UMBREYTINGATÍMAR

UMBREYTINGATÍMAR

Ekki fer á milli mála að við lifum á miklum umbreytingatímum. Kórónuveiruátökin síðastliðið ár hafa sett allt sem áður var eðlilegt úr skorðum. En það er ekki bara kórónuveiran sem hefur haft áhrif til breytinga.

Stjörnuspekingar voru fyrir löngu búnir að spá því að árið 2020 yrði mikið umbreytingaár, meðal annars vegna þessa að þá voru pláneturnar Satúrnus, Júpiter og Plútó saman í Steingeitinni.

Steingeitin stendur fyrir alls konar kerfi, eins og stjórnkerfi landa, stórfyrirtækja og stofnana og þar sem Plútó var og er áfram í Steingeit hefur orka hans verið að brjóta þau niður. Það niðurbrot heldur áfram fram til ársloka 2023 eða til upphafs ársins 2024.

STRAUMHVÖRF Á VETRARSÓLSTÖÐUM

Þann 17. og 19. desember síðastliðinn færðust pláneturnar Satúrnus og Júpiter úr Steingeit yfir í Vatnsberann. Satúrnus og Júpiter voru svo í nákvæmri samstöðu þann 21. desember, en sú samstaða var talin sérstaklega mikilvæg út frá stjörnuspekinni.

Í fyrsta lagi var það vegna þess að hún var sama dag og Vetrarsólstöður voru.

Í öðru lagi vegna þess að samstaðan var á 0° og 29 mínútum í Vatnsberamerkinu, en það undirstrikaði nýtt upphaf, þessa nýju fyrirmynd að Vatnsberaorkunni.

Í þriðja lagi mörkuðu þessu umskipti milli stjörnumerkja upphafið á nýjum 20 ára hring, en pláneturnar Júpiter og Satúrnus mætast á 20 ára fresti í sama elementinu, sem eru þá annað hvort loft, eldur, jörð eða vatn.

Undanfarin 200 ár hefur samstaða þeirra átt sér stað í JARÐARmerkjum að undanskildu einu fráviki þegar þær mættust í Voginni árið 1991. Í desember hófst hins vegar nýr 200 ára hringur þessara plánetna, svo næstu 200 ár munu þær mætast á 20 ára fresti í LOFTmerkjum.

Mikill munur er á þessum elementum, því orka LOFTSINS er mun hraðari. Því getum við átt von á að allt gerist mun hraðar á næstunni. 

KYNSLÓÐAPLÁNETUR

Yfirleitt er litið á Júpiter og Satúrnus sem kynslóðaplánetur og í raun standa þær fyrir nýja sýn á heiminn, einkum þegar þær eru að fara úr einu elementi yfir í annað. Ný heimssýn tengist fyrirkomulagi samfélagsins, stjórnmálum, menningu hvers tíma, gildismati, efnahagsmálum og í raun öllu sem snýr að því hvernig þessi kerfi samfélagsins starfa.

Það eykur mikilvægi þessara umbreytinga að Plútó er enn í Steingeit, en þar er plánetan táknræn fyrir niðurbrot hins gamla og þar heldur sama þemað áfram og verið hefur í gangi undanfarin ár, en gengur nú að öllum líkingum hraðar fyrir sig vegna þess að Júpiter og Satúrnus eru nú í LOFTelementinu.

Í NÝRRI ORKU

Við erum því öll í algerlega nýrri orku bæði vegna áhrifa frá þessum plánetum, en ekki síður vegna þess að Jörðin er að fara í gegnum Photon-beltið. Því fylgir aukið ljósmagn og hærri tíðni. Jafnframt getur fylgt þessari orku mikil pressa úr umhverfinu og við kunnum að finna fyrir miklum þrýstingi og ábyrgðarkennd, því allt gerist svo hratt

Hærri tíðni leggur aukið álag á líkamann, meðan hann er að aðlagast henni. Álagið getur komið fram í ýmsum líkamlegum einkennum eins og höfuðverk, þreytu og meiri þörf fyrir hvíld og óreglulegum svefni svo eitthvað sé nefnt. Í þessu ferli er mikilvægt að næra líkamann á góðri fæðu, drekka mikið vatn og stunda reglulega einhverja líkamsrækt.

Ef þú hefur áhuga á stuðningi og fræðslu í gegnum þetta ferli gæti námskeiðshópurinn STJÖRNUSKIN verið fyrir þig. Námskeiðið er fræðslu- og þróunarferli út allt þetta ár og þú finnur nánari upplýsingar um það með því að SMELLA HÉR.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Mynd: Photo by Aziz Acharki on Unsplash

 

 

 

 

 

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram