TAUGAKERFIÐ ER UNDIR ÁLAGI

TAUGAKERFIÐ ER UNDIR ÁLAGI

Áhrifin sem pláneturnar í kringum Jörðina hafa á líkama okkar eru margvísleg. Í þessum mánuði er orkan frá Úranusi mjög sterk og hefur mikil áhrif á taugakerfi okkar. Áhrifin eru að sjálfsögðu mismunandi eftir einstaklingum, en flest finnum við á einhvern hátt fyrir þeim.

Þessi vika hófst með því að Merkúr fór í 90° spennuafstöðu við Úranus. Merkúr stýrir hinum huglæga líkama okkar, hugsunum og tjáskiptum. Úranus stendur fyrir rafmagnaða orku, sem örvar taugakerfið á ýmsan máta. Undir þessum kringumstæðum geta sumir orðið taugaveiklaðir, eirðarlausir og fengið kvíðaköst, á meðan aðrir verða andvaka. Þessi líðan tengist oft því að einhver umskipti eða umbylting er að eiga sér stað innra með viðkomandi einstaklingi.

Taugakerfið

STRAUMHVÖRFIN Í LÍFI OKKAR

Úranus ýtir alltaf undir einhver straumhvörf í lífi okkar. Plánetan stuðlar að ákveðinni samhæfingu eða tengingu við okkar æðra sjálf og opnar fyrir nýjar víddir í skilningi okkar og skynjun.

Auk þess fylgir Úranusi í orðsins fyllstu merkingu byltingarkennd orka, líkt og sjá má á götum úti víða um heim.

Við ögrandi afstöður milli mismunandi pláneta finnum við oft fyrir einhverjum óþægindum. Þegar við veitum þeim athygli, getum við grafið aðeins dýpra og fundið það sem leitar upp á yfirborðið og við þurfum að losa okkur við eða vinna úr.

Þessi óþægindi geta líka verið að hvetja okkur til að staldra við og stilla orkuna, svo við getum betur numið tilfinningar okkar og hugsanir – og þannig fundið nýjar lausnir, unnið að heilun eða sett okkur ný markmið.

GAMLAR SANNFÆRINGAR

Það er heilmikil spenna víða í heiminum í dag og þessi spennuafstaða milli Merkúrs og Úranusar hjálpar okkur að losna undan gömlum sannfæringum, sem hættar eru að þjóna okkur og finna leiðir til að sjá nýjar lausnir til að takast á við breyttar aðstæður.

Úranus getur eytt út forritum í okkur, þessum sem við höfum hlaðið niður frá þeim sem í kringum okkur eru. Þeim umskiptum fylgir oft spenna, einkum þegar innsæið er að sýna okkur eitthvað eða við verðum fyrir uppljómun á einn eða annan hátt.

Nýjar hugmyndir skjóta upp kollinum og valda truflunum, því flestir eru svo vanir því að láta mata sig í gegnum fréttamiðla og umhverfið almennt, án þess að hugsa of mikið um hlutina. Nú er hins vegar þörf á sjálfstæðri hugsun og mótun nýrrar framtíðar.

DRAGÐU ANDANN DJÚPT

Því er tilvalið þessa vikuna og fram í þá næstu að gefa sér tíma til að draga andann djúpt, tengja sig við Jörðina og veita þessum breytingum tækifæri til að eiga sér stað. Umbreytingin getur falist í því hvernig við hugsum og skynjum núverandi raunveruleika um leið og við leitum lausna til að móta nýjan og betri raunveruleika.

Með því að hægja aðeins á okkur, eigum við auðveldar með að sjá stóru myndina. Við það hættum við að takmarka okkur við átök og mismun manna á milli og stöðuga ringulreið í fréttum og upplýsingum.

Þegar við skynjum sannleiksröddina innra með okkur, eigum við auðveldar með að sjá í gegnum lygar og blekkingar og standa fyrir okkar eigin sannfæringu. Við það ætti okkur að takast að skapa samhljóm meðal margra og mynda þannig meiri einingu.

ÚRANUS, MARS OG PLÚTÓ Í STUÐI

Í gær fór Mars í Hrútsmerkinu í 90° spennuafstöðu við Plútó. Þetta er ögrandi afstaða milli plánetu sem fer hratt yfir (Mars) og ytri plánetu sem fer hægar (Plútó). Á morgun fer Úranus í algera kyrrstöðu og fer svo að hreyfast afturábak.

Við þessar breytingar á för Úranusar um himinhvolfin geta orðið snögg umskipt, eins og til dæmis eldsumbrot, jarðskjálftar og annað sem getur algerlega breytt stefnu okkar í lífinu.

Ytri pláneturnar stuðla á margan máta að því að koma okkur í gegnum umbreytingar. Reyndar má alltaf búast við einhver mótstöðu gegn breytingum, sem gætu verið að ná hápunkti núna.

Mars tengist egóinu, viljanum og stríðsorkunni, svo og krafti og persónulegum völdum. Plútó er pláneta dauða, endurfæðingar og umbreytinga. Þegar orkan frá þessum tveimur plánetum togast á, er ekki ósennilegt að margir finni fyrir óstöðugleika og óöryggi, en þessar tilfinningar eru hluti af breytingaferlinu.

UMBREYTING KYNORKUNNAR

Mars og Plútó stjórna líka kynorku okkar. Flestir eru ómeðvitaðir um hvernig á að stjórna þeirri miklu orku og flytja hana til í líkamanum þannig að hún verði að umbreytingarkrafti. Til að svo megi verða þarf að samþætta kynorkuna okkar æðri vitund, svo hún geti flætt sem skapandi kraftur, sem tengir okkur betur við Jörðina og Alheiminn. Takist okkur að virkja þessa orku og hreinsa hana, verðum við mun öflugri í að gera hugsanir okkar að veruleika.

Samhlilða Marsorkunni í Hrútsmerkinu fylgir mikil fljótfærni og baráttugleði, svo það er mikilvægt að stilla sig aðeins og bregðast ekki við kringumstæðum af hörku. Best er að stíga aðeins til baka og hugsa málin áður en eitthvað er gert, því þá geta aðgerðir okkar orðið hnitmiðaðri og stuðlað að aukinni sjálfstjórn.

Mynd: CanStockPhoto / Steve Allen /Stockshoppe

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram