EITT RÁÐ TIL AÐ VERNDA HEILSUNA

Í mörg ár hef ég valið að kaupa lífrænt ræktaðar matvörur ef ég á völ á slíku. Jafnframt hef ég hvatt þá sem sækja HREINT MATARÆÐI námskeiðin mín til að borða eins mikið af lífrænt ræktaðri fæðu og hægt er meðan á hreinsun stendur, því þá fær líkaminn bestu næringuna til að endurnýja sig, en það er eitt af meginmarkmiðum hreinsikúrsins.

Það eru fleiri á sama máli og ég, því þegar ég las eina af nýjustu greinum Dr. Mercola, segir hann að ef við gerum bara eitt þetta árið til að vernda eigin heilsu og annarra í fjölskyldunni, ætti það að vera að kaupa lífrænt ræktaðar matvörur. Með því að velja lífrænt ræktaðar matvörur verðum við síður fyrir skaðlegum áhrifum af meindýraeitri sem fylgir oft fæðu úr hefðbundinni ræktun.

Rannsóknir hafa staðfest neikvæð heilsufarsleg áhrif á börn vegna þess magns af eiturefnum sem finna má í fæðunni í dag, og auðvitað hefur það áhrif á fullorðna líka. Ég fjallaði meðal annars um þetta í greininni ER GLÝFÓSAT Í ÞÍNUM MAT?

ERFIÐARA EN AÐ FYLLA ÚT SKATTASKÝRSLUNA

Þótt margir vilji temja sér heilsusamlegan lífsstíl, vita þeir oft ekki hvar á að byrja, né hvaða tískutrendi þeir eiga að fylgja þegar kemur að mataræði. Mörgum finnst erfiðara að ákveða hvað skal borða en að fylla út skattaskýrlsuna. Næringarfræðin getur stundum verið flókið mál, en ef þú vilt gera valið sérlega einfalt: Leggðu þá áherslu á að borða eins mikið lífrænt ræktaðan mat og þú getur!

„Láttu fæðuna vera lyf þín og lyf þín vera fæðuna!“ er haft eftir Hippókrates, en litið er á hann sem faðir læknavísindanna. Hann á að hafa sagt þessi fleygu orð fyrir um 2.500 árum síðan og enn í dag er mikið satt og rétt í þeim, því lyflækningar eins og við þekkjum þær í dag eiga sér bara rúmlega 100 ára sögu.

Í FYRSTA LAGI SKAL ENGAN SKAÐA

Margir vilja líta framhjá orðum Hippókratesar og telja að matur og lækningarmáttur eigi lítið sameiginlegt. Þeir nota matinn til að seðja sárasta hungrið og leita svo eftir tilbúnum lyfjum – lyfseðilskyldum eða ekki – til að meðhöndla veikindi. Dr. Mercola telur að ein af ástæðum mikilla sjúkdóma í dag, sé sú að flestir hafi snúið baki við þeirri grunnstaðreynd að maturinn feli í sér lækningamátt.

Önnur tilvitnun í Hippókrates, sem er hluti af Hippókratesareiðnum, sem læknar nútímans fara með þegar þeir útskrifast er: „Í fyrsta lagi skal engan skaða!“ (á ensku: First do no harm!).

Reyndar hljómar íslenska útgáfan af heitorði lækna svona: Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi, að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits, að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum, að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna

Dr. Mercola telur að því miður hafi sú hugmynd að „til sé pilla við öllu“, mjög svo ógnað þessum eiði. Hann sem læknir leggur áherslu á heildrænar lækningar, en telur að lækningar í dag byggist of mikið á tilbúnum lyfjum, sem oft gera meiri skaða en gagn. Staðreyndin er líka sú að læknar í dag fá nánast enga menntun í næringarfræði.

LÍFRÆNT RÆKTUÐ FÆÐA RÍKARI AF ANDOXUNAREFNUM

Í rannsóknum sem greint var frá í heimildarmyndinni – Organic Food – Hype or Hope? – kom fram að ávextir og grænmeti úr lífrænni ræktun innihaldi meira af andoxunarefnum en sams konar matvæli úr hefðbundinni ræktun, en þau síðartöldu innihalda oft mikið af þungmálmum. Líka kom fram að lífrænt ræktuð fæða sé mikilvæg fyrir þróttmikla heilsu og væri því góð lausn á tímum þar sem sjúklingum fjölgar og umhverfisvandamál aukast.

MEINDÝRAEITUR ÓGNAR HEILSUNNI OG VATNINU

Meindýraeitur ógnar ekki bara heilsu fólks í gegnum fæðuna, heldur einnig í gegnum mengað grunnvatn. Þótt bandarískar eftirlitsstofnanir haldi því fram að þær takmarkanir, sem settar eru á leifum af meindýraeitri í hefðbundinni framleiðslu séu nægar – gaf Evrópuþingið út skýrslu árið 2016, sem gefur til kynna að heilsu barna sé ógnað miðað við núverandi magn af eiturefnum sem finna má í matvælum. Meginniðurstaðan í þeirri skýrslu var að vernda mætti heilsu almennings með því að hvetja til lífræns landbúnaðar.

Í skýrslu sem Hilal Elver frá Sameinuðu þjóðunum og Baskut Tuncak, sem rannsökuðu rétt allra til fæðu og eiturefnamagn í fæðu, skiluðu árið 2017 gengu þeir einu skrefi lengra. Þeir lögðu til að heimsbyggðin gerði með sér samning um notkun meindýraeiturs, þar sem þessi tilbúnu eiturefni valdi í dag miklum vanda og mengi fæðuna og ógni heilsu barna (og fullorðinna).

„Við þurfum að snúa þeirri mýtu við að meindýraeitur sé nauðsynlegt til að fæða heiminn og hefja um allan heim umskipti yfir í öruggari og heilbrigðari fæðu- og landbúnaðarframleiðslu,“ eins og segir í skýrslu þeirra. Lífrænn landbúnaður gerir meira en minnka magn eiturefna í matvælaframleiðslu, því hann:

1 –Mildar áhrif loftslagsbreytinga.

2 – Stuðlar að betri meðferð dýra.

3 – Skilar bændum meiri hagnaði.

4 – Tryggir að fæðan sé óerfðabreytt og innihaldi ekki erfðabreytt efni. Það á líka við um dýraafurðir, því ekki má ala dýr á lífrænum búum á erfðabreyttu alfalfa eða maís.

KAUPUM LÍFRÆNT

Með því að kaupa lífrænt ræktaðar vörur stuðlum við að frekari uppbyggingu lífræns landbúnaðar hvar sem er í heiminum – og verndum heilsu okkar í leiðinni. Þú finnur eitthvað af þeim í öllum helstu matvörumörkuðum landsins, Fjarðarkaupum, í Brauðhúsinu í Grímsbæ og Bændur í bænum, sem eru á Grensásvegi 12, eru bara með lífrænt ræktuð matvæli, hvort sem þau eru framleidd hér á landi eða innflutt. Svo eru það Frú Lauga í Reykjavík og Kaffihúsi Kaju á Akranesi.

Heimildir: www.dr.mercola.com

Myndir: Can Stock Photo / Elenathewise og Orson

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 586 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram