NÝTT OFURTUNGL Í VOG
Í dag, 16. október 2020, er nýtt tungl í Voginni. Þetta er eitt af þeim tunglum ársins sem kallast Ofurtungl og hér á eftir fylgir þýðing mín á skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory á orkunni sem fylgir þessu nýja ofurtungli í Vog, svo og orkunni sem við komum til með að búa við út október og eitthvað fram í nóvember.
Pam byrjar á að greina frá því að október sé sérstakur þetta árið, því það séu þrír tunglviðburðir í mánuðinum – FULLT tungl í Hrútsmerkinu 1. október – NÝTT Tungl Vogarmerkinu 16. október og FULLT tungl í Nautsmerkinu 31. október, en það tungl er líka kallað Bláa tunglið.
TVÖ SKÝR ÞEMU Í OKTÓBER
Samkvæmt skýringum Pam eru tvö skýr þemu ráðandi í október. Annað er þemað sem Pam hefur talað lengi um, en það eru allar pláneturnar sem eru í Steingeit (Júpiter, Satúrnus og Plútó) sem tengjast takmörkunum, ríkisstjórnum, reglum og reglugerðum. Við skulum heldur ekki gleyma því að þessar plánetur snúast jafnframt um niðurbrot gamla kerfisins – en þær eru í 90° spennuafstöðu við pláneturnar í Hrútsmerkinu – Mars, sem er í samstöðu við Eris og Black Moon Lilith. Á vissan hátt eru þær táknrænar fyrir vilja einstaklingsins sem vill bjóða yfirráðum ríkisstjórna birginn á sinn hátt. Hrúturinn er mjög hvatvís og veður áfram og mætir það krafti Steingeitarplánetanna – sem þrengja að öllu þetta árið.
Hitt þemað sem kemur upp í október er andstaðan á milli Merkúrs í Sporðdreka og Úranusar sem er í Nautsmerkinu.
Þessi orka er allt annars eðlis – en frá því síðla í september og fram til 28. október er Merkúr í Sporðdrekamerkinu. Merkúr kafar djúpt og vill komast til botns í málum. Hann þarf að grafa upp leyndarmálin sem hafa verið falin lengi. Það knýr hann áfram nánast eins og hann sé að vinna að réttarrannsókn, en þannig vinnur Merkúr í Sporðdreka.
Merkúr er síðan í bakflæði (fer aftur á bak) frá og með 13. október. Þótt Pam leggi almennt ekki mikið upp úr Merkúr í bakflæði, telur hún að hann sér sérstaklega mikilvægur núna, þar sem hann er í bakflæði fram til 3. nóvember en þá verða forsetakosningar í Bandaríkjunum. Um þessa orku talaði hún í síðasta myndbandi sínu – eins og kom fram í þýðingu minni miðvikudaginn 30. september.
UPPLJÓSTRANIR OG HNEYKSLISMÁL
Þegar Úranus og Merkúr eru í 180° andstöðu koma oft upp hneykslanlegar fréttir sem koma á óvart, einkum og sér í lagi þegar Sporðdrekinn er annars vegar, með sína þörf fyrir að grafa djúpt og koma hlutum upp á yfirborðið. Þessi andstaða verður nákvæm 19. október, mjög nálægt ofurtunglinu – en hefur verið til staðar frá 1. október og verður það til 25. október – svo nánast allan mánuðinn.
Í þessum mánuði megum við því eiga von á fullt af uppljóstrunum, staðreyndum sem koma á óvart og valda hneykslan og skekja undirstöður ýmissa þátta. Einnig getum við átt von á öflugum viðburðum tengdum Jörðinni eins og jarðskjálftum, eldgosum, nú eða pólitískum eldgosum – sem valda hneykslan. Pam telur að sumar þessar afhjúpanir eigi eftir að valda ringlun hjá okkur, því þær verða svo ótrúlegar – auk þess sem við gætum fengið fréttir af einhverju geimtengdu því slíkar fréttir eru alltaf tengdar Úranusi. Líklegt er að þessar uppljóstranir eða afhjúpanir verði áberandi í kringum 19. október rétt eftir ofurtunglið. Verum við öllu búin, þar sem sterk Úranísk orka er ríkjandi í gegnum allan október, en um það fjallar Pam meira aðeins síðar.
NÝTT OFURTUNGL
Nýja ofurtunglið kveiknar 16. október á 23°og 55 mín í Vog klukkan 19:30 að okkar tíma. Með staðsetningu þess bætist við enn ein plánetustaða aftarlega í höfuðmerkjunum, sem eru Hrútur – Krabbi – Vog – Steingeit – sem hefur tengingu við bæði pláneturnar í Hrútnum og Steingeitinni.
Sérhvert nýtt tungl markar nýtt upphaf, svo skoðaðu hvar þetta tungl fellur í kortinu þínu og sáðu nýjum fræjum. Settu þér markmið eða ásetning um það sem þú vilt að verði að veruleika – en mundu að þú ert að sá fræjum, sem geta skilað árangri eftir sex mánuði þegar tunglið er næst fullt í Voginni. Skrifaðu markmiðin í fyrstu persónu eintölu – eins og þau hafi þegar gerst, því þetta er öflugt tungl. Það er annað af þremur ofurtunglum þetta árið og það þeirra sem er næst Jörðu. Þar sem það er svo nálægt Jörðu hefur það sterkan togkraft á Jörðina, sem gæti frekar aukið við ölfuga skjálftavirka atburði á henni.
MARS NÆRRI JÖRÐU
Þar að auki, eins og kom fram í síðasta spjalli, er Mars enn mjög nálægt Jörðu, eins nærri henni og hann hefur verið síðustu 15 ár. Hann var nákvæmlega næst henni 6. október og er því enn mjög nærri. Gott er að rifja upp að þegar Mars fór í bakflæði 9. september s.l. spruttu upp miklir eldar víða meðfram vesturströnd Bandaríkjanna, allt frá Kaliforníu og upp til Washington ríkis. Mars tengist ekki bara eldum heldur líka hita í framkomu, svo við eigum væntanlega eftir að sjá þann hita frá Mars næstu 10-12 vikurnar.
Nýja ofurtunglið er næst Jörðu af ofurtunglum ársins, auk þess sem Mars er enn mjög nærri Jörðu. Mars er í Hrútnum í samstöðu við Eris, plánetuna sem nefnd er eftir gyðju uppþota og mótmæla. Mars er á 20°, í samstöðu við Eris í Hrút og báðar þessar plánetur eru svo í samstöðu við Black Moon Lilith sem er á 27° í Hrút. Þessar plánetur í Hrútnum eru í 90° spennuafstöðu við pláneturnar þrjár, Júpiter, Plútó og Satúrnus, sem eru í Steingeit. Þar takast á krafan um frelsi og rétt einstaklingsins – í spennuafstöðu við hömlur Steingeitarplánetanna eða stjórnvalda.
Plútó, pláneta dauða og endurfæðingar, er einmitt núna staðsettur mitt á milli Júpiters og Satúrnusar og Plútó magnar upp allt sem hann snertir – en ekki gleyma heldur að Plútó er líka í miðjunni á niðurbrotsferli hins gamla, þótt við sjáum það kannski ekki greinilega fyrr en árið 2023 þegar Plútó fer inn í Vatnsberamerkið.
JAFNRÆÐI OG SANNGIRNI
Reyndar snýst þessi mikla orkan núna ekki bara um pláneturnar í Hrút og Steingeit, því bæði sólin og tunglið eru á 23° í Vog og því fylgir mikil spenna. Vogin snýst um jafnræði og sanngirni – og Hrútnum finnst sem ekki sé hlustað á hann og hann nái ekki réttlætinu fram – svo þema hans tengist réttlætis- og jafnræðisþemanu sem Vogin undirstrikar á þessu nýja ofurtungli.
ÖFLUGUR ÚRANUS VEKUR OKKUR UPP
Að auki er Úranus í Nauti mjög sterkur, þar sem hann er í andstöðu við Merkúr í Sporðdreka. Hann er pláneta sannleika, frelsis og hins stingandi sverðs tærrar hugsunar. Svo hvað sem það er sem Merkúr grefur upp – þá á það eftir að verða mjög stórt og valda hneykslan – jafnvel svo að við eigum erfitt með að ná áttum á því. Það á líka eftir að hrista upp í hugarfari okkar, jafnvel valda hugarfarsbreytingum, því Úranus er pláneta hins óvænta.
Pam segist ekki geta sagt nákvæmlega hvað það verður, en hún hefur það sterkt á tilfinningunni að þau mál sem upp koma eigi eftir að verða risastór. Munið að Úranus er líka pláneta uppvakningar og styður við elementin sem fylgja Hrútnum, svo hvað sem kemur upp á þessum tímum og birtist sjónum okkar allra, er líklegt til að valda hneykslan og meiri óeirð í fólki, því það er hluti af uppvakingarferlinu – svo Pam hvetur til þess að við séum meðvituð um það sem er að gerast.
Þann 27. október verður Úranus líka næst Jörðu, þannig að það eru líkur á að staðan undirstriki það sem Úranus er táknrænn fyrir. Hvort sem það snýst um viðburði sem hreyfa við Jörðinni – eða það verða hneykslanlegar fréttir sem koma upp á yfirborðið undir lok mánaðar – þá verður þessi mánuður ekki tíðindalaus, svo mikið er víst.
VETRARSÓLSTÖÐUR
Pam segir að margir séu að spyrja hana um 21. desember og hún segist munu fjalla nánar um orkuna þann dag þegar nær dregur. Þó vill hún núna aðeins koma inn á hana hér, en hún segir að mikið af sjáendum og andlega meðvituðu fólki tali um að það muni mikið ljós koma til Jarðar þann dag. Sú spá tengist ekki stjörnuspeki, frekar kosmósinu sjálfu því við erum að fara út úr kosmíska skýinu sem við höfum verið í allt okkar líf – og Jörðin er að taka á móti bylgju eftir bylgju af ljóstíðni sem er að hjálpa okkur að uppfæra kerfin okkar, uppfæra DNA‘ið okkar og færa meira ljós inn í líkama okkar. Hún hvetur okkur því þegar við hugleiðum að biðja um að fá meira ljós inn í líkama okkar. Þetta er yndislegur hluti af umbreytingunni og því ferli að vakna til æðri vitundar.
Pam segir þessar breytingar vera efnislega staðreynd, en ef stjörnuspekiþátturinn er skoðaður, sé þetta mjög öflugur dagur þar sem á honum eru Vetrarsólstöður. Sólstöður og jafndægur eru tímamót þar sem skjöldurinn um Jörðina er þynnri, svo við getum komist inn á fínni tíðnisvið og átt auðveldar með að ná í upplýsingar frá þeim.
Það sem gerir þennan 21. desember þó enn merkilegri er að á honum mætast Júpíter og Satúrnus á 0° í Vatnsberamerkinu, sem tákn um nýtt upphaf.
NÝTT UPPHAF
Þessar tvær plánetur mætast á 20 ára fresti og þegar það gerist er alltaf litið á það sem nýtt upphaf, nýja heimsmynd, nýjar hugmyndir, ný sjónarhorn, nýja sýn á hlutina. Litið er á þessa samstöðu plánetanna sem kynslóðatengda breytingu. Síðustu 200 árin hafa þær alltaf mæst í Jarðarmerkjum – svo heimsmynd okkar hefur snúist um jarðtengda hluti, að hafa stöðugleika, starf fyrir lífið, heimili fyrir lífið, bíl fyrir lífið, neysluþörf og eignarhald, allt mjög eignatengt – en núna eru þessar plánetur að færa sig inn í Loftmerki (Vatnsberinn).
Þar sem Júpiter er á leið í gegnum Jarðarmerkið Steingeit og Úranus í gegnum Jarðarmerkið Nautið, eru Steingeitin og Nautið að hrista upp í því sem við höfum litið á sem öryggi okkar, störfin okkar, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, stjórnmálakerfið. Allt þetta mun skjálfa og hristast því við erum að fara yfir í mun léttari orku, frá jarðbundinni Steingeit yfir í Vatnsbera – sem er stöðugt loftmerki. Allt á eftir að verða mun léttara og meira um upplýsingar og samskipti og gæti ef vel tekst til snúist um eitt heimssamfélag sem ynni saman. Eitt hjarta, einn hugur, endurnýjuð sem einn.
NÝTT LANGTÍMA UPPHAF
Samstaða Júpíters og Satúrnusar boðar ekki bara byrjun á 20 ára hringferli, heldur á 200 ára hringferli, sem aftur er upphafið á 800 ára hringferli, því Satúrnus og Júpiter verja um 200 árum í hverju elementi – jörð, loft, vatn og eldur – svo þetta er stórmál í stjörnuspekinni.
Satúrnus snýst um það hvert við vörpum ábyrgð okkar, svo og um það hver stjórnar, en Pam fjallar meira um það síðar. Þar sem Satúrnus er enn í Steingeit og hefur verið í nokkur ár, höfum við yfirfært traust okkar á ríkisstjórnir – og það er öllum ljóst hvernig það hefur virkað.
Þegar Satúrnus fer yfir í Vatnsberann, eigum við möguleika á að taka ábyrgðina meira í eigin hendur og vinna með samfélaginu í heild sinni. Þú kannt að hugsa hvernig það eigi eftir að ganga upp – því við höfum aldrei gert það áður. Michael Tallinger, stofnandi Ubuntu Liberation eða One Small Town, geftur okkur einhverja hugmynd um hvernig það væri hægt.
En aftur að plánetunum. Pam talar um hverja og eina þeirra sem marghliða demanta, sem geta unnið stórkostlega saman – eða þær geta unnið á lægri sviðum. Og ef við hugsum um Satúrnus sem plánetu stjórnunar – og Vatnsberann sem tákn tæknivæðingar, gæti verið að breytingarnar myndu birtast á þann máta, vegna þess að við stöndum hér frammi fyrir stærra vali, einkum hvað varðar orkuna 21. desember.
STIGVAXANDI ORKA
Pam segir að við séum í mikilli orku sem er ótrúlega mögnuð og fer stigvaxandi í október, nóvember og fram til ársloka, meðal annars vegna spennunnar sem þegar er búið að fjalla um milli plánetanna sem hún skýrði hér að framan og þeirrar staðreyndar að þær eru í höfuðmerkjum og því í úthverfri birtingarmynd sinni.
Pam segir að þessi tilfinning um stigvaxandi mögnun orkunnar – sem bara eykst þegar við nálgumst 21. desember sé nánast eins og við séum að toga í teygjuna á teygjubyssu og öll þessi spenna eigi eftir að velta fram eins og stór alda í sjónum. Hún segir að þeir sem stundi brimbretti fylgist nú með öldunni… svo hún hvetur okkur til að nýta þá samlíkingu líkt og stefnan væri að nýta þessa orkuöldu til að lyfta ykkur upp á hærra svið.
Hún segir að við getum valið að setja fókus okkar 3D (þrívíddar) veruleikann, festast við fréttirnar sem hellast yfir okkur alla daga, á kaosið, dramað og öll þau áhrif sem það hefur haft á líf okkar á þessu ári. Hún segist ekki vera að draga úr því að mikið hafið gengið á hjá mörgum, heldur frekar að benda á að ef við höldum fókus okkar þar eigum við orkulega séð eftir að endurskapa það umhverfi á einhvern máta inn í framtíðina.
VAL UM STYRK OG HUGREKKI
Við getum líka valið að vera mjög sterk og hugrökk og nýtt okkur orku Mars í Hrútnum og valið að hugsa sem svo að jafnvel þótt þessi leikur sé mjög töff, ætla ég að leggja mig fram um að hækka tíðni mína. Því tíðnin skiptir öllu máli! Pam leggur ríka áherslu á það aftur og aftur að við eigum eftir að komast betur að því að allt í heiminum er tíðni og að atburðir renna saman við og reynsla okkar rennur saman við þá tíðni sem við sendum frá okkur. Þessi staðreynd er ekki neitt „vú, vú“, heldur vísindi sem þú getur kynnt þér betur með því að leita upplýsinga um það.
Ef raunveruleiki okkar er bara spegilmynd af því sem við erum að senda frá okkur, hvetur hún okkur til að reyna, alla vega fram til áramóta að halda orku okkar á hærri tíðni. Þessi hærri tíðni felst meðal annast í tíðninni sem fylgir gleði, kærleika, frelsisþörf og þakklæti, en þeirri tíðni má halda með því að beita þessum aðferðum.
Þú getur sungið, dansað, hummað, tónað, hlustað á fallega tónlist, leikið við barn eða við heimilisdýr, hugleitt, horft í kertalog- eða gert eins og Pam sem fer í gönguferð í klukkutíma daglega – og dásamar þá ilminn úr umhverfinu, fuglasöng, tré og blóm. Semsagt, þú heldur hærri tíðni með því að dásama og þakka fyrir allt sem þú sérð.
Pam bendir líka á að stundum gætir þú verið á göngu með vini og hans sýn á það sem þú sérð og ert að dásama, er ekki sú sama og þín, því þið eruð í algerlega mismunandi raunveruleika.
ÞRIÐJA OG FIMMTA VÍDDIN
Samkvæmt skilningi Pam erum við öll að þróa okkar eigin tímalínu og þegar við nálgumst 21. desember segist hún telja að þar eigi eftir að verða breiðara bil milli 3D og 5D. Við erum að fá alla þessa nýju tíðni sem streymir inn til Jarðar og á sama tíma erum við í öllu þessu kaosi og niðurrifi – og brúin á milli þriðju víddar (3D) og fimmtu víddar (5D) er í raun bara fjórða víddin (4D).
Þess vegna verður meira bil á milli 3D og 5D. Það þýðir samt ekki að þú getir ekki hoppað yfir í 5D hvenær sem þú vilt. Pam segist þekkkja fólk sem býr þegar í 5D, því þetta er ekki spurning um stað, heldur tíðni og með því að velja gleði, kærleika, þakklæti og frelsi, er sama hversu brengluð orkan í kringum okkur er, við getum yfirunnið hana með því að halda okkur við tíðnina sem fylgir þessum tilfinningum.
PARADÍS ER EKKI Á NÆSTA LEYTI
Ef þú dettur inn í 3D kaosið, hvetur Pam þig til að koma þá bara aftur og aftur til baka til kærleikstíðnanna, því þú getur alltaf farið í hina tíðnina ef þú vilt síðar. Þetta er ekki dæmi um að við verðum öll í Paradís 22. desember. Alls ekki, því niðurbrot hins gamla heldur áfram – en ef þú hugsar eins og brimbrettakappi, notaðu þá orkuölduna, vertu með kristaltæra mynd af því sem þú vilt að verði að raunveruleika árið 2021. Skrifaðu planið niður í 1. persónu nútíð, eins og það sé þegar raunveruleiki þinn.
Lítum aðeins á þetta frá öðru sjónarhorni segir Pam. Setjum sem dæmi að stór hópur af fólki vilja fara frá London til Edinborgar sem er um 330 km leið. Það er annað hvort hægt að taka flugvél sem tekur um klukkustund eða ganga til Edinborgar sem tekur nokkrar vikur. Við komumst á sama áfangastað, en tíminn sem það tekur okkur þangað er mismunandi. Við erum öll á okkar eigin ferð í gegnum lífið.
Pam segir að með því að nýta okkur tíðnina, komumst við hraðar þangað sem við viljum fara – og að við eigum væntanlega öll eftir að finna fyrir þessar breytingu í orkunni. Hún hjálpar okkur að þroskast betur andlega, og „uppfærsla“ okkar á eftir að ganga hraðar fyrir sig ef svo má að orði komast. Skilningur okkar á því hvernig raunveruleikinn virkar, breytist ekki eftir línulegu ferli, heldur tekur hann risastökk. Þar sem stökkið verður stórt leggur Pam ríka áherslu á að fjalla um það og vonast til að þessar skýringar hafi hjálpað.
Í lokin á spjalli sínu hvatti hún okkur enn á ný til að setja skýr markmið nú á þessu nýja tungli, því það er mjög sterkt. Gott er að gera ráð fyrir að að markmiðin rætist eftir 6 mánuði eða svo – þegar tunglið verður fullt í Vog í apríl á næsta ári.
Nánar um Pam Gregory: www.pamgregory.com – YouTube.com
Þýðing: Guðrún Bergmann
Mynd: CanStockPhoto.com / Paul Paladin
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025