ÁHRIF TILFINNINGA Á LÍKAMANN

ÁHRIF TILFINNINGA Á LÍKAMANN

Þau andlegu og tilfinningalegu áföll sem við verðum fyrir á lífsleiðinni, leiða oft til líkamlegra veikinda. Eitt af því sem hefur hjálpað mér mikið við leit að rót míns heilsufarsvanda, var að fara yfir ævi mína og skoða hvaða áföllum ég hef orðið fyrir á lífsleiðinni. Með því að kanna áfallasögu mína fór ég smátt og smátt að sjá, hvaða afleiðingar á andlegt og líkamlegt heilsufar mitt, áföllin höfðu haft.

Hjá mér var þetta mikilvægur hlekkur í bataferlinu, sem hefur stundum verið ansi bratt. Hver áfangi hefur samt verið mikilvægur sigur og allt sem ég hef lært hefur kennt mér að virða og meta líkama minn eins og hann er. Reyndar undrast ég á hverjum degi hversu frábært tækniundur líkaminn er og hversu flóknir allir starfsferlar hans eru.

STREITA OG TILFINNINGAR

Öll áföll valda streitu í líkamanum, sem hefur svo áhrif á tilfinningar okkar. Í kínverskri læknisfræði er fjallað um þær tilfinningar sem tengjast hverju af meginlíffærum líkamans og hvaða heilsufarsvandamálum þær geta valdið. Hvert líffæri er tengt við einn af þeim fimm frumþáttum eða elementum sem unnið er með í kínverskri læknisfræði, en grunnurinn að áhrifum tilfinninga á líkamann er alltaf STREITA.

Hringferlið í líkamanum hefst með streituviðbragði við einhverju áfalli. Svo bætast tilfinningarnar við, sem hafa áhrif á lifur og gallblöðru, síðan á hjarta og smáþarma, þaðan á milta, maga og briskirtil, svo á lungu og ristil og loks á nýru og þvagblöðru.

LIFUR OG GALLBLAÐRA – element VIÐUR

Neikvæðar tilfinningar: Reiði, afbrýðisemi, öfund

Þegar eftirtaldar tilfinningar leggjast á lifur og gallblöðru:
streita + reiði + afbrýðisemi + öfund + vonbrigði/svekkelsi

verða líkamlegu einkennin þessi:
– Lifrin framleiðir meira af kólesteróli.
– Ójafnvægi kemst á gallframleiðslu og það skerðir meltingargetuna.
– Blóð staðnar í lifrinni, sem dregur úr getu hennar til að afeitra líkamann.

HJARTA OG SMÁÞARMAR – element ELDUR

Neikvæðar tilfinningar: Hatur, grimmd/miskunnarleysi, óþolinmæði

Þegar eftirtaldar tilfinningar leggjast á hjarta og smáþarma:
streita + reiði + hatur + grimmd/miskunnarleysi + óþolinmæði

verða líkamlegu einkennin þessi:
– Hjartsláttarónot /-truflanir.
– Háþrýstingur – hár blóðþrýstingur.
– Brjóstverkur.

MILTA, MAGI OG BRISKIRTILL – element JÖRÐ

Neikvæðar tilfinningar: Áhyggjur, kvíði og vantraustÞegar eftirtaldar tilfinningar leggjast á milta, maga og briskirtil:
streita + reiði + hatur + áhyggjur + kvíði + vantraust

verða líkamlegu einkennin þessi:
– Skert meltingargeta.
– Erfiðleikar með að losna við úrgang sem verður til við meltingu (hægðatregða).

LUNGU OG RISTILL – element MÁLMUR

Neikvæðar tilfinningar: Sorg og þunglyndi

Þegar eftirtaldar tilfinningar leggjast á lungu og ristil:
streita + reiði + kvíði + þunglyndi + sorg

verða líkamlegu einkennin þessi:
– Öndunarvandamál.
– Minnkandi súrefni í blóði.
– Hægðatregða.

NÝRU OG ÞVAGBLAÐRA – element VATN

Neikvæð tilfinning: Ótti

Þegar eftirtaldar tilfinningar leggjast á nýru og þvagblöðru:
streita + reiði + kvíði + þunglyndi + sorg/depurð + ótti

verða líkamlegu einkennin þessi:
– Skortur á grunnorku og kynorku.
– Líkaminn verður súr.
– Taugakerfið verður stressað.
– Skortur á lífsorku.

AFLEIÐINGAR ÁFALLS

Ég hef verið með meltingarvandamál frá því ég var misnotuð tæplega sjö ára gömul. Í framhaldi af þeirri lífsreynslu fylltist ég kvíða, hafði áhyggjur af öllu og átti erfitt með að treysta fólki utan heimilisins. Ég fann líka fyrir þunglyndi á ákveðnu tímabili í lífi mínu. Ég gerði mér þó ekki grein fyrir áhrifum frá þessum áföllum og þeim tilfinningum sem þeim tengdust, fyrr en mörgum áratugum síðar. Ég bara lokaði á þær, en þær kraumuðu þarna í undirvitundinni og settust að í líkamanum.

Samhliða breyttu mataræði og lífsstíl, hef ég undanfarin þrjátíu ár jafnt og þétt verið að vinna úr áfallunum, losa um reiði, læra að byggja á ný upp þau mörk sem voru rofin hjá mér sem barni og fyrirgefa.

Í bataferlinu er nauðsynlegt að  fyrirgefa, til að losa sjálfan sig undan neikvæðum tilfinningum. Jafnframt er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er eitt að fyrirgefa og annað að samþykkja það sem gert er.

Með því að fyrirgefa losum við um reiði, beiskju og streitu úr eigin kerfi – og hættum að láta minningarnar stjórna lífi okkar.

HÆKKANDI TÍÐNI ORKUNNAR

Þann 21. desember síðastliðinn, þegar pláneturnar Júpiter og Satúrnus fóru í samstöðu inni í Vatnsberamerkinu og fram fór athöfn við ULURU í Ástralíu, þar sem leyst var úr læðingi orku undir „Töfrakassanum“ sem streymdi síðan um alla Jörð í gegnum orkubrautir hennar. Um svipað leyti fórum við í gegnum aukið orkuflæði frá Sólinni í gegnum Gamma geisla og Neutrino agnir.

Tíðnin í líkömum okkar er því að hækka. Til að geta betur tekið á móti allri þessari tíðni er mikilvægt að hreinsa líkamann og vinna úr öllum gömlum áföllum, tilfinningum og viðhorfum sem við höfum tamið okkur í gegnum tíðina.

HALDIÐ RÓ YKKAR

Það eru miklar sveiflur í orkunni á næstunni og mikið af upplýsingum sem eru að koma upp á yfirborðið. Þær kunna að valda ykkur tilfinningalegum áföllum, svo það er mikilvægt að draga sig þá til baka frá fréttamiðlum og leita inn á við. Ein besta leiðin til að koma samræmi á í líkamanum á ný er að æfa HJARTAÖNDUN, sem felst í því að anda inn í hjartað, líkt og það væri lunga og út frá því. Líka er mikilvægt að hvíla sig eins mikið og hægt er á þessum tíma.

Pam Gregory stjörnuspekingur hefur aftur og aftur fjallað um þessa öndunaraðferð í stjörnuspekiskýringum sínum og hún virkar mjög vel til að róa og kyrra tilfinningar líkamans.

Efnið í þessari grein er að mestu byggt á broti úr kafla í bók minni BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri. Hún er á tilboði út janúar árið 2021, svo SMELLTU HÉR ef þú vilt tryggja þér eintak.

Mynd: CanStockPhoto/dolgachov

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram