NÝTT TUNGL Í TVÍBURUM

NÝTT TUNGL Í TVÍBURUM

Í þessari grein fjalla ég um orkuna í kringum Tunglið sem er nýtt í dag, þann 6/6 2024. Allt er miklu léttara nú og fókusinn er að verða skýrari þar sem svo margar pláentur eru nú í Tvíburunum, þótt orkan sem honum fylgi geti líka verið frekar tvístruð og oft erfitt að halda fókusnum lengi á sama stað.

Orkulínur Jarðar eru að opnast meira, en  um það fjallar jarðfræðingurinn Rory Duff í viðtali við Pam Gregory stjörnuspeking á YouTube. Ég set hlekk inn á viðtalið hér að neðan ef þig langar að hlusta á það.

JÚPITER Í TVÍBURUM

Þann 25. maí fór Júpiter inn í Tvíburana og þá urðu mikil umskipti í orku hans, því Nautið sem hann kom úr er fast Jarðarmerki. Meðan Júpiter var þar höfum við haft miklar áhyggjur af náttúruauðlindum og fjármálum, en nú þegar við erum komin inn í Tvíburana erum við að leita eftir meiri þekkingu, dýpri skilningi á lífinu og tilverunni og efla samskipti okkar á milli – á öllum sviðum.

Júpiter eyðir um það bil 12 mánuðum í hverju merki – svo hann verður í Tvíburum fram í byrjun júní á næsta ári. Með því að líta til baka 12 ár aftur í tímann og skoða hvað var að gerast þá, geturðu gert þér grein fyrir líklegum áhrifum Júpiers á líf þitt nú, þótt orkan sé í raun allt önnur í dag.

Skoðaðu líka hvar Tvíburarnir eru í stjörnukortinu þínu og í hvaða húsi til að gera þér grein fyrir hvar þensla og vöxtur kemur til með að vera hjá þér næstu tólf mánuðina, en almennt fylgir Júpiter jákvæð orka, mikill vöxtur og útþensla auk þess sem heppni hefur tilhneigingu til að aukast

JÚPITER OG PLÚTÓ

Um leið og Júpiter fór inn í Tvíburana fór hann í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Plútó sem er á annarri gráðu í Vatnsberanum. Þetta er jákvæð afstaða sem gefur okkur víðtæka framtíðarsýn og snýst mikið um frelsi, mannréttindi, sannleika og réttlæti. Við megum því eiga von á að frá og með þessum tíma og út árið komi mikið af sannleika í ljós, sem tengjast mun hruni hins gamla og fæðingu hins nýja.

Tunglið var í samstöðu við bæði Merkúr og Júpiter þann 3. og 4. júní, en það ásamt afstöðunni við Plútó hjálpar okkur að hugsa stórt og framúrstefnulega. Afstaða Merkúrs við Plútó snýst líka alltaf um kraft orða okkar og að grafa upp leyndarmál.

NÝTT TUNGL

Tunglið verður nýtt hér á land í dag þann 6. júní kl. 12:37, en Sól og Tungl eru alltaf í samstöðu á nýju Tungli, í þetta sinn á 16 gráðum og 17 mínútum í Tvíburum. Skoðaðu hvar sú staða lendir í stjörnukortinu þínu og ekki gleyma að setja þér nýjan ásetning eða markmið, því það er fullkominn tími til þess á hverju nýju Tungli.

Tvíburar elskar að tengjast fólki, svo orkan snýst um spjall og samfélagsmiðla, sem verða enn mikilvægari og mikið verður að gerast á þeim. Væntanlega eigum við eftir að sjá fleiri samfélagsmiðla koma fram meðan Júpiter er í Tvíburunum, en þeim er stjórnað af Merkúr, sem er pláneta hugsunar, hugmynda og tjáskipta.  

Tvíburarnir hafa gjarnan víðtæka þekkingu en fara ekki endilega djúpt í hlutina, heldur tala vítt og breitt um mörg málefni og spjall á samfélagsmiðlum getur verið þeim mikilvægt.

SEX PLÁNETUR Í TVÍBURUM

Á þessu nýja Tungli eru sex plánetur í Tvíburum, það er að segja Sól, Tungl, Merkúr, Júpiter og Venus og svo dvergplánetan Sedna. Venus er í samstöðu við bæði Sól og Tungl, svo það gæti orðið töluvert um daður, því Tvíburar daðra gjarnan við hlutina. Tvíburarnir eru loftmerki og það er Vatnsberinn líka, en þessi tvö merki kalla gjarnan á aðlögunarhæfni og getu til sveigjanleika og hæfni til að sjá hlutina frá sjónarhorni annarra.

Merkúr er tengdur lægri huga okkar, en Úranus æðri huga og er hærri birting Merkúrs. Úranus stjórnar Vatnsberanum og þessi jákvæða afstaða á milli plánetanna í Tvíburum og Vatnsbera snýst í raun um að þróa ný hugsanamynstur og sjá hlutina frá nýju sjónarhorni. Líka að skilja taugaboðkerfi okkar og kraft hugsana okkar og orða í mun stærra samhengi.

Tvíburarnir eru breytilegt loftmerki og þar sem sex plánetur eru þar á þessu nýja Tungli eru líkur á að hugsanir okkar og stundum athafnir verði út um allt og við dreifum um of úr því sem við erum að gera. Mótvægið við það er að æfa sig í að vera meira í líkamanum, halda innri ró og stunda öndunaræfingar eins og Hjartaöndun, sem byggist á því að anda inn og út í gegnum hjartað, eins og það sé lunga. Slík öndun kemur á tengingu á milli hjarta og huga og hjálpar okkur að halda betri fókus. Stundum hjálpar líka að gera eitthvað í höndunum eins og að hekla, prjóna, stunda garðvinnu eða smíða.

BLACK MOON LILITH

Reyndar er nokkuð stórt þema í gangi tengt baráttu fyrir réttlæti, því Black Moon Lilith er á 15 gráðum í Vog, í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Sól og Tungl á þessu nýja Tungli. Þetta er sönn staða Black Moon Lilith, en goðsögnin um hana snýst mikið um hið eðlislæga kvenlega, Lilith var villt og vildi ekki gefa sig Adam í Edengarðinum, svo henni var hent þaðan út vegna þess að hún stóð á sannleika sínum og fullveldi.

Þetta er í samræmi við og styrkir Plútó í Vatnsberanum (sannleikurinn) og svo eru Mars og Eris í samstöðu í Hrútnum, en Mars er táknrænn fyrir baráttu því hann var stríðsguðinn. Eris var í mýtunni systir hans og eina gyðjan sem ekki fékk boð í brúðkaup á Ólympusfjalli, en mætti nú samt og henti gullepli inn í hóp hinna gyðjanna og sagði „fyrir hina fegurstu“ og þær börðust allar um að ná því, því allar vildu vera fegurstar.

Black Moon Lilith hefur líka sterka stríðsorku og stendur bæði á sannleika sínum og fullveldi og mun ekki þola lengur neinar lygar, því skortur á sannleika er skortur á réttlæti. Þessar öflugu pláentur eru með sterka réttlætiskennd og gera kröfu um að enginn sé lengur útilokaður félagslega, heldur allir hafðir með.

ÚTILOKUN OG FÉLAGSLEG ÚTSKÚFUN

Þetta er mjög áhugavert þema á þessu nýja Tungli, einkum í ljósi þess að Plútó verður í Vatnsberanum næstu tuttugu árin eða fram til ársins 2044 og kemur til með að vekja upp málefni í kringum frelsi, sannleika, mannréttindi og borgaraleg réttindi.

Chiron er líka í samstöðu við Eris og saman eru þessar plánetur táknrænar fyrir þau særindi okkar sem tengjast útilokun og félagslegri útskúfun, sem við höfum öll orðið fyrir á einn eða annan hátt og nú þarf að heila, til að við getum öðlast innri styrk og sjálfræði eða innra fullveldi.

TÖK Á HUGSUNUM OKKAR

Þar sem Plútó er í Vatnsbera tengist hann taugakerfi hugsunarferla okkar og hvernig þeir ferlar hafa áhrif á veruleika okkar. Til að öðlast fullveldi eða fullt sjálfræði verðum við að ná tökum á hugsun okkar. Annað hvort þurfum við að læra að gera það sjálf eða hugsunum okkar verður stjórnað með tækni.

Dvergplánetan Sedna fór inn í Tvíburana þann 27. apríl, en eitt af sterkustu þemum Sedna er þróun á gervigreind. Þar sem bæði Sedna og Plútó, sem tengist uppbyggingu nýrra kerfa, eru í loftmerkjum mun það flýta ótrúlega mikið fyrir gervigreindinni. Við eigum eftir að sjá hana birtast í nýrri tækni í læknisfræði, alls konar tæknifræði, vísindaverkfræði og flugi.

TVÍBURAR HJÁ GOOGLE

Það tekur Sedna um 11.400 ár að fara einn hring um sporbaug sinn, en rétt eftir að hún kom inn í Tvíburana kynnti Google nýtt gervigreindarforrit, sem kallast Tvíburar eða Gemini á ensku. Þetta forrit er að bjóða upp á gríðarlegan stuðning við forritara, sem tengist beint orkunni frá Júpiter í Tvíburum, með sína útþenslu og stækkun á öllu. Það á eftir að hafa gífurleg áhrif á vinnuumhverfi fólks og væntanlega leiða til þess að sumir missa vinnuna, eða vinnutími styttist – og þá verður spurningin, hvað gerir fólk þegar það er ekki að vinna?

ÁVANABINDANDI SAMFÉLAGSMIÐLAR

Líklegt er að samfélagsmiðlar gætu orðið mjög ávanabindandi á næstu tólf mánuðum, sérstaklega þar sem þess má vænta að það komi svo ótrúlega magnaðar upplýsingar fram, sem færa okkur ný sannindi og á vissan hátt nýtt drama. Við komum til með að fylgjast með hruni gamla heimsins sem heldur stöðugt áfram þar sem það ferli verður ekki stöðvast. Segja má að það sé aðalkvikmyndin í bænum einmitt núna.

Tvíburarnir er eru mjög tengdir öllu því sem snýr að vali, svo það er mjög öflugt að velja til dæmis strax á morgnana hvaða tilfinning það er sem við ætlum að leyfa að vera ráðandi þann daginn.

Svo getum við beitt orðum okkar í samræmi við það val og minnt okkur stöðugt á hvað valið var og sagt til dæmis, „ég vel að vera þakklát fyrir að sitja föst í umferðinni, því það gefur mér tíma til að gera öndunaræfingar á meðan hún mjakast ekki áfram“. Eða annað sem við veljum að gera eða vera þakklát fyrir – í stað þess að láta það pirra okkur. Við þurfum að nýta okkur kraft hugsunar okkar og velja orð í samræmi við þær.

TUNGUMÁL STJÖRNUSPEKINNAR

Pam Gregory stjörnuspekingur telur að tungumálið í kringum stjörnuspeki þurfi að breytast verulega á næstunni, vegna þess að hún telur að Tvíburarnir og Vatnsberinn fari að tákna fjölvídd. Málin koma ekki til með að snúast bara um samskipti og samfélagsmiðla, heldur um fjölvídd okkar og við verðum að þróa alveg nýja áttund og nýtt tungumál í kringum stjörnuspekina til að mæta þróun mannkyns.

Persónulega tel ég að dvergpláneturnar eigi eftir að spila mun stærra hlutverk í stjörnspekinni á komandi árum, en þær gera í dag, því þeim fylgir uppfærslan og umbreytingarorkan sem kemur okkur upp á Quantum sviðið.

ÚRANUS OG CERES

Úranus er á þessu Tungli í 120 gráðu samhljóma afstöðu við Ceres í Steingeit og Mars og Eris í Hrút eru í 90 gráðu spennuafstöðu við Ceres. Líklegt er að landbúnaðarframleiðsla haldi því áfram að vera undir smásjánni og mótmælin sem drifin eru áfram að dvergplánetunni Eris í samstöðu við Mars, eigi eftir að halda áfram, en í mýtunni voru þau systkini með mikla hernaðarorku.

Bændur halda áfram að mótmæla tilskipunum stjórnvalda bæði í Ameríku og í Evrópu, en líklegt er að samhliða því eigum við eftir að sjá mikla nýsköpun í matvælaframleiðslu. Væntanlega þó ekki tengda „mat“ sem ræktaður er á rannsóknarstofu, heldur nýsköpun í framleiðslu á lífrænum afurðum, því Úranusi fylgja hugmyndir að nýjungum og hið óvænta, en plánetan er í Nauti sem er jarðarmerki.

SATÚRNUS Í FISKUM

Satúrnus í Fiskum er í 90 gráðu spennuafstöðu við þetta nýja Tungl og Venus, sem gæti bent til þess að Satúrnus sé að hjálpa okkur við að skapa nýjar hugmyndir og nýja hugsun, sem á veruleika sinn bæði í vísindum (Satúrnus) og í hinu andlega (Fiskarnir). Á vissan hátt er Satúrnus á leið sinni í gegnum Fiskana að leiða saman vísindi og andlega málefni, en Satúrnus í Fiskum er líka að hjálpa til við að leysa upp gamlar takmarkanir okkar og varnir.

DRAUMATÍMINN

Ein af dvergpláentunum heitir Altjira, en hún er nú á 19 gráðum í Tvíburum í samstöðu við nýja Tunglið. Það tekur hana um það bil 293 ár að fara einn hring um sporbaug sinn og plánetan er nefnd eftir guði Draumatímans hjá frumbyggjum Ástralíu. Þeir litu svo á að hann væri sköpunarguð og með því að dreyma, væru þeir að skapa úr hinni ósýnilegu orku og raungera sköpun sína í efninu.

Frumbyggjar bjuggu yfir ótrúlegri þekkingu almennt, sérstaklega í tengslum við himintunglin og hringrás stjörnufræðinnar, náttúrulækningar, vistfræði og ýmislegt annað. Nútímamaðurinn hefur tiltölulega lítið minni, samanborið við flesta frumbyggja, því hann setur allt í minnið í tölvuna og treystir ekki á sitt eigið.

Hjá frumbyggjum var allri þekkingu haldið lifandi í gegnum söng og frásagnir, en dvergpláneturnar minna okkur á að frumbyggjar sáu allt í nútíð sem lifandi, fullt af lífskrafti, þar sem allt væri í einu flæði. Nútímamaðurinn hefur hins vegar aftengst þessari sýn.

SEDNA Í TVÍBURUM

Eitt af stóru þemunum í tengslum við dvergplánetuna Sedna, sem er á núll gráðu í Tvíburum er ekki bara umbreyting, heldur myndbreyting fyrir mannkynið. Líkamar okkar koma til með að breytast í kristallaða ljóslíkama, líklegt er að við þurfum minna og léttara að borða og það sem við borðum sé meira jurtafæði. Við komum til með að hafa meiri tengsl við náttúruna – og að Neptúnusi, sem er núna á síðustu gráðu í Fiskunum, fylgi þessi tilfinning um sveigjanleika í raunveruleika okkar, hið ósýnilega og esóteríska.  

NEPTÚNUS Í FISKUM

Í Fiskunum er Neptúnus mjög tengdur við upprunann og einingu hins andlega og hér er hann í 60 gráðu utan merkja samhljóma afstöðu við dvergplánetuna Sedna sem er á núll gráðu í Tvíburunum. Neptúnus á þessari allra síðustu gráðu í stjörnumerkinu táknar ekki endalok heimsins, heldur endalok og upplausn þeirrar tálsýnar sem við höfum haft um hann.

Blæjan er tekin af augum okkar og við vöknum upp af gamla draumnum. Meðvitað veljum við svo með Tvíburunum að búa til alvöru draum um nýja jörð því síðasta gráða í hverju stjörnumerki, felur í sér fræ fyrir það nýja í næsta stjörnumerki, í þessu tilviki nýja Jörð. 

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum

Áttu ekki stjörnukort?
SMELLTU HÉR ef þig langar að eignast einstakt kort

Myndir: Shutterstock.com

Heimild: Útdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory, sem horfa má á í fullri lengd HÉR!

Viðtal Pam Gregory við Rori Duff má sjá HÉR!

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 597 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram