Á SLÓÐIR AUÐAR MEÐ SKOTGÖNGU

Á SLÓÐIR AUÐAR MEÐ SKOTGÖNGU

Ég er nýkomin heim úr níu daga ferð um söguslóðir Auðar djúpúðgu, bæði í Skotlandi og á Orkneyjum. Saga þessarar landnámskonu hefur alltaf heillað mig alveg frá því ég las fyrst um hana í Íslendingasögunum í barnaskóla, sennilega í kringum tíu ára aldur.

Dún Bretann virkið

Bækurnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur las ég þegar þær komu út, en svo þyrstir mann nánast í að fá að snerta staðina sem Auður var á og fara um sögusvið bókanna, þannig að ég skráði mig á einn af þessum endalausu biðlistum, sem alltaf eru í Auðarferðirnar – og komst með.

IONA EYJAN HELGA

Við gerðum stuttan stans við Dumbarton Rock kastalann, öðru nafni Bretavirki í Blóðugri jörð/ Dún Bretann, á leið okkar til Oban. Það var áhugavert að skynja að jafnvel hin hæstu virki höfðu þann veikleika að hægt var að svelta fólk þar til uppgjafar, líkt og Ólafur hvíti gerði á sínum tíma.

Frá Oban lá leiðin með ferju til Mull og þaðan með annarri ferju til Iona eyjarinnar helgu. Þar var á sínum tíma klaustur, stofnað af Columba eða Colum Killa, munkinum írska sem hafði verið gerður útlægur frá heimalandi sínu.

Hann fór ekki langt frá Írlandi, en nægilega þó til að sjá ekki lengur strendur ættlandsins – og hóf kristniboð sitt frá þessari litlu og hrjóstrugu eyju. Talið er að þaðan hafi kristin trú breiðst út til norðurhluta Evrópu.

Koddi Columba

Í klaustrinu voru ýmsar gersemar og Ketill flatnefur, faðir Auðar djúpúðgu, gerði á sínum tíma strandhögg á eyjunni og rændi klaustrið. Hvað nákvæmlega hann hafði upp úr krafsinu liggur ekki fyrir, en hann skildi alla vega eftir steininn, sem Columba notaði sem kodda og líkist hjarta í laginu.

HÁLÖND SKOTLANDS

Samspilið á milli fararstjóranna í ferðinni var frábært. Milli þess sem Vilborg tengdi sögusviðið í bókum sínum við landið, fjöllin og vötnin í norðurhluta Skotlands, fræddi Snorri Guðmundsson eigandi ferðaskrifstofunnar Skotgöngu okkur um sögu Hálandanna og ættarstríð og uppreisnir sem þar geisuðu fyrr á tímum.

Engu var gleymt, hvort sem það voru hæstu fjöll landsins, þau fallegustu, helstu átakasvæði ættarstríðanna, staðir þar sem Outlander þáttaröðin var tekin upp eða Harry Potter myndirnar – og landið varð eins og lifandi sögusvið.

Eftir því sem norðar dró vék hinn þétti trjágróður fyrir heiðarlöndum og landslagið varð æ líkara því sem við þekkjum hér á landi. Landið er reyndar grænna en okkar og skreytir sig hér og þar með beitilyngi í sínum sterkbleika lit, en skoska beitilyngið er töluvert hávaxnara en það íslenska og vex oft í miklum breiðum.

Glenfinnan – en þar er stytta af Bonnie Prince Charlie

ORKNEYJAR

Orkneyjar hafa lengi verið á lista hjá mér yfir staði sem mig langaði að heimsækja, enda hefur allt í kringum Víkingatímabilið heillað mig. Gamli maðurinn við Háey tók hljótlátlega á móti okkur þegar ferjan sigldi framhjá honum, en þessi steindrangur rís 137 m yfir sjó rétt utan við eyjuna, nokkru áður en siglt er inn til Stromness eða Straumness.

Bæjarlífið bæði þar og í Kirkwall er svipað og vænta má á stöðum þar sem sjómennska er stunduð og ferjusiglingar milli lands og eyja – eða eyja og eyja skipa stórt hlutverk. Í Kirkwall er að finna gamla kastala og kirkju heilags Magnúsar, en bygging hennar hófst árið 1137 og stóð yfir í rúm þrjú hundruð ár.

Merku minjarnar á Orkneyjum er hins vegar að finna þegar komið er út fyrir bæjarmörkin.

FIMM ÞÚSUND ÁRA GAMLAR MINJAR

Við vitum ekki hvaða menningarsamfélag reisti steinana á Steinanesi eða Brodgar hringinn, en í honum voru upprunalega 60 steinar, þótt einungis 36 standi ennþá. Hins vegar er ljóst að það voru einhverjir sem bjuggu yfir þeirri þekkingu og tækni sem þurfti til að reisa þunnar, stórar steinflögur upp á annan endann, tiltölulega grunnt í Jörðu og mynda með þeim hringi – og það um þremur öldum fyrir Krist.

Ring of Brodgar steinarnir

Hversu margir steinar stóðu uppi á Steinanesi, þegar Auður gaf Gróu sonardóttur sína Dungaði fyrir meira en 1200 árum síðan er ekki vitað, en væntanlega fleiri en eru þar nú. Steinninn með gatinu, sem þau settu hendur sínar í gegnum til að treysta heit sín var hins vegar eyðilagður af manna völdum fyrir ekki svo löngu síðan.

Séð yfir íverustaðina í Scara Brae

Steinhringirnir eru mjög magnaðir, en Scara Brae þorpið sem uppgötvaðist árið 1850 þegar slæmur stormur fletti jarðlögunum ofan af því er kannski enn magnaðra. Hvaða þjóðflokkur bjó þar og hversu lengi er ekki vitað, en áhöld og ýmislegt annað hefur varðveist vel í þessu fimm þúsund ára gamla þorpi – og hugsanlega voru það íbúar þess sem reistu steinhringina.

Nánari upplýsingar um ferðaskrifstofuna Skotgöngu er að finna HÉR!

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg mál, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að efla og styrkja heilsu líkamans. 

Myndir:  Guðrún Bergmann

Aðalmynd greinar: Kirkjan, klausturgarðurinn og minjasafn á Iona

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 517 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?