15 MIKILVÆGAR LEXÍUR LÍFSINS

15 MIKILVÆGAR LEXÍUR LÍFSINS

Í nýlegum pósti sem ég fékk frá Robin Sharma[i] voru nokkir punktar sem urðu hvatning að þessari grein minni. Við höfum öll farið í gegnum margar lexíur í lífinu. Af sumum lærum við strax, aðrar þurfum við að endurtaka aftur og aftur, áður en við lærum af þeim. 

Ég segi gjarnan að í skóla lærum við lexíurnar áður en við tökum prófin en í lífinu tökum við prófin áður en við lærum lexíurnar. En hvaða lexíur eru mikilvægastar? Hvaða lexíur lærum við strax og hverjar þurfum við að endurtaka aftur og aftur, áður en við lærum af þeim? Það er áhugavert að gera sér grein fyrir því.

LEXÍURNAR FIMMTÁN

Þessar hugmyndir eru gjöf til ykkar og þið getið valið hvernig þið nýtið ykkur þær. Væntanlega eru ekki allar þær lexíur sem við förum í gegnum hér á þessum lista því hann er ekki tæmandi, en Robin Sharma metur þessar sem mikilvægastar.

LEXÍA 1 – Þeir sem temja sér að vanda vel til verka og gera hlutina á frábæran hátt uppskera í samræmi við það. Undir þennan lið gætu fallið skipulag í starfi, stundvísi, snyrtimennska, hjálpsemi, góðmennska og í raun svo margt, margt annað.

LEXÍA 2 – Líkamsrækt í upphafi dags breytir öllu. Þegar þú velur að byrja daginn á því að stunda einhverja líkamsrækt, hver sem hún er, ertu að veita líkamanum besta undirbúning fyrir daginn sem hægt er að fá.

LEXÍA 3 – Það sem er erfiðast að gera er yfirleitt það sem er viturlegast að gera. Við hvorki lærum né þroskumst af því að gera auðveldu og léttu hlutina. Við lærum þegar við reynum á okkur og gerum það sem okkur virðist erfitt við fyrstu sýn, því það reynir á okkur og við áreynsluna þroskumst við.

LEXÍA 4 – Orð eru álög, bæði í eigin huga og annarra. Orð geta hvatt fólk áfram til frekari þroska. Orð geta líka sært ótrúlega mikið. Því er gott að vera orðvar, ekki bara þegar þú talar við aðra, heldur líka í því sem þú „segir“ við sjálfa/-n þig. Öll orð hafa nefnilega tilhneigingu til að lifa lengi í minningunni.

LEXÍA 5 – Sköpunarorkan blómstrar oftast þegar við erum ein. Því er gott að njóta reglulega einveru, hafa kyrrð í kringum sig og gefa sér tíma til að leyfa hugmyndunum að flæða.

LEXÍA 6 – Öll þekking er okkur mikilvæg. Leggðu þig því fram um að lesa, hlusta eða horfa á og læra eitthvað í 30-60 mínútur á dag. 

LEXÍA 7 – Óttinn sem við horfumst ekki í augu við myndar múra í kringum okkur. Hann hindrar okkur í frekari þroska. Við þurfum því að horfast í augu við hann, eyða efanum sem hefur sáð sér í huga okkar og gera það sem við hræðumst mest til að rjúfa múrinn og halda áfram að þroskast.

LEXÍA 8 – Særindi og missir sem við verðum fyrir á lífsleiðinni geta stuðlað að frekari þroska hjá okkur. Því er mikilvægt að vinna úr áföllum okkar, því þegar við gerum það tökum við eitt skref fram á við í þroska.

LEXÍA 9 – Þegar til lengri tíma er litið er ódýra leiðin oft dýrari. Því er gott að velja af kostgæfni í upphafi, hvor leiðin verður fyrir valinu.

LEXÍA 10 – Góðir leiðtogar hjálpa öðrum. Hvort sem er í starfi eða leik, veita þeir þeim sem á þurfa að halda aðstoð sína. Þannig ná báðir árangri.

LEXÍA 11 – Það krefst þrotlausra æfinga, mikillar þolinmæði og fórna að verða meistari í einhverju. Margir kalla slíkt ferli þráhyggju, en staðfesta í því að vinna að eigin markmiðum, skilar yfirleitt miklum og góðum árangri, hvort sem er í starfi eða leik.

LEXÍA 12 – Frábært fjölskyldulíf leggur grunn að góðum árangri annars staðar í lífinu. Hvort sem sá árangur kemur fram í starfi eða leik, þá skilar ánægja og hamingja heima fyrir sér út í annað í lífinu.

LEXÍA 13 – Stattu við orð þín og forðastu lygar. Leggðu þig fram um að skila af þér verki vel unnu. Fólk fylgist með því sem þú gerir – jafnvel þótt þú haldir að svo sé ekki.

LEXÍA 14 – Þú getur ekki verið innblástur fyrir aðra, ef þú finnur ekki fyrir eigin innblæstri. Leggðu þig fram um að viðhalda áhuga og eldmóði gangvart lífinu. Kynntu þér listalífið. Sæktu námskeið og ráðstefnur til að viðhalda þekkingu þinni. Ferðastu og kannaðu heiminn.

LEXÍA 15 – Lífið getur breyst á einu augnabliki. Njóttu þeirrar blessunar sem þessu augnabliki fylgir. Jafnvel þótt þú sért að fara í gegnum ýmsa erfiðleika, er margt sem þú getur verið þakklát/-ur fyrir.

ER HÆGT AÐ BÆTA SIG?

Það eru nokkur margar lexíur á þessum lista og gott að renna yfir hann, til að skoða hvort og þá hvar sé hægt að bæta sig í þeim lærdómi sem lífinu fylgir. Við fáum nefnilega lexíur, svo lengi sem við lifum.

Eins og svo oft áður kemur mér í hug sagan FERÐIN SEM ALDREI VAR FARIN og sú mikilvæga lexía sem fólst í henni. Ég las hana fyrst þegar ég var unglingur og hef lesið hana oft síðan. Ef þú hefur ekki hlustað á söguna er HÉR slóð inn á hana.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá sendar greinar um sjálfsrækt, andleg mál og náttúrulegar leiðir til að varðveita heilsuna.

Myndir: CanStockPhoto / dolgachov / tomwang

Heimildir:

[i] www.robinsharma.com

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 501 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?