinandi á ýmsum sjálfsræktarnámskeiðum í 28 ár. Hún er höfundur 17 bóka, sem flestar fjalla um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Nýjustu bækur hennar eru HREINT Í MATINN (uppseld) og HREINN LÍFSSTÍLL. Guðrún hefur leiðbeint um 900 manns í gegnum HREINT MATARÆÐI hreinsikúrinn á tæplega þremur árum.

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram