LAX MEÐ LAUKSMJÖRI

Matarbloggari vefsíðunnar er Björg Helen Andrésdóttir.
Hún kemur reglulega með nýjar uppskriftir að
spennandi og fljótlegum réttum, sem gaman er
að njóta. Þessi laxréttur smakkast sérlega vel!


LAX MEÐ LAUKSMJÖRI, BRÚNUM GRJÓNUM OG GRASKERI

Mér finnst alltaf svo gott að borða glænýjan fisk hvort sem ég elda hann sjálf eða panta mér hann á veitingastað. Mér finnst líka best að borða hann með meðlæti sem stelur ekki bragðinu frá fiskinum sjálfum.

Mér finnst dásamlegt að matreiða kartöflur á ýmsan máta með fiski en graskerið á alltaf svolítið stóran sess í mínu hjarta. Það er frekar sætt og passar voðalega vel með silungi, laxi, þorskhnökkum og fleiri fisktegundum. Nammi namm.

Mér finnst best að setja það inn í ofn og láta hann vinna verkið fyrir mig í staðinn fyrir að afhýða það og skera í litla bita. Þegar það er tilbúið skef ég úr því „kjötið“ og skil skinnið eftir. Svo mæli ég með lauksmjörinu, því það er eiginlega punkturinn yfir i-ið.

Með dásamlegri matarkveðju

Björg Helen

 

 

INNIHALDSEFNI Í RÉTTINN:

Lax

1 grasker (butternut)

1 ½ bolli brún hrísgrjón

1 ½-2 msk. karrý kryddblanda fyrir grjón og kínóa – Kryddhúsið

4 scarlot laukar

1 msk. tamari soyasósa eða meira – Clearspring

100 gr smjör

¾ dl. olía

sítrónuolía Himnesk hollusta eða önnur góð olía

sítrónupipar Kryddhúsið

svartur pipar Kryddhúsið

sjávarsalt eða himalayasalt

 

AÐFERÐ:

1 – Byrjið á að skera graskerið langsum og fjarlægið fræin. Penslið það með góðri olíu og setjið inn í 190 gr heitan ofn. Ég hef það frekar lengur en skemur í ofninum eða á milli 40-60 mínútur, en það fer eftir stærð graskersins. Gott er að stinga í það með gaffli (eins og við gerum við kartöflur þegar við sjóðum þær) til að athuga hvort það sé tilbúið.

2 – Bræðið smjör og olíu saman og setjið síðan tamari soyasósuna út í, smakkið til. Skerið mjög smátt 4 scarlot lauka og setjið út í. Leyfið öllu að sjóða saman í nokkrar mínútur og takið síðan af hellunni. Best að láta þetta standa í um 30-60 mínútur áður en þetta er borið fram því þá hafa öll hráefnin blandast vel saman. Hitið aðeins upp fyrir notkun. Þið margfaldið síðan bara uppskriftina eftir því hvað þið eruð að elda fyrir marga.

3 – Setjið smá olíu í pott ásamt brúnum hrísgrjónum og 2 msk af karrý kryddblöndunni áður en þið setjið vatnið út í. Hitið þetta allt saman  og hrærið í á meðan þannig að kryddblandan og grjónin nái að opna aðeins fyrir bragðið. https://www.kryddhus.is/17-minutna-hrisgrjon/ Set þennan link sem sýnir hvernig þau í Kryddhúsinu gera þetta svo vel. Setjið síðan vatnið og saltið svolítið vel. Sjóðið skv. leiðbeiningum á umbúðunum.

4 – Laxinn er settur í eldfast mót og kryddaður með sítrónupipar, salti og smávegis af sítrónuolíu eða annarri góðri olíu. Laxinn þarf ekki langan tíma í ofninum, 10-15 mínútur. Einnig má steikja hann á pönnu eða grilla hann á útigrilli sem er dásamlegt.

5 – Lauksmjörið er síðan sett yfir laxinn þegar hann er borinn fram. Einnig er gott að kreista lime yfir.

Neytendaupplýsingar: Kryddin frá Kryddhúsinu fást í öllum helstu stórmörkuðum eins og Krónunni, Nettó (er að koma inn þar ef það er ekki þegar komið), Hagkaup, Samkaup og Kjörbúðinni. Einnig er hægt að panta þau í gegnum netverslun: https://www.kryddhus.is/

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 518 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?