KRYDDIN BÆTA BRAGÐIÐ

Réttu kryddin geta svo sannarlega breytt hvaða hráefni sem er í undurgóða máltíð. Stundum þekkjum við bragðið, en stundum er það framandi og það tekur bragðlaukana nokkurn tíma að aðlagast nýja bragðinu. Í matvöruversluninni sjáum við kannski kryddglas með framandi heiti, en höfum ekki hugmynd um hvernig á að nota innihaldið.

Ég ákvað því að þessa vikuna væri “föstudagsuppskriftin” ekki af einhverjum ákveðnum réttin, heldur umfjöllun um framandi krydd, sem getur svo sannarlega stuðlað að ótrúlega bragðgóðum réttum.

Svona líta sumac berin út, áður en þau eru þurrkuð og möluð í krydd.

SUMAC

Þegar ég heyrði fyrsta f þessu kryddi, hélt ég að það væri framleitt af veitingastað með sama nafni, sem meðal annars býður upp á glútenlausa rétti. Raunin er hinsvegar sú að þetta er kryddblanda frá Kryddhúsinu (Krydd og Tehúsið) í Hafnarfirði.

Sumac er í raun heiti á fallegum rauðum berjum sem vaxa í klösum á trjám í heitu loftslagi. Þegar þau eru tínd fersk, er vinsælt að gera úr þeim límonaði. Annars eru eru þurrkuð og möluð og úr verður dásamlegt krydd sem gefur sítrusbragð í allan mat. Gott að strá sumac út á t.d. salat, hummus, kjúklingabaunir, tahini ofl.

Sumac er stútfullt af andoxunarefnum, ríkt af C vítamíni, styrkjandi fyrir ónæmiskerfið.

ZA’ATAR

Kryddið með þessu framandi nafni er arabísk blanda, sem inniheldur meðal annars hyssop, sumac og sesamfræ, sem gerir kryddblönduna sérlega næringarríka. Za’atar er gjarnan stráð yfir brauð eða hummus. Það má blanda því saman við ólífuolíu (þessa grænu góðu) og dýfa brauði í hana eða nota Za’atar til að krydda með kjúkling.

HYSSOP 

Íslenska heitið á þessu kryddi er íssópur, en þetta er jurt af myntuætt. Hún er keimlík oreganó, en mun bragðmeiri og aðeins beiskari. Þessi jurt er ekki ný undir sólinni frekar en annað krydd, því til eru heimildir frá tímum Biblíunnar, þar sem hún var notuð til að hreinsa anda fólks og húsakynni af illum öndum. Í Davíðssálmum biður Davíð konungur Guð um að hreinsa anda sinn með Hyssop.

Í náttúrulækningum er hún mjög hreinsandi og heilandi fyrir öndunarfærin og í aromaþerapíu er olía úr hyssop notuð til að hreinsa hugann og húsakynni. Beiska bragðið gerir hana góða fyrir lifrina og því hreinsandi samkvæmt kínverskum lækningum. Nota má hyssop með eða í staðinn fyrir oreganó. Kryddið er frábært í allan ítalskan mat, á lambið, í grænmetið, á pizzuna og pastað svo eitthvað sé talið.

Einnig kryddið gott í seyði með hunangi og sítrónu gegn kvefi og hálsbólgu.

GALÍLEU KRYDDIÐ

Í þessari kryddblöndu er að finna cumin, svartan pipar, hvítan pipar og túrmerik, en blandan dregur nafn sitt af svæðinu sem hún kemur frá, það er að segja Galíleu. Þessi blanda er frábær í baunarétti eða á lambakjöt (marokkóskar/arabískar uppskriftir). Ég hef prófað hana á lamba T-beins steikur og hún er frábær. Auk þess að vera næringarrík, er hún líka ljúffeng.

TZATZIKI

Þetta er grísk kryddblanda, sem er frábær í kaldar sósur með öllum mat, grænmeti og snakki. Einungis þarf að setja 1 tsk af kryddblöndunni í 1 dós af sýrðum rjóma (eða gríska jógúrt, t.d. frá Örnu en hún er laktósafrí). Hrærið saman og látið standa í a.m.k. 10 mín til að kryddið taki sig. Blandan er stútfull af hvítlauk og lauk og þar með sannkallaður flensubani.

LAUKÍDÝFUKRYDDBLANDAN

Þessi kryddblanda er einnig frábær í kaldar sósur með öllum mat, grænmeti og snakki. Einungis þarf að setja 1 tsk af kryddblöndunni í 1 dós af sýrðum rjóma (eða gríska jógúrt, t.d. frá Örnu en hún er laktósafrí). Hrærið saman og látið standa í a.m.k. 10 mín til að kryddið taki sig. Blandan er stútfull af hvítlauk og lauk og þar með sannkallaður flensubani.

SÍTRÓNUPIPAR

Sítrónupipar Kryddhússins er svo góður og frískandi að það má borða hann með skeið einan og sér! Persneskar sítrónur er uppistöðukryddið í þessari blöndu, en það eru sítrónur sem eru tíndar og lagðar í saltpækil. Því næst eru þær þurrkaðar og síðan muldar, en þá gefa þær af sér frábært og frískani sítrusbragð í allan mat. Persneskar sótrónur eru einfaldleg uppistöðukryddið í persnerskri matargerð.

HAWAYJI

Þessi afríska kryddblanda er ættuð frá Jemen. Hún er frábær í bauna, grænmetisrétti og í hvers kyns súpur, því hún er bæði næringarrík og ljúffeng.

Nú er bara að taka skrefið og prófa sig áfram með ný ljúffeng og nærandi krydd og venja bragðlaukana við nýtt bragð.

Neytendaupplýsingar: Kryddin fást í Kryddhúsinu (Krydd og Tehúsið), Flatahrauni 5b í Hafnarfirði, í verslunum Hagkaups, í Fjarðarkaupum og í Nóatúni.

Myndir: Ólöf Einarsdóttir

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram