ALMYRKVI Á SÓLU 14. DESEMBER

ALMYRKVI Á SÓLU 14. DESEMBER

Hér á eftir fylgir þýðing á skýringum Pam Gregory stjörnuspekings á orkunni í kringum ALMYRKVA Á SÓLU[i] og NÝTT TUNGL í Bogmannsmerkinu þann 14. desember og áhrifum frá plánetunum fram undir 21. desember.

Pam hefur veitt fullt leyfi fyrir þýðingum á skýringum hennar. Gott er að líta á þær sem nokkurs konar veðurspá fyrir orkuna sem fylgir framvindu og afstöðum himintunglanna.

ALMYRKVI Á SÓLU OG NÝTT TUNGL

Pam fjallar hér um almyrkva á Sólu sem verður þann 14. desember í Bogmannsmerkinu um leið og kveiknar nýtt Tungl. Hún segir að það sé svo margt sem mikilvægt er að fjalla um í síðari hluta desembermánaðar, svo hún verður með sérstaka umfjöllun um samstöðuna milli Júpiters og Satúrnusar þann 21. desember, þar sem upplýsingarnar tengdar Sólmyrkvanum eru of víðtækar til að hægt sé að fjalla um hvorttveggja í einu.

Pam segir tilfinninguna sem fylgir þessu Sólmyrkva vera líka því að við séum að fara í gegnum aldahvörf. Þær umbreytingar sem framundan eru, eru svo gífurlegar. Við erum enn í þrengsta hluta fæðingarvegarins, en það eiga eftir að verða mikil umskipti þegar við förum inn í síðari hluta mánaðarins.

Tunglið á leið fyrir sólu

ÞVINGANIR OG ÓFRELSI

Við höfum haft ótrúlega kraftmikla orku allt þetta ár, orku sem byrjaði þann 12. janúar síðastliðinn, þegar Satúrnus og Plútó voru í samstöðu í Steingeitinni. Sú samstaða lagði í raun línurnar fyrir árið, því eins og Pam hefur áður sagt er svona öflug samstaða þessara plánetna tengd erfiðleikum, hörku, strangleika, auknum reglum og reglugerðum frá stjórnvöldum, þvingunum og ófrelsi – og hinu sögulega þema um misbeytingu valdsins.

Hún segir að stjörnuspekingar hafi ekki vitað um þær aðstæður sem myndu fylgja þessari orku, en þeir vissu að 2020 yrði erfitt og þungt ár, sem það hefur svo sannarlega verið hjá mjög, mjög mörgum.

MARS OG ERIS Í HRÚT

Álagið hefur aukist síðustu mánuðina, þar sem Mars í Hrút hefur verið í samstöðu við Eris í Hrút, en Eris er plánetan sem vekur upp kvenorkuna. Þessar tvær plánetur hafa svo verið í 90° spennuafstöðu við pláneturnar Satúrnus, Júpiter og Plútó í Steingeit, svo þemu tengd einstaklingsfrelsinu, sjálfstæði og sjálfsstjórn hafa lent í samstuði við stjórnvöld eða fyrirmæli að ofan, sem hafa hamlað þessum þáttum með reglum, reglugerðum og takmörkunum.

Steingeitin er alltaf táknræn fyrir hið gamla, hið staðnaða og það hvernig hlutirnir hafa alltaf verið í stjórnmálum og samfélagsskipan. Steingeitin er táknræn fyrir lóðrétt ferli skipana að ofan og niður og orka merkisins tengist stórfyrirtækjum, stórum stofnunum og í raun öllum stjórnkerfum, sem hafa vald yfir okkur og leiða yfirleitt til ójöfnuðar í samfélögunum.

Á LEIÐ INN Í VATNSBERAORKUNA

Við erum hins vegar á leið inn í Vatnsberaorkuna á næsta ári, en hún snýst um mun láréttari uppbyggingu samfélaga. Breytingin mun taka tíma að festa sig í sessi, en við erum að breyta yfir í mun meiri samvinnu og samfélagsþátttöku, þar sem fólk vinnur meira saman. Skilningur okkar á því að við búum í einum Alheimi mun líka aukast, en Pam fjallar nánar um það þegar lengra líður.

Þetta samstuð milli ólíkra afla – þ.e. frelsisþarfar og stjórnunar – hefur aukist því nú eru allar plánetur fyrir utan Úranus á braut fram á við. Úranus breytir um stefnu um miðjan janúar og við stefnubreytinguna myndast aukinn skriðþungi, því við viljum halda fram á við en megum gera ráð fyrir að rekast á fyrirstöður.

BaBat

ÚRANUSAR- OG STEINGEITARORKAN Í SAMSTUÐI

Black Moon Lilith er líka í samstöðu við Úranus, þar sem önnur plánetan er á 6° og hin á 7° í Nauti. Hvorug plánetan á auðvelt með að virða reglur, því báðar eru með herskáa orku, svo við erum með mikið af orku sem eykur þrýstinginn frá grunninum (fólkinu) upp á við. Frá götunum og almenningi og upp í samstuðið við völd ríkisstjórna.

Við megum um tíma eiga von á því að ríkisstjórnir reyni að herða tökin eða hafi löngun til að gera það í kringum miðjan desember, vegna þess að Satúrnus verður frá 7.-17. desember á 29.° í Steingeitinni, en sú gráða í hvaða merki sem er hefur tilhneigingu til að endurspegla skuggahlið þess merkis. Í þessu tilviki getur endurspeglunin orðið sérlega sterk, því Satúrnus stjórnar Steingeitinni. Þetta getur birst í meiri takmörkunum, meiri og strangari stjórnun eða umræðum um hvernig herða megi stjórnartaumana, ef orða má það sem svo.

Pam segir að við komum til með að finna þann aukna styrk í orkunni, sem hún hefur talað um lengi, en hann hámarkast um miðjan desember. Svo verður umbreyting í síðari hluta mánaðarins.

ALMYRKVI Á SÓLU

Þann 14. desember verður almyrkvi á Sólu á 23° og 8 mínútum í Bogmanni, kl. 16:16 síðdegis að íslenskum tíma. Pam hvetur okkur til að skoða hvar 23° og 8 mínútur lenda í stjörnukortum okkar, því sólmyrkvar eru eins og ofurmögnuð ný Tungl. Þeir veita því fullkomið tækifæri til að setja sér nýjan ásetning eða markmið, til að sá fræjum þess sem þú vilt staðfesta og gera að raunveruleika árið 2021.

Ef þú átt ekki stjörnukort, geturðu farið inn á vefinn hennar Pam – www.pamgregory.com – og fengið þar ókeypis stjörnukort. Í greininni TÓLF HÚS STJÖRNUKORTANNA á vefsíðunni minni er svo hægt að finna skýringar á húsunum.

Pam segir að ef við erum með einhverjar plánetur eða afstöður á milli 20° og 26° gráða í breytilegu (óstöðugu) merkjunum, það er Tvíbura – Meyju – Bogmanni eða Fiskum, munum við finna mjög sterkt fyrir þessum sólmyrkva, en þetta er eini algeri sólmyrkvinn á árinu 2020.

Hún segir jafnframt að ef þessi staða Sólar þann 14. desember, er í samstöðu við Sól, rísingu eða miðhiminn í stjörnukortunum okkar, gætum við notið skyndilegrar frægðar, orðið áberandi eða náð skyndilegri velgengni.

Pam lítur svo á að Sólmyrkvar séu mun jákvæðari en Tunglmyrkvar. Tunglmyrkvar tengjast meira endalokum einhvers, en Sólmyrkvum fylgir yfirleitt nýtt upphaf.

ÁHRIF SÓLMYRKVA

Myrkvinn varir í þrjár og hálfa klukkustund og stjörnuspekingar eru þeirrar skoðunar að sá tími sem myrkvinn varir, sé merki um árin sem áhrif hans ná yfir í þeim löndum sem myrkvans gætir að fullu. Í þessu tilviki eru það Chile, Argentína og suðurhluti Suður-Ameríku, auk suð-vestur Afríku. Hún telur því að áhugavert verði að fylgjast með þessum löndum næstu árin.

Hún segir að ef litið sé til baka til stóra Sólmyrkvans sem varð í ágúst árið 2017, en hann varð á 28° í Ljóni, þá hafi hann fallið beint yfir Bandaríkin. Og það hafa svo sannarlega orðið miklar breytingar í Bandaríkjunum síðan þá. Pam telur líka mjög áhugavert að sá Sólmyrkvi féll nákvæmlega á rísingu Trump Bandaríkjaforseta.

STÓRT NÝTT UPPHAF

Þessi myrkvi markar STÓRT nýtt upphaf og myrkvar valda alltaf nokkurs konar stórstökki. Orkan sem þeim fylgir er aldrei hægfara eða línuleg, heldur kemur hún alltaf á óvart og er óútreiknanleg.

Pam telur að þessi Sólmyrkvi verði því mjög spennandi og að við eigum eftir að finna fyrir auknum hraða á öllu, einkum þar sem þetta er almyrkvi á Sólu. Hún hvetur okkur því til að skoða hvar gráða myrkvans fellur í kortinu okkar, til að sjá hvernig við getum best nýtt hann til að gera hluti að raunveruleika.

Hún vill líka benda á annað áhugavert, en það er að þegar Úranus var uppgötvaður þann 13. mars árið 1781, fannst hann á 24° í Tvíbura. Sú afstaða er nánast á innan við gráðu í 180° spennuafstöðu við þennan Sólmyrkva.

Þær staðsetningar sem pláneturnar eru uppgötvaðar á senda endurómun í gegnum aldirnar. Pam hefur því á tilfinningunni að við munum einnig verða vör við þessa Úranísku orku þegar við höldum inn í þennan almyrkva á Sólu.

BOGMAÐUR OG ÚRANUS MEÐ ÁLÍKA ORKU

Arkitýpur eða frumgerðir bæði Bogmannsins og Úranusar eru nokkuð líkar. Báðar eru mjög tengdar framtíðinni, snúast báðar um frelsi, hafa mikla útþenslu og vilja ekki láta halda aftur af sér á nokkurn máta.

Úranus er líka sérstaklega tengdur Vetrarbrautinni, sem sólkerfi okkar tilheyrir og verður mjög sterkur næstu árin, þegar við förum yfir í Vatnsberaorkuna.

HIÐ GAMLA OG NÝJA

Þessi almyrkvi á Sólu er því mjög tengdur hinu nýja. Við erum því á snúningspunktinum þar sem hið gamla og hið nýja mætist. Almyrkvinn á Sólu er ekki bara á 23° í Bogmanni, heldur er hann aðeins í 4° fjarlægð frá Suður-Nóðunni. Hún er táknræn fyrir sameiginlega fortíð okkar, það sem við höfum þegar farið í gegnum eða allt það gamla.

Almyrkvinn er líka í aðeins 4° fjarlægð frá miðju Vetrarbrautarinnar (Galactic Center), sem sendir frá sér mjög öfluga kosmíska geimorku sem við notum til að skapa með, þegar við sköpum eitthvað úr eternum yfir í efni og reynslu. Sú orka stendur því fyrir hið nýja og ómótaða og það sem enn á eftir að verða.

Þessi Sólmyrkvi er því í orðsins fyllstu merkingu mitt á milli hins gamla og hins nýja, en það á eftir að koma betur út ljós þegar við förum út úr Steingeitarorkunni undir lok desember og svo auðvitað þegar við höldum lengra fram á við.

LÖG OG RÉTTLÆTI

Pam segir að Bogmaðurinn sé líka mjög tengdur við lög, réttlæti og sannleika. Hún telur að það verði áhugavert að fylgjast með fréttum um miðjan desember, því nú séu fyrir dómstólum víða um heim mikilvæg málaferli, tengd ýmsu því sem gerst hefur á þessu ári og því verði athyglisvert að sjá hverjar niðurstöður málaferlanna verði.

SAMSTUÐ OG GLUNDROÐI

Hún segir að við förum í gegnum almyrkvann á Sólu með viðvarandi samstuði milli plánetanna í Hrútsmerkinu og þeirra sem eru í Steingeit. Þetta verður tímabil þar sem mörg mál skýrast og tími mikilla umskipta í orkunni, sem hefur verið stigmagnandi svo lengi.

Svo megum við eiga von á enn frekari umskiptum þann 21. desember, þegar Júpiter og Satúrnus mynda samstöðu í Vatnsberanum, en um það fjallar hún nánar síðar.

En þar sem við erum enn með Neptúnus í spennuafstöðu við Öxul-Nóðuna, sem verður nákvæm upp á gráðu í janúar 2021, gefur það til kynna að öllu niðurbroti í samfélögunum fylgi mikil ringulreið og glundroði.

LEITUM INN Á VIÐ

Pam hvetur okkur því til að jarðtengja okkur eins oft og við getum, vera í náttúrunni, faðma tré, leika okkur við gæludýr eða ganga berfætt í grasinu, þar sem það er hægt.

Hún hvetur okkur til að leita inn á við  – ekki út á við, þar sem tvístrunin og dramað í fréttunum ríkir. Hún segir: Leitið inn á við, búið til innri einingu eða samræmi, hugleiðið, vinnið með öndunina og þjálfið hjartaöndun. Gerið allt sem þið getið til að skapa innri einingu.

Sú innri eining kemur til með að mynda grunninn (berggrunninn) í innri kjarna ykkar, þegar þið haldið fram á við. Jarðtenging og innri eining, verða að grunnundirstöðum ykkar þegar farið er inn í þetta tímabil.

PLÁNETURNAR Í KUIPER-BELTINU

Svona í framhjáhlaupi vill Pam sérstaklega hrósa Kelly Hunter, sem að hennar mati er yndislegur bandarískur stjörnuspekingur, fyrir rannsóknir hennar á nýjum plánetum sem nú eru að birtast okkur. Hún vísaði til Kelly í myndbandi sem hún gerði og heitir New Planetary Achetypes, sem finna má á YouTube síðunni hennar.

Rannsóknir Kelly hafa beinst að mörgum plánetum eða smástirnum, sem eru langt úti í geimnum, á grýttu belti sem kallast Kuiper-beltið. Þessar plánetur eru langt utan við braut bæði Neptúnusar og Plútó. Á síðustu 15-20 árum hafa nýir hnettir eða smáhnettir – sumir kallaðir dvergplánetur en aðrir KBO, sem er skammstöfun fyrir Kuiper Belt Objects – birtst þar. Pláneturnar tengjast mjög áhugaverðum arketýpum eða frumgerðum.

STJÖRNUKONAN VADA

Sú sem Pam fjallar um hér og hefur ekki rætt um áður kallast Vada. Vada er á þessum almyrkva á Sólu á 23° og 10 mínútum í Bogmanni, svo hún er bara tveimur mínútum frá því að vera í algerri samstöðu við myrkvann. Í raun má því líta á þetta sem nákvæma samstöðu. Í mýtólógíunni var Vada stjörnukonan (Star Lady), sú sem bjó til himininn með því að setja Sólina, Tunglið og stjörnurnar á hann.

Það sem Pam finnst vera heillandi við þennan stóra Sólmyrkva og þetta nýja upphaf (hér segist hún fá gæsahúð) er sú tilfinning að Vada sé boðberi nýrrar þróunar í skilningi okkar á geimnum og kosmólógíunni eða heimsmynd okkar.

Hún segir að ef við erum að fara í gegnum þróunarstökk með okkar meðvitund, sem við eru að gera, þurfi það þróunarstökk að vera leitt áfram af eða vera samsíða þróunarstökki í stjörnuspeki.

Þess vegna segist hún vera orðin mjög áhugasöm um þessar fjarlægu plánetur. Hún segir að mýtan skapi alltaf arkitýpuna, en hún styðst við hana daglega í vinnu sinni með fólki sem til hennar leitar í einkatíma, því um arketýpurnar snýst stjörnuspekin. Hún telur þessa samstöðu því vera afar áhugaverða og veltir fyrir sér hvort Vada sé að skapa hærra svið af kosmólógíuni eða himnunum/geimnum fyrir okkur.

HAFMEYJAN SALACIA

Hin Kuiper-beltis plánetan sem Pam hefur talað um í fyrri myndböndum er Salacia, en henni fylgir mjög falleg kvenorka. Salacia var eiginkona Neptúnusar og henni fylgir orka hafmeyjunnar. Hún er flæðandi og breytir auðveldlega um form, nokkurs konar umskiptingur. Hún veldur því að geislar Sólar glitra á yfirborði sjávar og veldur þessum endurspeglandi regnbogalitum.

LJÓSIÐ OG DNA-ið

Í augum Pam er Salacia táknræn fyrir hið ótrúleg mikla ljósmagn eða ljósorku, Photon-orku, gamma bylgjuljós eða kristaliserð demantsljós, sem sumir geta í raun séð, sem streymir til Jarðarinnar og uppfærir DNA-ið í okkur.

Vísindamenn hafa í mörg ár sagt að við séum með frekar lélegt DNA og þeir segjast ekki vita hvað það gerir, en það virðist vera líflaust og dautt. Nú eru DNA þræðirnir í okkur að endurnýjast um leið og við förum inn í þetta tímabil sem mun leiða af sér fæðingu nýrrar meðvitundar – og það er einmitt málið. Við erum að fæða nýja meðvitund.

SKJÓTAR BREYTINGAR KBO PLÁNETANNA

Pam segist því eiga eftir að fjalla nánar um þessar KBO dvergplánetur á komandi mánuðum, en margar þeirra eiga eftir að leiða til mikilvægra og skjótra breytinga (“quantum leap,” where it refers to a sudden, important change[ii]) þar sem þær sjá raunveruleikann sem gífurlega þjálan og sveigjanlegan, sem hann er svo sannarlega í smáskammtafræðinni.

Áþreifanleikinn og þéttnin eru bara tálmynd „þótt hún sé þrautseig“ eins og Einstein sagði. Við erum hins vegar á leið inn í mun meira fljótandi tímabil, þar sem við munum svo sannarlega komast að raun um að við lifum innan frá og út, en ekki utan frá og inn. Pam segist einmitt hafa skrifað um þetta í fyrstu bók sinni fyrir átta árum síðan.

Þegar á heildina er litið eru ekki margir meðvitaðir um þetta, en við eigum öll eftir að verða mun meðvitaðri um það hvernig við getum breytt tíðni okkar, til að breyta ytri raunveruleika okkar á svipstundu. Við erum á leið inn í slíkt tímabil.

VENDIPUNKTUR MILLI HINS GAMLA OG NÝJA

Pam lítur því á þennan almyrkva á Sólu sem vendipunktinn milli hins gamla og hins nýja. Við höfum enn ekki lifað í gegnum þetta áður, svo það er ekki hægt að ímynda sér það. Þetta er því mjög spennandi tímabil sem við erum á leið inn í. Mikilvægt er líka að hafa í huga að það verður RISASTÓRT tímabil vitundarvakingar í síðari hluta desembermánaðar.

Munið að Eris, sem vekur upp kvenorkuna er í 90° spennuafstöðu við Plútó, en Plútó er táknrænn fyrir andlega (spiritual) umbreytingu – og við erum á leið inn í þetta umbreytingartímabil.

STJÖRNUSPEKIN OG ORKULÍNUR

Þetta tímabil er ekki bara tengt stjörnuspekinni, þótt afstöður himintunglanna og skýringar stjörnuspekinnar á þeim séu afar þýðingarmiklar. Í umfjöllun sinni um Vetrarsólstöður og samstöðu Júpiters og Satúrnusar í Vatnsberamerkinu þann 21. desember mun Pam fjalla um mikilvæga þætti í stjörnuspekinni – en allt snýst um þennan vendipunkt.

Við erum með Jörðina okkar Gaia, sem er lifandi, lífræn vera og við vitum að hún er að uppfærast og þróast. Orkulínur eru mun virkari, sterkari og breiðari en þær voru og segulkjarni Jarðar er að færast til.

BREYTINGAR Á NORÐURPÓLNUM OG SEGULSVIÐINU

Norðurpóllinn er að breytast svo hratt að oftar þarf að uppfæra GPS kerfin nú en áður, til að tryggja að flugvélar lendi á flugbrautunum, en ekki á næsta túni í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Segulsvið Jarðar breytist mjög hratt og það er að valda óstöðugleika í orkusviðinu. Við erum að fá fleiri Sólgos (solar flares) og aukna birtu frá Sólinni. Þann 25. nóvember s.l. voru mikil Sólgos sem höfðu áhrif á suðurhveli Jarðar og við megum eiga von á mörgum samskonar í náinni framtíð. Þetta eru mjög stórtækar orkubreytingar.

MITT Á MILLI JARÐAR OG LJÓSSINS

Pam segir að við séum að fá þessar mögnuðu gamma photon bylgjur og þetta kristaliseraða ljós sem streymir til Jarðar utan úr geimnum. Við sem mannverur erum því eins og í samloku mitt á milli uppfærslu Jarðarinnar og þessa hátíðni ljóss sem streymir niður til okkar.

Við eigum ekki séns á öðru en að uppfærast. Meðvitund allra mun uppfærast hvort sem þeir vita af því eða ekki, en sú uppfærsla mun aðallega eiga sér stað í kringum 21. desember.

STÆRSTA TÍMABIL ÆVI OKKAR

Þetta tímabil í tilverunni er tengt fornum spádómum, hinu Guðlega plani og svo er það auðvitað mjög tengt stjörnuspekinni, þannig að allt leiðir að sama vendipunktinum, því allir eru segja það sama.

Þetta tímabil framundan er ekki bara stærsta tímabil hingað til á ævi okkar, heldur jafnvel á mörgum æviskeiðum, því við erum að uppfæra og hækka meðvitund okkar – og meira á eftir að fylgja í kjölfarið, því það verða fleiri tækifæri til slíks á komandi árum.

HRÖÐ UMBREYTING

Pam telur að við munum fara í gegnum þetta magnaða umskiptatímabil í orkunni, frá hinu gamla til hins nýja á miklum hraða, þar sem undið verður ofan af því gamla í janúar og febrúar á næsta ári. Henni þykir leitt að segja það, en álagið er ekki búið. Við erum hins vegar á leið í rétta átt, þar sem hratt verður undið ofan af hlutunum.

Hún hvetur okkur til að gera ráð fyrir að hlutirnir verði kaotískir og úr jafnvægi – en hún telur jafnframt að ástandið muni batna í mars. Stjörnurnar slaka aðeins á, því þá förum við að fara úr spennuafstöðu milli plánetanna og yfir í samhljóma afstöður og þá verða hlutirnir auðveldari.

NIÐURBROTIÐ HELDUR ÁFRAM

Niðurbrot hins gamla heldur áfram allt fram til ársins 2023 eða 2024. Það verður hins vegar ekki í eins ofsalegum bylgjum og við erum að fara í gegnum núna – þegar við loks komumst út úr fæðingarveginum undir lok desember.

Það koma hins vegar til með að verða bylgjur af niðurbroti, allt þar til Plútó fer alveg inn í Vatnsberann árið 2024. Þá verðum við loks – eða kannski aftur – orðin þegnar Vetrarbrautarinnar.

Pam segir þetta vera ferli okkar fram á við. Stærstu umskiptin verði þegar Júpiter og Satúrnus fara inn í Vatnsberann eftir miðjan desember – og svo þegar Plútó fer inn í sama merki síðla árs 2023 eða snemma árs 2024.

HUGLEIÐIÐ OG HALDIÐ INNRI RÓ

Pam hvetur okkur til að taka okkur tíma til að hugleiða, halda innri ró og ekki láta ytra umhverfið trufla okkur þegar við höldum inn í þetta orkumikla tímabil sem fylgir almyrkva á Sólu. Hún segir jafnframt að vegna einangrunar sé ekki eins auðvelt fyrir okkur að vera á jóla-búðarápi svo það sé gott að nýta tímann í innri vinnu.

Hún er sannfærð um að þegar við höldum inn í umbreytinguna 21. desember, muni orkutíðni hvers og eins okkar margfaldast. Hún bendir jafnframt á að ef við erum haldin ótta, reiði og hatri eða erum í fáti eða uppnámi, þá BÚMM! Þessi orka mun þá magnast upp úr öllu valdi.

Ef við erum hins vegar full af gleði, friði, kærleika, hamingju, þakklæti og metum hlutina, þá magnast þær tilfinningar upp úr öllu valdi.

HEIMAVINNAN

Heimavinnan felst því í því  að vinna með tilfinningar okkar og innri ró. Við eru á leið inn í rétt um tveggja til þriggja vikna tímabil. Á þessu tímabili er mjög öflugur, en lítill gluggi tækifæris til umbreytinga, svo hún hvetur okkur til að sofa hvorki á verðinum, né hanga á Netflix.

Hún segir þetta vera heimavinnuna okkar, vegna þess að þeim mun hærra sem við komum okkur tíðnilega séð „til að taka flugið“ þann 21. desember, því betra verður það fyrir okkur sem einstaklinga – og fyrir heildina, því tíðni okkar skilar sér alltaf til heildarinnar.

Pam hvetur okkur til að hugsa um þetta sem röð af hliðum á flugvelli og tíðni okkar komi til með að ráða því frá hvaða hliði við tökum á loft.

Hún hvetur okkur því til að leggja okkur fram um að gera allt sem við getum til að vinna með tíðnina okkar og ná þéttri, jákvæðri tíðni fyrir flugtakið, til að það takist vel.

FRJÁLS VILJI

Pam segir jafnframt að í þessum orðum hennar sé ekki falinn neinn dómur á það fólk sem er hvorki að fylgjst með henni, né öðrum sem eru að veita samsvarandi upplýsingar. Við erum hvert og eitt okkar á mismunandi sálarferðalagi og það er bara frábært. Við höfum hins vegar FRJÁLSAN VILJA.

Með FRJÁLSUM VILJA getum við valið hvernig við notum tíma okkar og orku – og þessar næstu tvær vikur munu ráða úrslitum um það hvar við tökum á loft. Pam er jafnframt þeirrar skoðunar að flugtakið hjá hverju og einu okkar muni ákvarða til langs tíma, það ferli sem við fylgjum inn í framtíðina.

Það verða auðvitað önnur umbreytingastökk, þegar fram líða stundir eða á nokkrum næstu árum. Þetta er hins vegar STÓRA TÆKIFÆRIÐ. Tíminn frá miðjum desember og fram í lok desember er RISAtækifærið.

Pam segist hafa troðið fullt af upplýsingum inn í þessa umfjöllun sína, en segir jafnframt að það sé um svo margt að fjalla að hún gæti auðveldlega talað um það klukkutímum saman.

Hún teystir því að þessar upplýsingar séu hjálplegar og bendir á að frekari upplýsingar um bækur hennar, kennslumyndbönd og annað sé að finna á www.pamgregory.com

Myndir: CanStockPhoto /innovatedcaptues/chrisharvey/PokerMan/AllenCat

[i] https://is.wiktionary.org/wiki/s%C3%B3l

[ii] https://www.vocabulary.com/dictionary/quantum#:~:text=In%20the%2017th%20century%2C%20the,to%20a%20sudden%2C%20important%20change.

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 503 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?