TJÁUM TILFINNINGAR OKKAR
TJÁUM TILFINNINGAR OKKAR
Því miður kemur það oft fyrir að þær tilfinningar sem okkur langar til að tjá, en gerum ekki, setjast að í líkama okkar. Það er eins og við kyngjum þeim og því setjast þær oftast að í kviðnum. Frekar en að tjá öðrum eða viðurkenna fyrir okkur sjálfum, hvernig okkur virkilega líður, felum við þessar tilfinningar djúpt innra með okkar, þar sem þær taka upp rými.
Með því að troða tilfinningunum niður í kviðinn, finnst mörgum að þeir hafi valið öruggu leiðina í viðbrögðum sínum, þar sem þeir þurfa þá ekki að takast á við þær. En það felst ákveðin blekking í því, vegna þess að þessi aðferð getur bæði haft slæm áhrif á tilfinningalega líðan okkar og á líkamlega heilsu.
Eftir því sem þær safnast upp taka tilfinningarnar meira rými, uns okkur finnst við vera að springa. Stundum springur fólk og hellir eldgamalli reiði sinni og sársauka yfir aðra með mismunandi góðum eða slæmum afleiðingum. Því er mikilvægt, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu að vinna úr þessum tilfinningum og sleppa þeim svo.
LEIÐ TIL AÐ LOSA UM GAMLAR TILFINNINGA
Ein leið til að tengjast niðurbældum tilfinningum og losa um þær er að gera ákveðna æfingu fyrir kviðsvæðið. Best er að leggjast út af, loka augunum og byrja á því að draga andann nokkrum sinnum djúpt að sér og slaka vel á líkamanum við útöndun, hægja svo á önduninni og líta svo inn á við.
Svo er gott að leggja höndina á kviðinn og endurtaka þrisvar sinnum upphátt eða í huganum: „Vinsamlegast sýndu mér mínar sönnu tilfinningar.“ Hlustið eftir svari og endurtakið þessa æfingu eins oft og þið þurfið á að að halda og farið dýpra inn á við í hvert skipti.
Fylgist með líkamlegum viðbrögðum í kviðnum og því hvort upp komi hlý og afslöppuð tilfinning þar eða hvort þið finnið fyrir spennu þegar gamlar tilfinningar koma upp.
INNILOKAÐAR TILFINNINGAR VALDA SKAÐA
Með því að losa um tilfinningar sem setið hafa í kviðnum, er hægt að koma í veg fyrir að sjúkdómar myndist þar og samtímis bæta meltinguna. Hægðartregða og ýmiss önnur meltingarvandmál eru oft merki um innilokaðar tilfinningar eða áföll sem við höfum falið þar og ekki unnið úr. Samhliða því að koma lagi á meltinguna þarf því oft vinna úr gömlum og uppsöfnuðum tilfinningunum.
Það á ekki að vera erfitt að losa um tilfinningar og áföll úr kviðnum, en það þarf að taka skrefið til að gera það, því þær fara ekki nema við vinnum að því að losna við þær.
Oft tengjast þær tilfinningar sem við söfnum upp í kviðnum skömm, sektarkennd, ótta eða því að við höfum ekki þorað að verja okkur með orðum, heldur kyngt þeim og látið vaða yfir okkur.
Þegar ég hef verið að vinna í tilfinningalosun í gegnum tíðina hef ég ímyndað mér að við hliðina á mér sé loftbelgur með körfu og þegar ég finn einhverja gamla tilfinningu sem ég vill losna við, tek ég í hana í huganum úr kviðnum og set í körfuna.
Þegar mér finnst ég vera búin að finna allar tilfinningar sem þarf að losa um í það og það skiptið (yfirleitt þarf að endurtaka þessa æfingu nokkrum sinnum), leyfi ég loftbelgnum að svífa í burtu með allar þær tilfinningar sem ég er að losa mig við og sé hann í huganum verða að litlum punkti við sjóndeildarhringinn, sem svo hverfur og þar með allar gamlar tilfinningar með.
AUKINN INNRI STYRKUR
Í framhaldi af svona æfingu er gott að skrifa niður hvað kom upp í huga ykkar á meðan á henni stóð. Það hjálpar oft til að sjá stærri mynd af þeim tilfinningum, sem þarna hafa setið og losa enn betur um þær.
Með því að vinna í leiðum til að losa um tilfinningar okkar erum við hvorki að dæma okkur sjálf né afneita þessum tilfinningum. Heldur eingöngu að gera okkur grein fyrir að þær hafa safnast þarna upp og við ætlum ekki að veita þeim pláss lengur.
Með því að losa um þær erum við að veita okkur sjálfum meira frelsi. Um leið eflum við okkar eigin innri styrk til að tjá tilfinningar okkar á skýran og kærleiksríkan máta.
Mynd: CanStockPhoto/evgenyatamaneko
Ef þér finnst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum
Skráðu þig á PÓSTLISTANN ef þú vilt fá upplýsingar um námskeið og annað áhugavert efni
Um höfund
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar15/09/2024FULLT OFURTUNGL OG TUNGLMYRKVI
- Greinar02/09/2024NÝTT TUNGL Í MEYJU 03.09.24
- Greinar23/08/2024LÍKAMINN GEYMIR ALLT
- Greinar19/08/2024FULLT TUNGL Í VATNSBERA 19.08.24