VIÐ ERUM ÖLL LJÓSVERUR

VIÐ ERUM ÖLL LJÓSVERUR

Við erum öll ljósverur eða með öðrum orðum andlegar verur, sem eru að fara í gegnum mannlega reynslu. Þegar við deyjum hverfur andinn úr líkamanum – en líkaminn gufar ekki upp. Ljósverurnar við yfirgefum farartækið okkar í þessu lífi sem hefur verið líkaminn og færum okkur yfir á annað svið, meðan líkaminn rotnar og verður að þeim jarðefnum sem hann er gerður úr. Af Jörðu ertu kominn… eins og sagt er við lok Jarðvistarferðalagsins.

Meðan við erum börn megum við óhindruð nota ímyndunarafl okkar, sem mjög er tengt Þriðja Auganu og innsæisvitund okkar. Enginn segir neitt við því þótt börn eigi sér ósýnilegan við eða vinkonu, leiki sér við álfa eða geimverur eða tali tímunum saman við einhvern sem hinir fullorðnu sjá ekki.

Börnin eru enn tengd Ljósinu sem þau komu úr og þeim er þetta eðlilegt.

LJÓSIÐ ER TENGT HÆRRI TÍÐNI

Þegar við verðum eldri byrjar samfélagið og þeir sem eldri eru og hafa gleymt að þeir eru ljósverur að slökkva Ljósið hjá börnum. Það er gert með alls kyns boðum og bönnum og yfirlýsingum um að ekki sé til neitt meira í þessum heimi en við sem búum í þrívíddarveruleikanum á Jörðinni.

Orkan í Alheiminum á þessu magnaða umbreytingarári, þar sem tíðnin er sífellt að hækka og áhrif plánetunnar Eris, einkum á konur, hefur gert það að verkum að margir eru að vakna á ný til vitundar um Ljósið í sjálfum sér. Við þurfum að tengjast þessu Ljósi enn betur, ekki bara til að lifa af, heldur líka til að halda áfram að þroskast í þeim umskiptum sem fylgja aukinni meðvitundaraukningu.

Við búum ekki lengur í fyrirsjáanlegum heimi, þar sem hægt er að treysta á leiðtoga í ábyrgðarstöðum til að leiðbeina okkur. Við þurfum því að læra að nýta innsæishæfileika okkar og ímyndunarafl, en allt nýtt fæðist með ímyndunaraflinu, til að taka sjálf ábyrgð á að skapa breytta og betri framtíð sem þær ljósverur sem við erum.

LJÓSIÐ VÍÐAR EN Í ÞRIÐJA AUGANU

Ljósið í okkur er ekki bara að finna í Þriðja Augana, heldur í hverri einustu frumu í líkamans. Í þeim er lífskrafturinn sjálfur og með því að gæta vel að líkama okkar og læra að elska hann, getum við viðhaldið þeim krafti gangandi mun lengur en við höfum hingað til haldið, enda talað um að algengur lífaldur manna verði brátt 120 ár.

Ljósið nýtur sín betur í léttum líkama, svo þungur matur, of mikil uppsöfnun af úrgangi og eiturefnum í líkamanum og tilfinningum sem ekki hefur verið unnið úr, eru allt þættir sem geta haft áhrif á ljósmagnið okkar.

HLIÐ LJÓNANNA

Andlega þenkjandi fólk talar um svokallað HLIÐ LJÓNANNA, sem tengist á ákveðnum árstíma því, að Jörðin, stjarnan Síríus og hin mikla Alheimssól eru í samstöðu í beinni línu í geimnum. Frá júlílokum og til 12. ágúst er HLIÐ LJÓNANNA opið en þann 8. ágúst er orkan í hámarki.  Orkan sem fylgir HLIÐI LJÓNANNA er mjög tengd hinum skapandi eldi Þriðja Augans.

Í hinum gömlu borgarmúrum í Jerúsalem er líka HLIÐ LJÓNANNA, sem opnað er árlega þann 8. ágúst. Fyrir ofan hliðið, sem líka er kallað Messíasarhliðið eru lágmyndir í múrnum af fjórum ljónum.

Á þessum árstíma er sólin í Ljónsmerkinu, en það merki og sólin eru táknræn fyrir LJÓSIÐ. Við getum byggt upp hinn skapandi eld Þriðja Augans með því að stunda öndunaræfingar, því loftið magnar eldinn. Við getum líka kveikt eld og notað hann til að brenna gamlar myndir, raunlegar eða ímyndaðar úr fortíð okkar, fyrirgefningarbréf og annað sem við viljum ekki burðast með inn í LJÓSmeiri framtíð.

Mynd:  Dyu – Ha on Unsplash

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram