LEIÐTOGI Í EIGIN LÍFI

LEIÐTOGI Í EIGIN LÍFI

Við erum stödd á þeim umbreytingartímum í heiminum, þar sem við þurfum öll að læra að verða leiðtogar. Það þýðir ekki að við þurfum að standa í rekstri fyrirtækja, fara í stjórnmál eða stefna að starfi sem felst í því að leiða aðra áfram.

Við þurfum að læra að verða leiðtogar í eigin lífi. Taka stjórn og stefnu í lífinu sem leiðir okkur áfram, þangað sem hin nýja leið okkar kemur til með að liggja. Þora að taka skrefin sem þarf til að fylgja henni eftir og vaxa með hverju skrefi.

Það gerir reyndar kröfu um að skera sig úr hópnum, fara ekki sömu troðnu slóðir og aðrir, heldur velja sína eigin leið sem leiðtogi í eigin lífi.

AÐ KOMAST YFIR EFANN

Ágætis kona sagði við mig fyrir mörgum árum síðan að efinn væri stærsta strokleður í heimi. Ég er henni sammála, því þegar efinn laumar sér inn er eins og hann geti á einu augnabliki eytt öllum draumum og löngunum. Hann fær hugann til að sannfæra mann um að þessir draumar hafi bara verið tómt bull og ekkert vit í þeim. Um leið er komin góð afsökun fyrir því að hætta bara við allt, þar með talið að vera leiðtogi í eigin lífi.

En hvernig er hægt að breyta efanum sér í hag og gera hann að þeim krafti sem þarf til að fylgja málum eftir? Ein leið er að gera draumana svo stóra að maður hætti að velta sér upp úr efanum um eigin getu. Með því að ákveða að draumurinn sé það sem leiði mann áfram fer orkan sem áður fór í efann, nú í kraftinn sem settur er í það að láta drauminn rætast.  

ÞJÁLFAÐU ÞIG Í AÐ GERA ERFIÐA HLUTI

Allir leiðtogar þurfa að þjálfa sig í að gera erfiða hluti. Það geta verið bæði litlir og stórir hlutir. Þeir geta tengst því sem við nennum ekki að gera eða viljum forðast að gera til að ná árangri. Með því að hafa þessa setningu „þjálfaðu þig í að gera erfiða hluti“ alltaf á bak við eyrað og draga hana fram þegar maður missir dampinn, er til staðar innri hvatning sem drífur mann áfram og afsakanirnar hverfa.

Það verða hindranir á vegi allra leiðtoga, hvort sem er í starfi eða eigin lífi. Með því að þjálfa sig í að gera erfiða hluti er hægt að komast í gegnum hindranirnar, forðast uppgjöf og eflast og styrkjast í leiðtoga-hlutverki sínu.

LÍFSSTÍLLINN STYRKIR LEIÐTOGANN

Mér kemur svo oft í hug sagan FERÐIN SEM ALDREI VAR FARIN eftir Sigurð Norðdal, þegar ég hugsa um leiðtoga í eigin lífi. Mann sem fékk hvatningu til að hætta sukki og sumbli og beina sjónum sínum að því að rækta sitt eigið líf og annast eignir sínar af alúð.

Leiðtogi í eigin lífi þarf að velja sér lífsstíl sem styrkir hugann og eflir andann. Lífsstíl sem veitir honum aukinn líkamlegan styrk svo hann hafi kraft og orku til að fylgja draumum sínum eftir. Lífsstíl sem byggir upp þær gjafir sem hann fékk í vöggugjöf og leiðir til þess að hann verði öflugri leiðtogi í eigin lífi.

Mynd: CanStockPhoto/decasdo

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 591 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram