LAXEROLÍA ER ALGJÖR UNDRAOLÍA

Ég geri ráð fyrir að flestum detti fyrst í hug hægðalosandi áhrif laxerolíu þegar þeir heyra minnst á hana. Laxerolían hefur hins vegar öldum saman verið notuð til lækninga víða um heim, þar sem hún gagnast m.a. einstaklega vel við bólgum og býr yfir bakteríudrepandi eiginleikum.

Eiginleikar hennar gera það að verkum að hún er til margs nýtileg og í þessari grein fjalla ég einungis um smá brot af því – en það kemur fljótlega grein með frekari upplýsingum.

Talið er að Egyptar til forna hafi verið þeir fyrstu til að byrja að nota olíuna og þar hafa fundist Castor-baunir sem olían er unnin úr í grafhýsum frá 4.000 f. Krist.

Sagt er að Cleopatra hafi notað hana til að gera hvítuna í augum sínum hvítari (betri hægðalosun og hreinni ristill hefur m.a. þau áhrif) og sem áburð á húðina.

LAXEROLÍA EÐA RESINOLÍA

Laxerolía er unnin úr fræjum Castor plöntunnar, en uppruni plöntunnar er í Afríku og Indlandi. Latneska nafn hennar er Recinus communis og því er olían sums staðar kölluð resinolía.

Laxerolía (á ensku Castor oil) er mikið notuð í dag sem lífrænn grunnur við framleiðslu á snyrtivörum, sápum, vefnaði, nuddolíum og jafnvel lyfjum.

Mér finnst hún frábær og nota hana mikið. Mitt uppáhald er Castor Oil frá NOW og hún nýtist vel, meðal annars á eftirfarandi hátt:

ÁHRIF Á HÚÐINA

Þegar kemur að umhirðu húðarinnar nýtist laxerolían á mun fleiri vegu en ykkur hefði grunað.

1 – DREGUR ÚR BÓLGUM

Ef húðin bólgnar eftir sólbruna eða í kringum bólur, er hægt að bera laxerolíu á svæðið með bómullarplötu og láta olíuna liggja á húðinni í eina klukkustund, áður en hún er þvegin af með volgu vatni.

2 – VINNUR Á FITUHNÚÐUM UNDIR HÚÐ

Stundum eiga fitukirtlar það til að stíflast. Þá safna þeir í sig fitu og geta stækkað ótrúlega mikið. Ég veit um eitt slíkt dæmi, þar sem viðkomandi vildi ekki í aðgerð til að láta fjarlægja kirtilinn. Hann bar þess stað laxerolíu á svæðið, setti plastfilmu yfir og síðan hitapoki þar ofan á og endurtók svo daglega ferlið í 6 vikur – og fituhnúðurinn hvarf.

3 – DREGUR ÚR ÖLDRUN HÚÐARINNAR

Þegar laxerolía er notuð útvortis getur hún dregið úr öldunareinkennum húðarinnar, því hún gengur djúpt inn í hana og örvar framleiðslu á bæði kollageni og elastíni. Það mýkir húðina og eykur raka og teygjanleika hennar, hægir á hrukkumyndun og fínum línum og gerir húðina silkimjúka.

Það má til dæmis nota laxerolíu á húðina í kringum augun og á efri vör til að draga úr fínum línum þar.

4 – DREGUR ÚR BÓLUM

Þeir sem eru gjarnir á að fá bólur, t.d. í andlitið, hafa tilhneigingu til að forðast flestar olíur þar sem þær stífla oft svitaholurnar og auka á vandann.

Í laxerolíu er mikið af resínsýru, sem ræðst á bakteríurnar sem valda bólunum, m.a. vegna þess að hún gengur svo vel inn í húðina. Svona er hún notuð til að vinna á bólum:

Þvoið andlitið með heitu vatni til að opna svitaholurnar. – Nuddið laxerolíu á andlitið með hringlaga hreyfingum. – Látið hana vera á húðinni yfir nótt og þvoið andlitið næsta morgun með köldu vatni.

5 – RAKAGEFANDI FYRIR HÚÐINA

Eins og fram hefur komið hér að framan er laxerolía mjög rakagefandi fyrir húðina. Öflugar fitusýrur hennar ganga vel inn í húðina og því er gott að bera hana á þurra bletti eða bara til að koma rakajafnvægi á í húðinni á nýjan leik ef hún er mjög þurr.

Laxerolía er einmitt notuð sem grunnur í ýmsar húðvörur vegna þess hversu rakagefandi hún er.

Auka má raka húðarinnar í andliti með því að hreinsa húðina vel og nudda svo laxerolíunni inn í hana með hringlaga hreyfingum og þvo svo af næsta morgun.

Að sjálfsögðu má einnig nota olíuna til að bera aðra hluta líkamans, t.d. á fótleggina, en húðin þar er oft mjög þurr.

ÁHRIF Á HÁRIÐ

Hefurðu nokkurn tímann látið þér detta í hug að nota laxerolíu í hárið í stað mótunargels? Þú ættir að prufu það, því hún virkar frábærlega vel og mótar ekki bara hárið vel, heldur er mjög nærandi fyrir það. En það er ýmislegt annað sem laxerolía getur gert fyrir hárið.

1 – EYKUR HÁRVÖXT

Með því að nudda laxerolíu – gott að blanda henni til helminga við ólífuolíu – í hársvörðinn er hægt að auka hárvöxtinn. Olían eykur blóðflæði til hársekkjanna, sem leiðir til aukins hárvaxtar. Látið olíuna vera á hársverðinum í minnst 20-30 mínútur, jafnvel yfir nótt.

Í laxerolíunni eru omega-9 fitusýrur en þær eru góðar fyrir heilbrigt hár. Olían dregur líka úr sliti á hári og veitir því raka og næringu.

2 – VINNUR Á SÝKINGUM Í HÁRSVERÐINUM

Sýkingar í hársverðinum geta valdið miklum vanda eins og t.d. blettaskalla, flösu og kláða. Laxerolían býr yfir sveppa- og bakteríudrepandi eiginleikum og getur því unnið á ýmsum meinvöldum og örverum sem valda sýkingu.

Berið hana í hársvörðinn, setjið frottéhettu yfir og sofið með yfir nótt. Byrjið á að setja sjampó í hárið áður en þið bleytið það til að þvo mestu olíuna úr hárinu næsta morgun.

3 – KEMUR Í VEG FYRIR GRÁTT HÁR

Verst að ég skyldi ekki vita þetta áður en hárið á mér varð alveg hvítt, en með því að bera laxerolíu í hárið þegar það fer að grána, er hægt að koma í veg fyrir að það missi meiri lit – og halda þannig sínum upprunalega háralit lengur.

4 – HÁRNÆRING

Laxerolía getur gert kraftaverk þegar kemur að þurru og skemmdu hári. Rakagefandi eiginleikar olíunnar stuðla að því að rakinn lokast inni í hárinu og gerir það því sléttara og mýkra.

Blandið 1 tsk af laxerolíu saman við hárnæringu, sem látin er vera í hárinu eftir þvott og berið í hárið.

Mynd: Can Stock Photo/bdspn

Heimildir m.a.: https://www.diamondherbs.co/castor-oil/

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 517 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?