GULRÓTA- OG ENGIFERSÚPA

Guðjón sonur minn benti mér á þessa uppskrift sem hann fann á www.themediterraneanDish.com vefsíðunni. Hann hefur nú hingað til ekki verið mikill súpumaður, svo þegar hann segist hafa eldað magnaða súpu, varð ég auðvitað að prófa – og síðan deila með ykkur – því hún er svo sannarlega frábær.

Hún er fín á köldum dögum og hentar vel fyrir þá sem eru á HREINT MATARÆÐI hreinsikúrnum með smá breytingum, því hún fellur alveg að ráðlögðum matarlista. Með því að baka gulræturnar fyrst, næst fram sæta bragðið í þeim og súpan bragðast ótrúlega vel.

Ég dreif því í að þýða uppskriftina, sem er fyrir svona 4-6 eftir því hvað hver borðar mikið. Með henni er til dæmis hægt að fá sér HRÖKKKEX

INNIHALDSEFNI:

1 1/2 kg gulrætur, vel þvegnar og snyrtar og afhýddar ef með þarf
extra virgin – jómfrúar – ólífuolía t.d. frá Himneskri hollustu eða Bunalun
himalajasalt og pipar
4 hvítlauksrif, söxuð
1 tsk rifin fersk engiferrót
5 1/2 bolli vatn blandað grænmetiskrafti eins og til dæmis frá Naturata
1 tsk malað kóríander
1 tsk allrahanda (krydd)
1 1/2 bolli matreiðslurjómi fyrir þá sem eru ekki á HREINU MATARÆÐI
– annars 1 bolli möndlumjólk eða kókosmjólk
Svo má skreyta súpuna með ferskum myntulaufum eða steinselju

AÐFERÐ:

1 – Hitið ofninn í 220°C.
2 – Raðið þerruðum gulrótunum á plötu með bökunarpappír (eða silikonmottu) sem þið hafið aðeins penslað með ólífuolíu. Dreifið ólífuolíu yfir gulræturnar (þær eiga að vera heilar, þótt ég hafi skorið mínar í tvennt langsum í smá fljótfærni) og setjið salt og pipar yfir.
3 – Bakið í 45 mínútur, en snúið gulrótunum þegar helmingur af tímanum er liðinn.
4 – Þegar gulræturnar er orðnar mjúkar í gegn, takið þær þá úr ofninum og látið aðeins kólna.
5 – Á meðan gulræturnar eru að bakast, er gott að rífa engifer og hita vatn og blanda grænmetiskrafti út í það, svo hann sé tilbúinn.
6 – Skerið gulræturnar í bita og setjið í stóra matvinnsluvél eða blandara ásamt hvítlauk, engifer og 3 bollum af soðinu. Ef þið eigið ekki stóran blandara, skiptið þá magninu upp. Ég á AEG blandara og set hann á “Smooth” til að mauka gulræturnar vel.
7 – Setjið gulrótamaukið út í góðan súpupott, bætið því sem eftir var af soðinu við, svo og kóríander og allrahanda kryddinu.
8 – Stillið á miðlungshita og látið súpuna hitna þar til hún fer að krauma. Hrærið reglulega í á meðan.
9 – Lækkið undir súpunni og bætið möndlumjólk, kókosmjólk eða matreiðslurjóma út í hana. Ég átti reyndar bara rísmjólk frá Isola og súpan bragðaðist vel með henni.

Myndir: Guðrún Bergmann

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram