SKÍNANDI STJARNA

SKÍNANDI STJARNA

Fyrir rúmri viku síðan stofnaði ég námskeiðshóp á Facebook sem heitir STJÖRNUSKIN. Upphaflega hugmynd mín var sú að í honum myndi ég vera með stjörnuspekiskýringar hennar Pam Gregory og að Ingibjörg R. Þengilsdóttir myndi vera þar með miðlun.

Nú er ljóst að mér er ætlað mun stærra verkefni með þessum hópi. Það felst í því að hjálpa fólki með fræðslu í gegnum þær umbreytingar sem fylgja í kjölfar orkubreytinganna sem urðu 21. desember síðastliðinn, þegar Júpiter og Satúrnus voru í samstöðu á 0° og 26 mínútum í Vatnsbera. Sama dag var opnað fyrir orkuna í „Töfrakassanum“ í ULURU í Ástralíu, en sú orka streymir nú um allar orkulínur Jarðar.

Þær upplýsingar sem aðilar að þessu heilsárs námskeiði fá, koma því ekki bara til með að snúa að stjörnuspeki, heldur í raun öllu því sem stuðlar að því að við getum betur staðsett okkur í fimmtu víddinni og tekið á móti þeim umbreytingum sem fylgja NÝRRI JÖRÐ.

Ég hugsaði nafnið STJÖRNUSKIN fyrst og fremst út frá tengingu við þá stóru stjörnu sem myndaðist á himnum þegar Júpiter og Satúrnus fóru í algera samstöðu 25. desember síðastliðinn. Hins vegar rifjaðist það upp fyrir mér nokkru eftir að ég hafði gefið hópnum nafn, að andlega Lakota nafnið mitt er SKÍNANDI STJARNA. Mig langar að segja aðeins frá því hvernig ég öðlaðist það nafn.

WOLF SONG I

Þegar ég opnað verslun mína BETRA LÍF síðla árs árið 1989 fór ég að flytja inn mikið af bókum sem fjölluðu um andlegar hefðir indíána í Norður-Ameríku. Ég heillaðist mjög af þeim og varð mikill indíáni í mér, bæði í hugsun og klæðaburði. Í bókinni Medicine Cards eftir David Carson og Jamie Samms var minnst á konu sem hét Twylah Nitsch. Skömmu síðar sá ég sama nafn á auglýsingu fyrir námskeið sem bandarísk kona að nafni Lynn (man ekki eftirnafnið) stóð fyrir.

Ég hafði samband við Lynn og í gegnum hana skráði ég mig á námskeið hjá Twylah Nitsch sem var af Seneca ættbálki. Hún tók mér opnum örmum og af henni lærði ég margt, meðal annars um steina og orku þeirra.

Í byrjun júní árið 1991 var mér svo, ásamt nokkrum öðrum konum sem höfðu verið í læri hjá Ömmu Twy eins og hún var alltaf kölluð, boðið að koma og taka þátt í ráðstefnu sem hún hafði boðað til. Amma Twy átti nokkuð góða landspildu á Seneca verndarsvæðinu í norðurhluta New York ríkis í Bandaríkjunum þar sem ráðstefnan var haldin. Hún hafði boðað saman leiðtoga allra ættflokka indíána í Norður-og Mið-Ameríku á ráðstefnu sem hún kallaði Wolf Song I.

Nú þegar mikið er fjallað um fimmtu víddina eftir orkuumbreytinguna miklu í desember síðastliðnum, er gaman að rifja það upp að amma Twy lét okkur konurnar sem hún hafði verið með í námi hjá sér, læra fimm takta dans, til að dansa fyrir þá sem þarna voru á ráðstefnunni, því hún sagði að Jörðin væri að fara inn í fimmtu víddina.

Stundum eru þeir sem næmir eru ekki alveg með tímann á hreinu, en Jörðin er svo sannarlega að fara inn í fimmtu víddina núna, þótt Amma Twy hafi verið 30 árum of fljót á sér með dansinn.

ÚTISETA Á BEAR BUTTE

Á þessari ráðstefnu kynntist ég nokkrum leiðtogum Lakota indíána og það varð úr að ég ákvað að fara nokkrum vikum síðar til útisetu á Bear Butte í Suður-Dakóta. Sá sem leiddi útisetuathöfnina hét Joseph Chasing His Horse.

Bear Butte er heilagt fjall bæði hjá Lakota og Cheyenne indíánum og er rétt norðan við Rapid City. Það var sólskin og um það bil fjörutíu stiga hiti þegar ég gekk upp á fjallið og valdi mér minn útisetustað. Ég hafði ákveðið að sitja úti í 24 tíma og þegar ég hafði fundið mér stað, afsalaði ég mér skóm og fötum og lét duga eitt teppi til að sitja á og tvö til að vefja utan um mig. Ég var hvorki með vatn né mat með mér.

Um nóttina breyttist hitastigið heldur betur og það snjóaði á mig. Þá héldu bænir og hugaraflið á mér hita og ég hafði nóttina af. Um morguninn rigndi á mig og moskítóflugurnar mætti til að næra sig í andlitinu á mér þegar stytti upp. Þegar sólin fór svo að skína á ný voru það eldmaurar sem gæddu sér á fótunum á mér, svo það var ýmislegt að takast á við á þessum rúma eina og hálfa fermetra sem ég hafði stikað mér.

Að tuttugu og fjórum tímum liðnum mættu Joseph og aðstoðarmenn hans til að sækja mig og fara með mig aftur í svitahofið. Þá loks fékk ég vatn og vatnsmelónur til næra mig á. Þessi útiseta er ein af mínum stærri andlegu upplifunum.

SKÍNANDI STJARNA

Viku síðar kom ég aftur að Bear Butte. Ég hafði fengið arnarfjöður til að vera með hjá mér meðan ég sat úti og í leiðbeiningum um útisetuna fylgdi að ef ég kæmi aftur að viku liðinni og enginn hefði tekið hana, mætti ég taka hana og gefa hana einhverjum sem þyrfti á heilun að halda. Ég hafði því hugsað mér að sækja hana og gefa hana konu sem ég þekkti sem var með krabbamein.

Þegar ég kom að Bear Butte sagðist ég vera þar í andlegum (spiritual) erindagjörðum og ætti því ekki að borga gjald til að fá að ganga á fjallið. Við miðasöluna stóð hávaxinn indíáni sem fylgdist náið með samtali mínu við stúlkuna sem þar var á vakt. Hann fylgdi fljótlega á eftir mér og manninum mínum heitnum, sem þá hafði komið til að ferðast með mér um svæðið, upp á fjallið og meðan ég sótti fjöðrina tóku hann og Gulli tal saman.

Þegar ég kom inn í samtalið deildi ég smá af reynslu minni með þessum manni sem sagðist heita Robert Grey Eagle. Hann spurði hvort ég hefði fengið andlegt (spirit) nafn, en ég sagði svo ekki vera. Hann sagðist þá skyldu gefa mér það og þegar við vorum komin langleiðina niður fjalli á ný, benti hann okkur Gulla á að ganga inn í rjóður, en framan við það stóð skilti með áletruninni: Keep Out Indians Praying.

Robert talaði við Wakan Tanka hinn mikla anda smá stund á sínu Lakota máli og sneri sér svo að mér og gaf mér nafnið Anpo Wi‘chapi Win, sem hann sagði að þýddi SKÍNANDI STJARNA. Ég gat ekki annað en tárast vegna tengingar nafnsins við upplifun mína í útisetunni af skærri stjörnu sem talað hafði til mín, en þeirri upplifun hafði ég ekki deilt með Robert.

Gulli heitinn fékk nafnið Tatanka Luta, sem Robert sagði að þýddi RAUÐI BUFFALÓI. Robert sagði að í nafninu fælist að Gulli sæi alltaf vel um sína, sem hann svo sannarlega gerði allt sitt líf.

Því miður á ég ekki persónulegar myndir til að birta með greininni, því allar mínar myndir frá þessum ferðum eru óaðgengilegar sem stendur.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Skráðu þig á PÓSTLISTANN minn til að fá fréttir og greinar beint í pósthólfið þitt.

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 518 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?