NÝTT TUNGL OG FLÚÐASIGLINGAR

NÝTT TUNGL OG FLÚÐASIGLINGAR

Það er engin lognmolla í kringum afstöður plánetanna á himinhvolfinu nú í síðari hluta júlímánaðar, þegar bæði Sól og Tungl eru komin inn í Ljónsmerkið. En það er meira en bara þessar tvær plánetur og afstöður við þær sem eru að vekja okkur til frekari vitundar og koma með ýmsan sannleika upp á yfirborðið.

NÝTT TUNGL

Þann 28. júlí kveiknar Nýtt Tungl á 5° og 38 mínútum í Ljóni kl. 17:54 hér á landi. Það er smá mótþrói við alla umbreytingarorkuna sem er í gangi, því margar plánetur eru í stöðugum (föstum) merkjum, þar á meðal Satúrnus (Vatnsberinn), Mars og Úranus (Naut) og svo Sól, Tungl og Merkúr sem eru í Ljóni, sem er stöðugt merki.

Norðurnóðan sem er táknræn fyrir sameiginlega framtíð okkar er svo í Nauti (stöðugt merki) og Suðurnóðan, sem almennt er ekki sýnd í kortum er á 18° í Sporðdreka (stöðugt merki), svo með þessu öllu er stöðugur Stórkross í kortinu, séu öll þessi element teiknuð inn á það.

Allri þessari orku fylgir þó þrautseigja og mikill viljastyrkur, tengdur sannfæringu okkar og sýn okkar á heiminn. Þeir sem standa fast á sinni sannfæringu gætu því lent á andverðum meiði við aðra, en fyrr eða síðar finnst þó væntanlega eitthvað samræmi milli skoðana.

SATÚRNUS, MERKÚR OG ÞRENNAN

Satúrnus er á 23° í Vatnsbera í 180° andstöðu við Merkúr sem er á 18° í Ljóni – og svo eru báðar pláneturnar í 90° spennuafstöðu við þrennu samstöðuna á milli Mars, Úranusar og Norðurnóðunnar í Nauti sem verður  nákvæm 31. júlí og 1. ágúst.

Líklegt er að mikið af ögrandi upplýsingum komi upp á yfirborðið í kringum þetta Nýja Tungl og samstöðuna milli Mars, Úranusar og Norðurnóðunnar – og jafnframt að reynt verði að setja á enn frekari ritskoðun eða herða reglur um hvað má fréttast og hvað ekki – eða að reynt verði að bæla niður þann sannleika sem er að koma upp á yfirborðið.

Mars, Norðurnóðan, Úranus

ÚRANUS Í NAUTI OG MERKÚR Í LJÓNI

Þar sem Merkúr í Ljóni er í 90° spennuafstöðu við samstöðuna á milli Mars, Úranusar og Norðurnóðunnar er líklegt er að fólk muni upplifa þann sannleika sem fram kemur á mismunandi máta.

Uppljómunin eða skilningurinn kann að koma í gegnum innsæisvitundina, í gegnum frábærar frumlegar hugmyndir eða á annan máta – en allt eru þetta leiðir sem við megum vænta að verði virkar í tengslum við þessa þreföldu samstöðu.

Það tekur Úranus 84 ár að fara hring um sporbaug sinn, svo hann hefur hvorki verið í Nauti né á þessari gráðu frá því árin 1939-1940. Hann hreyfist hægt, svo hann verður nákvæmlega á þessari 18. gráðu í Nauti fram í október. Við megum því vænta þess að það ferli sem fer af stað við þessa samstöðu nú í lok júlí, verði líklegt til að leggja grunn að því sem á eftir að gerast í október.

OKTÓBER OG ÖRLÖG HEILDARINNAR

Október á eftir að verða byltingarkenndur mánuður stjörnuspekilega séð – en þessi samstaða Úranusar, Mars og Norðurnóðunnar virkar eins og kveikjurofi. Hún er rafmögnuð og kemur til með að „kveikja“ á ferli sem bara fer af stað.

Norðurnóðan er táknræn fyrir örlög heildarinnar, þá leið sem við eigum að fara inn í framtíðina – og Úranus á eftir að taka okkur í Quantum stökkum inn í þá framtíð. Stökkin verða hvorki mjúk né línuleg. Þau verða hröð og full af óvæntum atburðum á leiðinni, en þau munu lyfta skilningi okkar og meðvitund fram á við í Quantum áföngum.

FLÚÐASIGLING FRAMUNDAN

Í þriðju víddinni erum við að brjóta niður til að komast í gegn – og því getur ferlið framundan virkað mjög truflandi og óreiðukennt. Við megum því vænta þess að í þriðju víddinni séum við á leið inn í „flúðasiglingatímabil“ næstu mánuði – sem þessi þrefalda samstaða er líkleg til að ýta af stað.

Því er gott að undirbúa sig andlega undir þá óreiðu og leita meira inn á við. Þótt þriðja víddinn sé full af óreiðu – getum við valið okkur aðra tímalínu og horft á það sem fram fer í kringum okkur, án þess að sogast inn í það.

Úranus er pláneta frelsis, sannleika, skýrleika og aukinnar vitundarvakningar. Allar líkur eru á að þau sannindi sem koma upp á yfirborðið valdi áfalli hjá fólki. Þegar það gerist þurfum við að nota okkar eigin dómgreind til að meta í hverju tilviki, hvað hefur sannleiksgildi fyrir okkur.

Við megum þó vænta þess að slík sannindi flytji okkur á hærra vitundarstig – og hristi upp í okkur og losi um tök gamla kerfisins á okkur – og það mun hraða niðurbrotinu á því kerfi.

JARÐSKJÁLFTAR LÍKLEGIR

Gera má ráð fyrir að eitthvað verði um Jarðskjálfta á þessum tíma, meðal annars vegna þess að við erum nýbúin að vera með það Ofurtungl (13. júlí) sem var það Tungl sem næst  verður Jörðu á þessu ári.

Það gæti hafa hrint af stað hreyfingu hjá Jarðflekunum, en samstaðan á milli Mars og Úranusar ýtir enn frekar undir það ástand – og samstaða þessara tveggja pláneta er klassísk í tengslum við Jarðhræringar og eldgos.

ÚRANUS OG JÖRÐIN

Nokkuð hefur verið rætt um líkur á fæðuskorti (reyndar ekki mikið hér á landi) upp á síðkastið, en nýlegur samningur sem gerður var með aðild Sameinuðu Þjóðanna við Rússland og Tyrkland – og Úkraínu – opnar fyrir útflutning á bæði áburði og korni frá Rússlandi og Úkraínu í gegnum hafnir við Svartahaf, ef ég skil málin rétt.

Samkvæmt líkindum stjörnuspekinnar tengist fæðuskorturinn Úranusi í Nauti. Nautið er táknrænt fyrir fæðuna og Úranus hin byltingarkennda og óútreiknanlega pláneta, fyrir hvers konar óvænta atburði, meðal annars í tengslum við truflun á fæðuframleiðslu og fæðudreifingu.

Þrátt fyrir alla samninga er þó gott að hafa í huga að Úranus verður í Nautsmerkinu til 2026. Því gæti komið sér vel að eiga einhverjar birgðir af mat eða þurrvöru með góðu geymsluþoli – til að grípa til ef þörf krefur.

LJÓNIÐ OG HJARTAORKAN

Sólin er í Ljóni fram yfir miðjan ágúst, en það er stöðugt Eldmerki og því fylgir opin og hlý orka. Ljónið er félagslynt, bjartsýnt og orka þess beinist að því að tjá sitt einstaka sjálf.

Ljónið hjálpar okkur því að finna okkar einstaka kjarna og deila honum á skapandi máta með heiminum. Ljónið er yfirleitt með sinn sérstaka stíl og dálítið drama – og orkan frá Júpiter, sem er í 120° samhljóma afstöðu við bæði Sól og Tungl í Ljóni er líkleg til að þenja þann þátt út.

Ljónið tengist hjartaorkunni – og hjá Heart Math stofnunni í Bandaríkjunum hafa vísindamenn komist að svo mörgu lífeðlisfræðilegu í tengslum við hjartað, meðal annars að rafsegulsvið þess sé 5.000 sinnum stærra en hjá heilanum, sem er í raun undravert.

HJARTAÖNDUN

Einfalt er að auka þessa hjartaorku. Eina sem við þurfum að gera er að tengja okkur við hjartað, ímynda okkur að við séum að anda inn og út í gegnum það, loka augunum og leyfa andardrættinum að anda okkur. Við það hægist á andardrættinum og hann dýpkar. Svo er hægt að taka smá hlé á milli inn- og útöndunar og fara þannig dýpra og dýpra inn í andardráttinn.

Þetta má gera nokkrum sinnum á dag. Hægari andardráttur dregur úr kortisóli og streituhormónum í líkamanum, styrkir ónæmiskerfið og býr til samræmi í orkusviði okkar, sem hefur síðan jákvæð áhrif á þá sem í kringum okkur eru.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendan póst með greinum um sjálfsrækt, andlega mál, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja eigin heilsu.

Myndir: CanStockPhoto / Corepics / Pixelbliss / Catmando / bobrevee /aliyoko

Heimildir: Útdráttur úr skýringum Pam Gregory stjörnuspekings. Vefsíður Pam eru www.pamgregory.com og www.thenextstep.co.uk ef þú hefur áhuga á myndböndum eða bókum frá henni eða vilt skrá þig á póstlistann hennar.

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram