ÚRANÍSK ORKA Á NÆSTUNNI

ÚRANÍSK ORKA Á NÆSTUNNI

Í gær var ég með spjall á Facebook síðunni minni, þar sem ég var með þýðingu á skýringum stjörnuspekingsins Pam Gregory – www.pamgregory.com – í tengslum við fullt tungl í Vatnsbera þann 3. ágúst.

Pam segir að næstu 5 mánuði verði mikla sviptingar og kraftur í orkunni og að orkuflæðið verði frekar flókið, því margar plánetur séu – í bakkgír (retrograde) – meðal annars Júpiter, Satúrnus, Neptúnus og Plútó. Þessar plánetur hreyfast frekar hægt og eru nær Jörðu þegar þær eru í bakkgírnum og þess vegna gætir áhrifa þeirra meira.

Eris fór í bakkgírinn 19/7 og Úranus fer í bakkgírinn 15/8. Þegar pláneturnar bakka, er það tákn um að nú sé tími til sjálfsskoðunar. Tími til að líta inn á við og skoða hvað þarf að gera upp, hvað þarf að víkja og hverju þarf að breyta, áður en lengra er haldið.

UMRÓT OG ÓLGA

Þar sem Mars er í Hrútsmerkinu og Satúrnus í samstöðu við Plútó, getur staða þessara plánetna verið undirrót að samfélagslegri ólgu. Ólgu sem fylgir niðurbroti hins gamla, en samkvæmt skýringum Pam eru það margir þræðir sem tengja niðurbrotsferlið næstu 5 mánuðina.

Pam Gregory hefur líkt þessu niðurbroti við ferlið sem fylgir því að skipta um eldhúsinnréttingu. Það þarf að brjóta þá gömlu niður, kannski gera ráð fyrir breytingum á rafmagns- og vatnslögnum og ýmsu öðru. Allt er á tjá og tundri meðan á framkvæmdum stendur, en svo smátt og smátt fer breytingin að taka á sig mynd og þegar yfir líkur birtist nýtt eldhús.

VAKNING KVENORKUNNAR

Smástirnið eða plánetan Eris er tengd nýrri erkitýpu, umróti og ólgu. Hún vekur upp kvenorkuna, en bæði karlar og konur búa yfir kvenorku. Pam talar um að fólk um allan heim sé dagleg að vakna til þeirrar staðreyndar að lífið sé aðeins meira an þrívíddar veruleikinn, sem við höfum trúað að við búum í. Fleiri séu að upplifa meiri andlega tengingu og skilaboð.

Fólk er líka að vakna upp við að það sem það taldi að væri að virka vel í samfélaginu – er ekki að gera það. Hvers konar spilling er að koma upp á yfirborðið. Pláneturnar sem hafa meðal annars áhrif á það eru Júpiter og Plútó, en þær eru í samstöðu. Júpiter er táknrænn fyrir réttlætið og Plútó fyrir leyndarmál sem lengi hefur verið haldið niðri. Þau geta snúið að kynlífshneykslum eða fjármálum, en þau leyndarmál eru yfirleitt best falin.

SATT EÐA LOGIÐ

Allar þessar uppljóstranir eru hluti af því niðurbroti á gamla kerfinu sem er að eiga sér stað. Neptúnus í Fiskamerkinu er í spennuafstöðu við Nodal öxulinn, en suðurnóðan er í Bogmanni. Neptúnus slær þoku sinni yfir hlutina, svo stundum virðast þeir raunverulegir (sannir) en stundum óraunverulegir (lognir) og fólk veit ekki alltaf hverju á að trúa.

Suðurnóðan í Bogmanni stendur fyrir gamlar sannfæringar og við eigum erfitt með að trúa því að sannfæringakerfi okkar sé að brotna niður, nánast fyrir augunum á okkur.

SEGULSKJÖLDUR JARÐAR

Pam fjallar nokkuð mikið um orkubreytingar hjá Jörðinni, meðal annars um Segulskjöldur Jarðar (Magnetic Shield) sé að falla og sólkerfi okkar að færa sig til. Þessum breytingum fylgir að meiri orka streymir inn til Jarðar frá Vetrarbrautinni. Orka sem við höfum ekki áður haft aðgengi að.

Jörðin er einnig á leið í gegnum Photon beltið en þetta belti er táknrænt fyrir ljósið – og við erum ljósverur. Þessum breytingum fylgir meira ljós til Jarðar og ljósinu fylgja nýjar upplýsingar sem koma til okkar sem tíðnir, svo orkan er að breytast úr kolefni yfir í kristallaða orku.

Ómun eða samhljómur líkama okkar er líka að breytast og hefur verið að hækka. Rafsegulmagnaðar árur okkar eru tengdar við hjartslátt Jarðarinnar – og þegar hann breytist veldur það umbreytingu í meðvitund okkar.

HALASTJARNAN NÝVISKA

Margir hafa spurt Pam Gregory um halastjörnuna Neowise – Nýviska – sem fer einn hring um orkubraut sína á 6.800 árum. Hún var næst Jörðu 22. og 23. Júlí síðastliðinn. Margir trúa því að halastjörnur stuðli að meðvitundarbreytingum hjá okkur á Jörðinni.

Þegar þessi stjarna kom að Jörðu fyrir 6.800 árum síðan var hún táknræn fyrir fall Gyðjumenningarinnar – og Feðraveldið fæddist. Þar sem Plútó er nú í Steingeit eru ýmsir að velta fyrir sér hvort nú sé Feðraveldið að falla.

Halastjörnur koma hlaðnar frosti úr kulda í stjörnuþokunni og þyðna þegar þær nálgast jörðu. Við það dreifist efni úr halastjörnunum og fellur til jarðar. Líkt og með Halastjörnuna 67P, er gert ráð fyrir að það efni sem fylgi þessari verði að nýju byggingarefni í áframhaldandi þróun okkar á Jörðinni.

ORKULÍNUR OG SEGULSVIÐ

Rory Duff – www.roryduff.com – er breskur landfræðingur og landlíffræðingur. Hann hefur lengi mælt segulsvið Jarðar og orkulínur. Hann segir að allar orkulínur séu að styrkjast og breikka, einkum og sér í lagi Keisara- og Drekalínurnar.

Hopi indíánarnir í Norður-Ameríku, sem þykja djúpvitrir mjög hafa spáð því að þegar þær tengist saman verði mikil umbreyting í heiminum.

Það getur verið óþægilegt að fara í gegnum allar þessar breytingar, en það er nokkurs konar hluti af endurfæðingu okkar. Samkvæmt Pam eru við að fara í gegnum risastökk – Quantum Leap – í þróun okkar.

FULLT TUNGL OG ORKA ÚRANUSAR

Þegar Tunglið er fullt skín það skært og lýsir upp öll leyndarmál og út í dimm horn. Þetta skæra ljós á einkum Tunglið sem var fullt 3. ágúst, því það er í Vatnsbera en það stjörnumerki stjórnast af Úranusi – en Úranus er uppljóstrarinn. Hann fær stuðning frá Júpiter, sem beinir hvassri orku sinni að sannleikanum. Þetta telst því vera sérlega úranískt Tungl, en með Úranusi fylgja gjarnan byltingar og breytingar.

Orkan getur brotist út eins og eldgos, það geta verið eldgos í pólitík, áföll, sprengingar (eins og í Beirut), uppljóstranir tengdar fjármálum, bönkum og gjaldmiðlum – en úranísk orka getur líka komið fram með nýjar og skapandi hugmyndir og lausnir.

Við getum líka þurft að huga að og takst á við málefni tengd fæðukeðju okkar – því Úranus er í Nautsmerkinu, en það merki tengist Jörðinni.

Úranus er líka tengdur öðrum verum í geimnum og það eru meiri tengingar við slíkar verur nú en lengi hefur verið í gegnum miðla og þá sem eru skyggnir. Þessar verur eru á hærri tíðni en við almennt – en með hækkandi tíðni og hugsanaflutningi getum við átt samskipti við þessar verur, því tíðni hugsana ferðast hraðast.

VATNSBERAÖLDIN Í AUGNSÝN

Undir lok árs færum við okkur að mestu úr Steingeitarorkunni sem er kerfisorkan. Hún hefur byggst upp á aðgreiningu, andstæðunum vinna/tapa – gott/vont – vinstri/hægri – aðgreiningu. Vatnsberaorkan snýst um sameiningu, um það að hafa meðvitund um sameiningu – þar sem við erum öll guðlegar ljósverur að vinna sameiginlega að góðu samfélagi.

Nýlega var gefin út heimildarmyndin THE 1 FIELD. Í henni er að finna margar skýringar um nútíð og framtíð okkar. Hægt er að leigja myndina sem er um 2ja tíma löng, af erlendri vefsíðu með því að SMELLA HÉR.

Meðvitund okkar er í hjartanu og huganum. Sólin er táknræn fyrir hjartað og hún er í Ljónsmerkinu. Tunglið er táknrænt fyrir hugann og það er í Vatnsberamerkinu. Við verðum að vinna með báða þessi þætti saman til að skapa framtíðina.

Pam ráðleggur eftirfarandi æfingu til að hækka tíðni hjartans (líkama) og hugans. Ég held ég hafi áður sett hana hér inn, en hún byggist upp á því að hugleiða. Hugsa sér hjartað sem lunga – anda inn í það – og hugsa á sama tíma um eitthvað sem maður er þakklátur fyrir.

Það er falleg sextíl (60°) tenging milli Júpiters í Steingeit og Neptúnusar í Fiskum þessa stundina. Nýttu orkuna og láttu eftir þér að dreyma STÓRA DRAUMA um hvernig þú vilt að framtíðin verði.

NOKKRAR DAGSETNINGAR MEÐ ÖFLUGAR AFSTÖÐUR

10/8 – Er Merkúr í spennuafstöðu (90°) við Úranus og Tungl í samstöðu við Úranus – Undirbúðu þig undir að eitthvað hneykslanlegt komi upp á yfirborðið

15/8 – Fer Úranus fer í bakkgírinn – Því geta fylgt áföll – hið óvænta – öfgar – jarðskjálftar – aðrir atburðir tengdir jörðunni – eitthvað eitt af þessu eða allt…

13/8 – Er Mars í Hrút í spennuafstöðu (90°) við Plútó – Krafturinn kemur réttlætinu fram

17/8 – Er Mars í samstöðu við Eris – Aukin hækkun meðvitundar og vakning kvenorkunnar.

Orkan okkar kann að vera tætt á þessu tímabili – en við þurfum að leita inn á við að HETJUNNI í okkur, halda jafnvægi og vita að allt er eins og það á að vera

Gott er að gera sér grein fyrir að ef þú setur þér markmið á nýju tungli í einhverju merki – þá er tunglið fullt í sama merki 6 mánuðum síðar. Þá er gott að fara yfir markmiðin og sjá hvað hefur ræst á þessum 6 mánuðum.

Þýtt eftir bestu vitund og þekkingu eftir skýringum Pam Gregory af Guðrúnu Bergmann.

Mynd: CanStockPhoto / merydolla

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 589 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram