NÝ STEFNA Í LÍFINU
NÝ STEFNA Í LÍFINU
Tunglið varð nýtt í Vatnsberamerkinu þann 1. febrúar síðastliðinn og þann sama dag fögnuðu Kínverjar nýju ári. Nýja árið þeirra er ár Tígursins og þetta árið er Tígurinn í vatnselementinu. Vatnselementi Tígrisdýrsins fylgir hraði og tilfinningar svo við megum því eiga von á að hlutir gerist almennt hratt á þessu ári og að það verði tilfinningahiti í málunum.
Það þykir almennt gott að byrja á því sem á að vaxa og dafna upp á við með vaxandi Tungli, því þá er sagt að maður hafi orkuna með sér upp á við og að það leiði til betri árangurs. Ef við hugsum til orkunnar í ári Tígursins hjá kínverjum, þá fylgir Tígrisdýrinu mikill kraftur og orka og því gott að hrinda ýmsu í framkvæmd á þessu ári, einkum að hefjast handa á þessu tímabili.
Þegar Tungl fer minnkandi er hins vegar gott að leita inn á við og pæla í hlutunum, vinna bakvinnuna eða bíða með stórar framkvæmdir fram að næsta nýja Tungli. Hvort sem við breytum um stefnu þegar það eru okkar áramót, kínversk áramót eða nýtt Tungl í hvaða stjörnumerki sem er, eru nýtt upphaf og ný stefna í lífinu alltaf spennandi.
ÝMISLEGT LEIÐIR TIL BREYTINGA
Það er margt sem leiðir til breytinga hjá okkur, þótt það tengist hvorki nýju Tungli né nýárinu, en við slík tækifæri setur fólk oft fram ákveðinn ásetning eða markmið. Breytingar eiga sér yfirleitt stað þegar við flytjum milli staða, þegar farið er gegnum starfslok hvort sem það er vegna aldurs eða bara að verið er að skipta um starfsvettvang og sækja á ný mið.
Nýtt starf kallar yfirleitt á breytingar, svo og þegar ákveðið er að hefja nám eða að námi loknu að leita tækifæra á vinnumarkaði á ný. Stundum tengjast breytingarnar líka persónulegri þáttum eins og skilnaði fólks, erfiðum veikindum eða andláti.
HVAÐ VILJUM VIÐ SKAPA?
Hver sem ástæðan er fyrir breytingum í lífinu er mikilvægt að hafa skýran fókus á hvert við viljum stefna og hvað við viljum gera eða skapa. Stundum þurfum við að komast yfir huglægar hindarnir til að geta komist af stað – og við þurfum líka að veita okkur svigrúm til að meðtaka þær breytingar sem koma upp vegna skyndilega atvika, áður en við veljum okkur nýja stefnu.
Mikilvægt er líka að muna að fæstir hlutir gerast á „einni nóttu“ og því þurfum við að hafa þolinmæði til að vinna að þeim breytingum sem við viljum gera. Því getur verið mikilvægt að sýna sjálfum sér þolinmæði og sjá að ýmsu miðar áfram í skrefum, þótt hlutirnir gerist ekki í stökkum.
LOFORÐ ÞÉR TIL HANDA
Þegar við tökum ákvörðun um að breyta um stefnu í lífinu, hvort sem sú stefna snýr að innri vinnu eða ytri árangri, erum við að gefa okkur sjálfum ákveðið loforð. Loforð um að halda í ákveðna átt og það eitt togar okkur oft áfram í þá átt sem við viljum fara.
Þegar ferðin er hafin megum við hins vegar alltaf eiga von á að ýmislegt taki óvænta stefnu, en þá er um að gera að aðlaga sig að þeirri stefnubreytingu og halda áfram. „Lífið er nefnilega eitthvað sem gerist, meðan þú ert upptekin/-n við að gera önnur plön,“ var einhvern tímann haft eftir John Lennon heitnum.
Hjá okkur öllum eru tímabil áberandi framþróunar og þroska, breytinga og athafna, svo og tímabil þegar við förum okkar hægar og bíðum eftir rétta tækifærinu til að stíga fram á við og gera eitthvað nýtt. Aðalatriðið er kannski að við leggjum okkur fram um að vera besta útgáfan af okkur sjálfum í öllu því sem tökum okkur fyrir hendur.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum
Myndir: CanStockPhoto / adrenalina / focalpoint
Skráðu þig á PÓSTLISTANN til að fá reglulega fréttir tengdar heilsumálum og sjálfsrækt frá Guðrúnu.
Um höfund
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar02/09/2024NÝTT TUNGL Í MEYJU 03.09.24
- Greinar23/08/2024LÍKAMINN GEYMIR ALLT
- Greinar19/08/2024FULLT TUNGL Í VATNSBERA 19.08.24
- Greinar04/08/2024NÝTT TUNGL Í LJÓNI