ÞRJÁR BRAGÐGÓÐAR GRILLSÓSUR FYRIR SUMARIÐ!
Þú finnur ekki bara uppskrift að þremur bragðgóðum og heilsusamlegum grillsósum fyrir sumarið á þessari síðu, heldur líka uppskrift að því hvernig þú getur sett hummusinn þinn í sparibúning. Hún Ólöf Einarsdóttir eiganda Kryddhússins var svo vinsamleg að deila þessum uppskriftum með okkur.
Þar sem kryddið frá Kryddhúsinu er líka komið í sparibúning eða nýjar umbúðir, líkt og hummusinn hér neðar í uppskriftaröðinni, þá er sérstakt tilboð á kryddunum fram til 17. júní. Þú færð 15% afslátt út á kóðann HOG23 þegar þú pantar í gegnum vefsíðuna www.kryddhus.is.
DILL- OG HVÍTLAUKSSÓSA eða TZATZIKI SÓSA
1 1/2 góð msk Dill og Hvítlaukur TZATZIKI kryddblanda frá Kryddhúsinu
½ dós sýrður rjómi
jafnmikið magn af grískri jógúrt
u.þ.b. 1 tsk sítrónusafi
u.þ.b. 3 cm af gúrku smátt saxaðri (má sleppa)
Kryddið hrært vel saman við sýrða rjómann/jógúrtina og látið bíða í kæli í a.m.k. klukkustund. Kryddið þarf smá tíma til að blotna og taka sig og þá kemur bragðið fram. Rétt áður en sósan er borin fram er gott að saxa gúrku smátt og bæta út í. Ég kjarnhreinsa gúrkuna og nota restina af kjötinu en það má vissulega nota alla gúrkuna en þá þynnist sósan aðeins.
Svona sósa kallast Tzatziki á Grikklandi og er klassísk grísk grillsósa sem er borin fram með grilluðu kjöti þar í landi. Ekki er síður ljúffengt að bera þessa sósu fram með fiski, bakaðri kartöflu eða nota sem ídýfu fyrir grænmeti og snakk.
PIPARRÓTAR-GRILLSÓSA MEÐ SVÖRTUM PIPAR
Þessa sósu hef ég gert í mörg ár en mér áskotnaðist uppskriftin frá manni sem var fastagestur á meðferðarstofunni minni fyrir margt löngu síðan. Þessi sósa er öðruvísi, rífur aðeins í og er ein af mínum uppáhalds á sumrin þegar grillið er dregið fram og fersk piparrótin er auðfundin í matvöruverslunum.
1 dós sýrður rjómi
u.þ.b. 1 góð msk af piparrót,fínt rifinni
1-2 tsk hunang
1 hvítlauksgeiri rifinn fínt
salt og svartur pipar eftir smekk
Öllu hrært vel saman og geymt í kæli í a.m.k. klst mín til að kryddið taki sig og bragðið komi fram. Hér er um að gera að smakka sósuna til. Stundum er piparrótin trénuð en þá er hún bragðminni og þá þarf meira af henni en það er smekksatriði. Betra er að byrja með minna magn af henni og bæta frekar við þar sem hún getur verið ansi sterk.
CHIMMICHURRY GRILLSÓSA
Þetta er klassísk argentísk grillsósa sem Argentínubúar gera gjarnan úr ferskum jurtum. Hér á landi eru ferskar jurtir bæði dýrar og ekki alltaf fáanlegar þannig að það er sniðugt að nota Chimmichurry kryddblönduna sem grunn og bæta í hana ferskum jurtum ef þær eru við hendina. Annars má sleppa þeim. Þessi sósa er meinholl enda blönduð í jómfrúarólífuolíu sem er allra meina bót og jurtirnar eru sömuleiðis grænar og vænar.
½ dl Chimmichurry kryddblanda frá Kryddhúsinu
1 ½ dl ólífuolía (þessi græna, lífræna)
1 tsk edik (ég nota gjarnan rauðvínsedik í þessa sósu)
1 tsk sítrónusafi
aðeins af salti
Öllu hrært saman og látið hvíla í kæli í a.m.k. 2-3 klukkustundir til að bragðið taki sig. Mér skilst að Argentínubúar setji mun meira af ediki í Chimmichurry eða helming á móti olíunni og láti sósuna hvíla í kæli í einhverjar vikur. Mér finnst hún koma mjög vel út svona eða með ediki og sítrónusafa og alls ekki of mikið magn á móti olíunni en auðvitað má leika sér að því að finna það bragð sem manni finnst best.
HARISSA Á HUMMUSSINN
Hummus er fullur af jurtapróteini (kjúklingabaunirnar) sem þykir af mörgum vera besta próteinið. Hann er því meinhollur og tilvalið að bera fram með grillmatnum. Það er gaman og bragðgott að setja t.d. Harissumauk út á hann.
1 hluti Harissa kryddblanda frá Kryddhúsinu
4 hlutar ólífuolía (þessi græna og góða)
Hrært vel saman og úr verður Harissamauk. Það má svo bæta við olíu ef maður vill hafa maukið þynnra eða minnka olíuna til að hafa það þykkara. Hér gildir það sama, láta blönduna standa því kryddið þarf að blotna og taka sig til að bragðið og áferðin komi í ljós.
Harissamauk má svo nota til að bragðbæta hvaða mat sem er eða sáldra yfir brauð og osta.
Minni svo aftur á 15% afsláttinn út á kóðann HOG23 á vefsíðunni www.kryddhus.is
Ef þér fannst þessar uppskriftir áhugaverðar, deildu þeim þá endilega með öðrum.
Myndir: Ólöf Einarsdóttir
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025