SKAÐLEGASTA SÆTUEFNIÐ

SKAÐLEGASTA SÆTUEFNIÐ

Eins og ég hef áður fjallað um er sykur víða falinn í fæðunni okkar. Oft eru innihaldslýsingar skráðar með svo miklu dvergaletri að við eigum erfitt með að lesa þær eða það er bara alls engin innihaldslýsing á umbúðunum.

En þótt sykur sé skaðlegur, er skaðlegasta sætuefnið á markaðnum samt frúktósaríkt maíssíróp eða high fructose corn syrup.

SÆTARA EN GLÚKÓSI OG SÚKRÓSI

Frúktósi er náttúrulegur sykur í ávöxtum. Þegar hans er neytt í heilum ávöxtum er hann hlaðinn góðum vítamínum, steinefnum, næringarefnum, jurtaefnum, andoxunarefnum og trefjum. Einn eða tveir ávextir á dag geta því verið hluti af heilsusamlegu mataræði.

Frúktósaríkt maíssíróp (high fructose corn syrup, skammstafað HFCS) er hins vegar efnaverksmiðjuútgáfan af frúktósi. Það er unnið úr þeirri offramleiðslu sem er á erfðabreyttum maís. Erfðabreyttur maís er yfirleitt auk erfðabreytingar, ræktaður með eiturefnum á borð við Roundup, en í því er glýfósat, sem er mjög skaðlegt fyrir líkama okkar, einkum meltingarveginn. Þessi efni fylgja framleiðsluvörunni til neytenda.

Að auki er frúktósaríkt maíssíróp mun sætara en glúkósi eða súkrósi og þótt það sé sætt á bragðið hefur það ekkert næringargildi.

UPPTAKA Á FRÚKTÓSARÍKU MAÍSSÍRÓPI LÉLEG 

Við höfum ekki líffræðilega þörf fyrir verksmiðjuframleiddan frúktósa eins og maíssíróp. Það kemur inn sem einhvers konar millistig í glúkósaefnaskiptum líkamans og upptaka á því er léleg í gegnum smáþarmana. Frúktósaríkt maíssíróp hreinsast nánast alveg úr lifur og stuðlar að framleiðslu á þríglyseríðum, sem aftur leiða til insúlínviðnáms, offitu- og bólguvandamála.

Glúkósi þarf hins vegar á insúlíni að halda til að komast inn í frumurnar til að geymast þar sem orka, svo frumurnar geti starfað eðillega.

MJÖG ÁVANABINDANDI

Ég hef áður fjallað um það hversu ávanabindandi sykur er, en frúktósaríkt maíssíróp er enn meira ávanabindandi (HFCS) því það veldur miklum breytingum á boðskiptum í heila og kveikir á vellíðunarstöðvum hans.

Eftir neyslu erum við samt ófullnægð og viljum meira, sem leiðir til mikillar löngunar (cravings), við erum sífellt að hugsa um mat (eða sætindi) og fáum fráhvarfseinkenni ef við fyllum ekki stöðugt á tankinn.

HFCS NOTAÐ Í STAÐ SYKURS

Undanfarin ár hefur frúktósaríkt maíssíróp (HFCS) verið í auknum mæli notað sem sætuefni í stað sykurs. Talið er að það sé allt að 40% af því sætuefni sem notað er í Bandaríkjunum. Aðalástæðan er sú að ÞAÐ ER ÓDÝRT OG MJÖG ÁVANABINDANDI.

Margir hafa bent á að það sé nú notað til að sæta fæðu, sem áður var ekki venja að sæta eða þá hún var sætt í litlu magni. Nú er hins vegar notað ómælt magn af frúktósaríku maíssírópi til að sæta hana.

Það sem er athyglisvert við þetta er að frúktósaríkt maíssíróp (HFCS) er líka notað í mikið af þeim orkustykkjum og í þá fæðu sem seld er sem heilsuvara. Ég ráðlegg til dæmis alltaf þeim sem eru á HREINT MATARÆÐI námskeiðunum hjá mér að lesa innihaldslýsingar vel og skýri fyrir þeim að HFCS er skammstöfun á frúktósaríku maíssíróp.

SKAÐLEGT FYRIR HEISLUNA

Því meira sem neytt er af frúktósaríku maíssírópi, því skaðlegra er það fyrir heilsuna. Það sest meðal annars að í liðamótunum og getur valdið bólgu víða í líkamanum. Það er því, ekki síður en sykur, ástæða fyrir liðagigt og öðrum liðvandamálum.

Vísindamenn telja að HFCS trufli efnaskipti líkamans og geti leitt til krabbameina, hærra kólesteróls og háþrýstings. Þeir telja einnig að það sé ein aðalástæða offituvandamála og sykursýki í heiminum í dag, í bland við aukna sykurneyslu.

Frúktósaríkt maíssíróp er MJÖG ávanabindandi og því ráðlegt að forðast það þegar tekin er ákvörðun um að hætta að neyta sykurs, til að losna við verki úr líkamanum á náttúrulegan máta.

Mynd: CanStockPhoto.com / rugbyho – bruhum

Heimildir: www.thatsugarmovement.com

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 503 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?