MEÐ HEILANN Á HEILANUM

Ég hef áhuga á öllu sem snýr að heilsu heilans og fylgist því með erlendum læknum og umfjöllun þeirra um þetta merkilega líffæri okkar. Nýlega fékk ég eftirfarandi fréttabréf frá bandaríska lækninum Mark Hyman, sem stundar heildrænar (functional) lækningar. Hann stóð að baki gerð heimildarþáttanna Broken Brain og nú er að koma ný sería, en sýningar á henni hefjast á í byrjun apríl.

Hægt er að horfa á þættina án endurgjalds ef það er gert innan 24ra tíma frá því hver þáttur fer á netið. Neðst í greininni er hlekkur inn á svæði þar sem hægt er að skrá sig í slíkt áhorf. En gefum Mark Hyman orðið:

VIÐ LÆRUM STÖÐUGT EITTHVAÐ NÝTT

„Við erum stöðugt að læra nýja og spennandi hluti um mannslíkamann, hluti sem breyta framtíð læknavísindanna og víkka skilning okkar á því hvernig mismunandi líffæri vinna saman.

Ekki má vanmeta samtenginguna sem á sér stað í líkamanum. Við erum sífellt að komast að raun um flóknar og stundum undraverðar tengingar milli líkamanshluta, sem fram að þessu voru taldir vera algerleg aðgreindir.

Það er ein ástæða þess að ég stunda heildrænar lækningar (functional medicine). Mín sannfæring er að mat á því hvernig mismunandi kerfi líkamans vinni saman til að skapa vel smurða vél sem er í jafnvægi, sé mun mikilvægara en að tilnefna sérfræðing fyrir hvert og eitt líffæri. Ég er einmitt svo spenntur að geta deilt meiru um það í nýju heimildarþáttunum mínum, Broken Brain 2: The Body-Mind Connection.

TENGING LÍKAMA OG HUGA

Upplýsingarnar sem fram koma í heimildarmyndaþáttunum breyttu lífi mínu og ég veit að þær eiga eftir að breyta þínu líka.

Ein uppgötvunin sem skiptir miklu máli þegar við sinnum heilaheilsu tengist „glymphatic” kerfinu. (Aths. Þýðanda: Hér er ekki um stafsetningarvillu að ræða því kerfið er kallað „glymphatic“ – SJÁ HÉR)

Sogæðakerfi okkar flytur sogæðavökva um allan líkamann, til að hjálpa okkur að losna við eiturefni, úrgang og sýkingar, auk þess sem það sér um að flytja mikilvæg efni eins og næringarefni um líkamann. Þar til fyrir skömmu var heilinn ekki talinn hluti af þessu kerfi. Ónæmisvarnir hans voru aðallega raktar til heilablóðþröskuldsins, sem leyfir næringarefnum að fara í gegn, en heldur innrásaraðilum úti.

Nú vitum við hins vegar að það eru sogæðar í heilanum, í formi „astroglial” frumna, sem þýðir að heilinn og ónæmiskerfi líkamans eru í reynd tengd. Þessi nýja þekking í taugaónæmisfræði breytir öllu sem við höfum hingað til vitað um meðhöndlun heilasjúkdóma.

BYLTINGAKENND UPPGÖTVUN

Í Broken Brain 2 heimildarþáttunum, skoðum við hvaða afleiðingar, þessi uppgötvun um “glympathic” kerfið mun hafa fyrir taugabólgusjúkdóma og taugarýrnunarsjúkdóma. Eitt helsta svæðið sem við beinum sjónum okkar að er sjálfsónæmi.

Sjálfsónæmissjúkdómum fer fjölgandi um allan heim. Meira en 80 milljón Bandaríkjamenn eru með greiningu eða hafa einhvern snert af sjálfsónæmi. Algengustu tegundir sjálfsónæmis eru lúpus, liðagigt, Hashimoto’s sjúkdómur (vanvirkni í skjaldkirtli), sykursýki I og MS. Auk þeirra eru margir aðrir sjálfsónæmissjúkdómar sem fólk er að berjast við.

Til verður sjálfsónæmi þegar líkaminn ræðst á sig sjálfan. Ónæmiskerfið fer að ráðast á og eyðileggja mismunandi vefi, sem veldur kerfistengdum (um allan líkamann) bólgum. Ekki er enn fullur skilningur á því hvers vegna þetta gerist, þótt streita, erfðir og umhverfið séu allt þættir sem taldir eru skipta máli.

Hefðbundnir meðferðir byggjast vanalega á miklum lyfjum, sem bæla eiga niður ónæmiskerfið. Þær meðferðir gera ekkert til að komast að grunni vandans og margir sjúklingar fá, þrátt fyrir lyfin, erfið bólguköst eða eru með stöðug einkenni.

HEILDRÆNAR LÆKNINGAR KAFA DÚPT

Í heildrænum lækningum er kafað djúpt til að finna út hvaða ójafnvægi er að valda sjálfsónæmi og kerfistengdum bólgum, svo hægt sé að kæla bólguelda líkamans. Ástæðan gæti verið ójafnvægi í örveruflóru þarmanna, eitrun af völdum þungmálma eða tilfinningaleg og andleg streita. Nú vitum við líka að tenging við ónæmiskerfi heilans gæti verið enn einn mikilvægur hlekkur í að skilja sjálfsónæmi.

Í heimildarþáttunum mun ég ásamt sérfræðingum eins og Dr. Natasha Fallahi, Dr. Aristo Vojdani og Dr. Terry Wahls, fjalla um hvaða áhrif þessar byltingakenndu uppgötvanir um „glymphatic“ kerfið hafa á meðhöndlun heilasjúkdóma.“

Með þessum síðustu orðum lauk fréttabréfinu fá Dr. Mark Hyman.

SMELLTU HÉR til að skrá þig og horfa ókeypis á Broken Brain 2 heimildarþættina.

Mynd: CanStockPhoto / Andreus

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram