FULLT TUNGL Í BOGMANNI

FULLT TUNGL Í BOGMANNI

Tunglið verður fullt í Bogmannsmerkinu í dag. Í þessari grein fjalla ég um það og eins um afstöður plánetanna síðustu daga, því þær eru að hafa mikil áhrif á okkur eins og alltaf. Ég hlustaði um helgina á fyrirlesara sem sagði að þar sem við erum öll samtengd og allt ein held, þá eru pláneturnar tengdar inn í kjarnann í frumum okkar – svo þær hafa svo sannarlega áhrif á okkur – og í raun mun dýpri en okkur grunar.

Ef þú vilt frekar bara hlusta á skýringarnar geturðu SMELLT HÉR.

SEDNA, VENUS, JÚPITER OG ÚRANUS

Þann 18. maí varð fjórföld samstaða á milli Sedna í Tvíburum og Venusar, Júpiters og Úranusar í Nauti. Sú samstaða er líka til staðar í kortinu fyrir þetta fulla Tungl, svo skoðið endilega hvar 23 til 28 gráður í Nauti lenda í kortum ykkar og í hvaða húsi, því þetta eru frábærir dagar til að koma auga á ný tækifæri og öðlast stærri mynd af heiminum.

Ef þessi afstaða lendir í fimmta eða sjöunda húsi kortsins, gæti það verið tákn um nýtt og kannski óvænt samband fyrir þá sem er einhleypir – en gæti líka verið táknrænt fyrir rótleysi hjá þeim sem þegar eru í samböndum.

MARS OG NORÐURNÓÐAN

Mars var í samstöðu við Norðurnóðuna þann 19. maí og þegar pláneta er í samstöðu við hana verður táknmynd hennar öflugri – og þar sem Mars er táknrænn fyrir stríðsguðinn, gæti þessi afstaða hafa táknað einhver átök. Orkan gæti líka verið til góðs ef nógu margir koma saman og nota hana til að beina henni á kærleiksríkari máta að málstað fyrir betri heim.

SÓL OG SEDNA Í TVÍBURUM

Sólin var í nákvæmri samstöðu við dvergplánetuna Sedna þann 20. maí – en Sedna fór inn í Tvíburana þann 27. apríl. Tuttugasti maí gæti því hafa gefið okkur smá innsýn í það hvernig orkan frá Sedna kemur til með að birtast – alveg fram til ársins 2067, því Senda verður það lengi í Tvíburunum. Stjörnuspekingar eiga því eftir að fjalla mikið um hana næstu rúmlega fjörutíu árin.

JÚPITER INN Í TVÍBURANA

Júpiter fer inn í Tvíburana þann 25. maí og verður í nákvæmri samstöðu við Sedna þann 27. maí, svo sá dagur getur gefið okkur annað tækifæri til að sjá hvernig Sedna á eftir að myndbreyta mannkyninu – því það verður ekki bara umbreyting – heldur myndbreyting yfir í uppljómað mannkyn.

Kortið miðast við Reykjavík kl. 13:53 þegar Tunglið er fullt

FULLT TUNGL Í BOGMANNI

Tunglið verður fullt í dag, þann 23. maí kl. 13:53 síðdegis hér á landi. Þar sem Sól og Tungl eru alltaf í 180° andstöðu við hvort annað á fullu Tungli, er Tunglið á 2 gráðum og 55 mínútum í Bogmanni og Sólin á 2 gráðum og 55 mínútum í Tvíburum. Eins og alltaf er fullt Tungl táknrænt fyrir hápunkt eða endalok einhvers í lífi okkar.

JÚPITER OG BOGMAÐURINN

Júpiter stjórnar Bogmanninum, svo hann hefur sterk áhrif í þessum síðari hluta maímánaðar og þar sem Bogmaðurinn er bjartsýnn og með sterka réttlætiskennd, er líklegt að Júpiter þenji slíkt út. Bogmaðurinn er líka tengdur lögum og alls konar lagalegum málum, svo við gætum séð eitthvað af slíkum málum koma fram í dagsljósið á þessum tímapunkti.

Bogmaðurinn sér alltaf stærri myndina – eða heildarmyndina – sem í þessu tilviki gæti tengst sannfæringarkerfum okkar – og pláneturnar Júpiter og Úranus, sem eru enn nálægt hvor annarri eiga eftir að tvístra þessum sannfæringakerfum, þegar nýr sannleikurinn kemur í ljós. Undir sterku ljósi fulla Tunglsins eru nefnilega allar líkur á að gömlu sannfæringarkerfin hætti að geta virkað.

HVER ER TILGANGURINN?

Orkan í kringum fulla Tunglið snýst mikið um að finna tilgang í lífinu, því lífið snýst ekki bara um að eiga peninga í banka – heldur um þann dýpri tilgang sem við leitum sífellt eftir. Þar sem Júpiter er að þenja allt tengt Bogmanninum út snýst orkan líka um útvíkkun vitundar okkar og það að sjá hlutina nýjum augum.

Bogmaðurinn er líka mjög tengdur gleði og léttleika – og margir kunna að segja að það sé nú lítið að gleðjast yfir. Það þjónar hins vegar hvorki okkur sjálfum né öðrum að vera í þunglyndi og sjá allt svart. Með því erum við í raun að gera illt verra og lækka tíðni heildarinnar, sem er andstætt því sem við komum hingað til að gera.

JÚPITER OG VENUS

Júpiter og Venus eru í nánast algerlega nákvæmri samstöðu á síðustu gráðunni í Nauti, svo skoðið hvar sú gráða lendir í kortum ykkar. Hún gæti tengst heppni eða einhverri velgengni á því sviði lífs ykkar.

Þetta gæti líka tengst kærleika okkar til Jarðarinnar vegna þess að þessar plánetur eru í Nautsmerkinu. Þær eru líka í samstöðu við Sedna sem er á fyrstu gráðunni í Tvíburunum svo samstaðan gæti tengst auknum skilningi okkar á mikilvægi andlegrar vinnu og dýpri skilnings á því sviði.

NEPTÚNUS, JÚPITER OG VENUS

Neptúnus er í 60 gráðu afstöðu við Júpiter og Venus, og í raun Sedna líka. Júpiter er hinn forni stjórnandi Fiskamerkisins og Neptúnus hinn nýi. Í raun myndar samstaðan það sem kallast „fingur Guðs“, sem verður til við oddmjóan og þröngan þríhyrning – hér á milli Júpiters og Venusar, við Neptúnus í Fiskum. Honum fylgir enn ein andlega víddinn sem er að virkjast og djúp ást á Jörðinni.

HAUMEA Í SPORÐDREKA

Dvergplánetan Haumea sem er fremst í Sporðdrekanum er í 150 gráðu afstöðu við Sedna sem er fremst í Tvíburunum. Plánetan Haumea er nefnd eftir Hawai‘i-ískri eldgyðju, sem myndaði Hawai‘i eyjarnar átta með eldgosum sínum. Hún er mikið tákn fyrir nýja Jörð og endurnýjun, því hún gat gert ófrjóan jarðveg frjóan, kallað fram fæðu úr sjó og af landi og fætt af sér börn um allan líkamann.

Við erum því að taka Quantum stökk í þróun okkar og þótt Júpiter og Venus haldi áfram för sinni, verður Neptúnus í 60 gráðu afstöðu við Sedna allt þetta ár og fram á næsta ár, svo þessar plánetur halda þessari orku sem tengist „fingri Guðs“ áfram uppi.

ÚRANUS OG CERES

Úranus í Nauti er í 120 gráðu afstöðu við reikistjörnuna Ceres sem er í Steingeit, en gyðjan Ceres var í mýtunni tengd kornrækt og uppskeru kornsins. Það er þjarmað að bændum víða í Evrópu og bændur halda áfram að mótmæla og loka vegum víða um heim, þótt lítið sé hlustað á þá.

Við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir að ef það verður ekki land til að rækta á og bændur sem vilja yrkja Jörðina, fáum við enga fæðu. Svo einfalt er það.

ERIS Í HRÚT

Dvergplánetan Eris er á 25 gráðum í Hrút, svo bændur munu halda áfram að berjast fyrir réttlæti og því að hlustað sé á þá, en þar sem Úranus er í svona þéttri afstöðu við Ceres, gætum við líka átt von á nýjungum í ræktunarmálum – vonandi tengdum lífrænni ræktun, þar sem Úranus er í Nauti.

SABIAN TÁKNIÐ FYRIR SEDNA

Þar sem Sedna er á fyrstu gráðunni í Tvíburum er gaman að skoða Sabian táknið fyrir þá gráðu, en það var bandarískur miðill að nafni Elsie Wheeler  sem miðlaði túlkun á Sabian táknunum snemma á síðustu öld. Túlkunin fyrir fyrstu gráuðuna í Tvíburum er: „Horft í gegnum bát með glerbotni á lygnu vatni.“  

James Burgess hefur síðan þá túlkað þessi Sabian tákn enn frekar og segir um þessa tilteknu gráðu, að við séum að uppgötva nýjar víddir í lífinu, með því að horfa niður í vatnið í gegnum botninn á bátnum. Það samræmist því sem komið hefur fram í mýtunni um Sedna, sem myndbreyttist þegar líkami hennar sökk til sjávarbotns.

ÞRÍHYRNINGUR Í JARÐARMERKJUM

Það er í raun 120 gráðu þríhyrningur í kortinu á milli Merkúrs sem er á 11 gráðum í Nauti, dvergplánetunnar Orcus sem er á 14 gráðum í Meyju og dvergplánetunnar Quaoar sem er á 9 gráðum í Steingeit. Pláneturnar eru því allar í jarðarmerkjum. Mér finnst eins og Merkúr–Orcus afstaðan tengist því að upp komi einhver svik, þar sem ekki hefur verið staðið við gefin loforð. Eitthvað tengt endalokum einhvers sem tengist heildinni eða okkur öllum.

Við gætum líka þurft að gera upp svik eða horfast í augu við áhrif þeirra á líf okkar. Auk þess gæti Orcus líka verið að minna okkur á loforðin sem við gefum okkur sjálfum og stöndum ekki við – því hann er táknrænn fyrir þá sem svíkja eiða.

Quaoar er hins vegar að minna okkur á að syngja meira og dansa og hreyfa okkur og létta þannig á huga okkar, sem er alltaf á fullu að reyna að stjórna öllu – þótt hann viti að hann geti það ekki.

ATH! Ef þú átt ekki stjörnukort geturðu pantað kort hjá mér, þar sem afstöður dvergplánetanna í fæðingarkortinu koma fram, svo og afstöður plánetanna í transit og hvar þær hafa áhrif á fæðingarkortið.

SMELLTU HÉR til að panta þér kort og tíma fyrir örnámskeið þar sem ég fer yfir kortið með þér.

Mynd: Drew Tilk á Unsplash 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram