LAXEROLÍUBAKSTUR

LAXEROLÍUBAKSTUR LINAR BÓLGUR OG VERKI

Ég hef undanfarið skrifað nokkrar greinar um laxerolíu eða Castor Oil, eins og hún kallast á ensku. Hægt er að kíkja á tvær þeirra LAXEROLÍA ER FJÖLNOTA OLÍA  og LAXEROLÍA ER ALGJÖR UNDRAOLÍA til að fræðast meira um eiginleika olíunnar sjálfrar. Þessi grein fjallar aðallega um það hvernig best er að búa til bakstur með olíunni til að leggja við bólgin og aum svæði.

NÁTTÚRULÆKNINGAR NÝTA BAKSTRA 

Það er bæði gömul speki og ný í náttúrulækningum að nota bakstra til að draga úr bólgum í líkamanum. Ef meltingin er úr skorðum, kviðurinn þaninn, þú með slæma candida sveppasýkingu eða önnur meltingarvandamál – er það yfirleitt merki um að bólgur séu í ristli og þörmum.

Batinn liggur í gegnum breytingar á mataræði, bætiefnum sem styðja við það ferli og öðrum breytingum á lífsstíl. Það hefur gagnast þeim sem sótt hafa HREINT MATARÆÐI námskeiðin mín undanfarin fjögur ár vel. Ég ráðlegg þeim líka að nota laxerolíubakstur á kviðinn til að draga úr innvortis bólgum.

Laxerolíubakstur má einnig setja á önnur bólgin svæði í líkamanum eins og axlir, ökkla eða hnjáliði ef bólgur sækja í þessi svæði. Stundum myndast þykkildi eða bólgur í brjóstum, sem vinna má á með því að setja laxerolíubakstur á þau.

LAXEROLÍUBAKSTUR

Tiltölulega einfalt er að útbúa laxerolíubakstur. Hér á eftir fylgja nákvæmar leiðbeiningar um hvernig það er gert. Sumir náttúrulæknar tala um að gott sé að hita laxerolíuna í vatnsbaði upp í 37°C eða svo, áður en hún er sett í baksturinn. Ég hef hins vegar látið duga að hita grjónapokann sem ég set ofan á baksturinn vel og þá tekur enga stund fyrir olíuna að hitna.

SVONA ÚTBÝRÐU BAKSTURINN:

 • Kauptu þér bút af flónelsefni eða notaðu vel þvegið, gamalt viskastykki. Flónel virðist þó hafa bestu leiðnina fyrir olíuna og hún skilar sér þannig best inn í líkamann. Hafðu efnið tvöfalt og nógu stóran bút til að hann nái yfir það svæði sem þú vilt meðhöndla.
 • Klipptu plastpoka, til dæmis innkaupapoka, í sundur og klipptu hann svo til þannig að hann sé aðeins stærri en flónelsstykkið.
 • Leggðu flónelsstykkið á plastið.
 • Helltu laxerolíu yfir allt flónelsstykkið í mjórri bunu og dreifðu aðeins úr olíunni, til dæmis með skeiðarblaði, svo hún sé um allt stykkið.
 • Hitaðu grjónapoka, eins og til dæmis þá sem gjarnan eru notaðir á axlir, í örbylgjuofni. Einnig má nota gamaldags hitapoka með heitu vatni. Rafmagnspokar eru aðeins of léttir og þrýsta því ekki vel á baksturinn, en það er eiginlega nauðsynlegt.
 • Taktu flónelsstykkið með plastinu og leggðu það á það svæði sem þú vilt meðhöndla.
 • Leggðu þunnt handklæði ofan á plastið og hitapoka þar ofan á. Ef grjónapokinn er lagður beint ofan á plastið er hætta á að olía smitist í hann.
 • Leggðu svo teppi eða sæng þar ofan á, til að halda hitanum sem lengst.
 • Hafðu baksturinn á svæðinu sem þú ert að meðhöndla í að minnsta kosti 30 mínútur og allt upp í 45 mínútur.
 • Þegar þú tekur baksturinn af nuddarðu mestu olíuna af þér með handklæði. Geymdu svo baksturinn upprúllaðan til að nota aftur næsta dag. Bættu við laxerolíu eftir þörfum.

Til að losna við bólgur úr kviðarholi er best að setja laxerolíubakstra á kviðinn ekki sjaldnar er fimm kvöld í viku, í að minnsta kosti fjórar vikur í röð. Þegar bólgur eru meðhöndlaðar á öðrum svæðum líkamans gildir hið sama, nema þær hverfi fyrr.

Neytendaupplýsingar:

Mér finnst laxerolía frábær og ég á alltaf til flösku af henni. Ég nota  Castor Oil frá NOW sem er sérstaklega ætluð til notkunar útvortis. Hún fæst í flestum verslunum Nettó og víða í apótekum. Auk laxerolíunnar er nú hægt að fá Castor Oil eða laxerolíu í hylkjum til inntöku. Þau eru frábær ef fólk er með hægðatregðu eða harðlífi. Þá er gott að taka 1 hylki 2svar á dag í einhvern tíma til að koma losun í lag.

Í Nettó standa nú yfir vítamíndagar til 6. júní. Á þeim eru allar vöru NOW með 20% afslætti.

Aðalmynd: CanStockPhoto / bdspn
Aðrar myndir af vef NowFoods.com

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
 • 601 Posts
 • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram