Risarækjur í mildri indverskri sósu

Matarbloggari síðunnar hún Björg Helen
er með uppskrift að frábærum rétti
með risarækjum, sem er óskaréttur
hjá móður hennar. Flottur réttur
til að prófa um helgina.


Kæri lesandi,

Móður minni langaði til að ég myndi elda risarækjur um páskana og auðvitað varð ég við þeirri bón. Ég ákvað að gera góðan karrýrétt með rjómasósu og notaði eitt af mínum uppáhalds kryddum frá Kryddhúsinu sem er Indversk karrýblanda.

Það er fátt betra en djúsí réttur með fullt af sósu, sem gott er að borða með hrísgrjónum eða dýfa heitu nanbrauði í. Ekki er verra ef maður smyr nanbrauðið með hvítlaukssmjöri eða penslar með hvítlauksolíu.

Með dásamlegri matarkveðju,
Björg Helen

 

 

RISARÆKJUR Í MILDRI INDVERSKRI SÓSU

Til að útbúa þennan rétt þarftu að nota:

1 poki risarækjur 26-30 stk.
3 vorlaukar
2 kringlóttir hvítlaukar stórir
góð lúka af klettasalati eða 1 búnt kóríander
½-1 rauð paprika
1 rauður chilli eða chilliflögur eftir smekk, má sleppa
2 msk Indversk karrýblanda Kryddhúsið
2-3 msk tómatpuré
1-2 msk dökkt Agave-síróp
rifinn börkur af einni sítrónu
½ lítri rjómi
olía
75 gr smjör
salt
svartur pipar Kryddhúsið

AÐFERÐ:

1 – Setjið vel af olíu og smjöri á pönnu. Saxið eða rífið hvítlaukinn og setjið út í. S

2 – Saxið klettasalatið smátt (eða kóríanderið), paprikuna, vorlaukinn og chilliið og setjið út á heita pönnuna og létt steikið í smá stund. Saltið og piprið.

3 – Setjið rækjurnar út í og steikið þangað til grái liturinn er orðinn bleikur eða eins og rækjur eiga að vera á litinn. Alls ekki steikja þær of mikið. Takið þær síðan af pönnunni.

4 – Setjið síðan á pönnuna (ekki hafa hana of heita) Indversku karrýblönduna, tómatpure og Agave sírópið og hrærið aðeins í.

5 – Bætið síðan smávegis af rjómanum út í þannig að þetta blandist allt vel saman. Bætið síðan restinni af honum út á pönnuna og setjið sítrónubörkinn út í og leyfið þessu að sjóða í smá tíma. Saltið og piprið vel.

6 – Bætið síðan rækjunum út í og hitið í um 5 mínútur áður en rétturinn er borinn fram. Ef ykkur finnst vanta meira af ofangreindum kryddum, bætið þeim þá endilega við.

Gott er að skreyta aðeins réttinn með vorlauk og klettasalati áður en hann er borinn fram.

Gott að bera þennan rétt fram með hrísgrjónum eða Nanbrauði.

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram