KRAFTMIKIÐ OFURTUNGL Í HRÚT

KRAFTMIKIÐ OFURTUNGL Í HRÚT

Tunglið sem verður fullt þann 29. september klukkan 09:54, er fjórða Ofurtunglið í röð. Það þýðir að Tunglið er mjög nálægt Jörðu á braut sinni og hefur því mun sterkara tog á fleka Jarðar og á sálir okkar. Eins og alltaf er því möguleiki á meiri skjálftavirkni í kringum það og við skulum bara biðja um að ekki verði hamfarir eins og urðu nýlega í Marokkó og senda bænir og kærleika til þess svæðis.

Fullt tungl er hápunkturinn í hringrás Tunglsins og hefur tilhneigingu til að vekja upp miklar tilfinningar. Þar sem um er að ræða ótrúlega kraftmikið Ofurtungl gæti orðið mjög viðburðaríkt tímabil í kringum það. Það er kraftmikið og aðgerðamiðað, þar sem Hrútnum er stjórnað af stríðsguðinum Mars sem er með einstaklega einbeittan huga. Hrútnum finnst gaman að gera hlutina hratt og finnst að allir aðrir fari sér of hægt. Við megum því eiga von á óþolinmæði og eirðarlausri og öfgafullri orku í kringum þetta Ofurtungl, líkt og allir séu með fótinn stöðugt á bensíngjöfinni.

T-SPENNUAFSTAÐA PLÚTÓ

Áhrifamest núna er T-spennuafstaða sem hefur verið í gangi allt þetta ár, en það er T-spennuafstaða á milli Plútó sem er á 27 gráðum og 55 mínútum í Steingeit, í 90 gráðu spennuafstöðu við Norðurnóðuna sem er á 25 gráðum og 49 mínútum í Hrút og við Suðurnóðuna sem er á 25 gráðum og 49 mínútum í Vog.

Þessi spennuafstaða snýst um stóran vendipunkt í vali okkar – það er að segja hvort við ætlum sem heild að halda áfram á leið ótta eða hvort við ætlum að velja leið kærleikans, hvort við ætlum að vera í hlutverki fórnarlambsins eða hvort við ætlum að stíga inn í hlutverk meðskapandans.

Fólk er að fara í gegnum miklar breytingar á lífi sínu bæði hvað varðar sambönd, störf, búsetu, vináttu og ýmislegt fleiri. Breytingarnar eru miklar vegna þess að T-spennuafstaða Plútó í 90 gráðu spennuafstöðu við Norður- og Suðurnóðuna, virkar eins og skrúfstykki sem neyðir okkur til þessara breytinga. Til að ákveða á einn eða annan hátt hvorn valkostinn við tökum og þetta val okkar er sennilega mikilvægasta valið á ævi okkar. Hvora leiðin sem við veljum, liggur leið okkar héðan í frá um hana.

ERIS Í SAMSTÖÐU VIÐ NORÐURNÓÐUNA

T-spennuafstaða Plútó heldur áfram langt inn í nóvember og styrktist með samstöðu við dvergplánetuna Eris, en sem stendur er hún í samstöðu við Norðurnóðuna, sem er táknræn fyrir sameiginlega framtíð heildarinnar. Eris er á 24 gráðum og 53 mínútum í Hrút og Norðurnóðan er á 25 gráðum og 49 mínútum. Samstaða þeirra verður alveg nákvæm upp á mínútu og gráðu í október, en það tekur Eris 560 ár að fara einn hring um sporbaug sinn.

Norðurnóðan, sem er táknræn fyrir þroksa og vöxt heildarinnar er því að fá örvun frá erkitýpu Erisar, en Eris var eina gyðjan sem ekki var boðið í brúðkaupið á Ólympusfjalli. Hún mætti nú samt og olli usla með því að henda gylltu epli inn í hóp gyðjanna og segja að það væri fyrir þá fallegustu. Sagt er að þessi viðburður hafa á endanum leitt til Trójustríðsins.

Eris er einstaklega ósveigjanleg og mjög á móti allri félagslegri útskúfun, svo hún berst gegn þeim ójöfnuði sem elítan stendur fyrir. Eris vill draga fram sannleikann og heimtar réttlæti í sanngjarnara samfélagi. Hún er herskár og fylginn sér götustríðsmaður, enda systir Mars. Hún er kvenorka sem mun berjast allt til enda fyrir sanngjarnara samfélagi, svo orka hennar er að hafa mikil áhrif á heildina. Eris er í Hrútnum líkt og Norðurnóðan, en Hrútinn er mjög tengdur fullveldi og sjálfræði fólks.

Kort fyrir Reykjavík á því augnabliki sem Tunglið verður fullt

MARS Í SAMSTÖÐU VIÐ SUÐURNÓÐUNA

Á hinum endanum eða í samstöðu við Suðurnóðuna er Mars á 21 gráðu og 26 mínútum, en nóðan er á 25 gráðum og 49 mínútum. Í hefðbundinni stjörnuspeki er staða Mars í Vog ekki talin sterk, en gæti hins vegar komið sér vel á þessum tímapunkti. Mars hefur tilhneigingu til að vera hvatvís, en núna skiptir máli að hugsa um afleiðingarnar. Mars í Vog kemur til með að hugsa um aðra, ná til annarra og leita eftir samstarfi.

Mars stjórnar Hrútsmerkinu og er ráðandi einstaklingsvald. Eris er í Hrútnum og er ráðandi einstaklingvald. Báðar þessar plánetur eru svo í spennuafstöðu við Plútó sem er táknrænn fyrir ráðandi ríkisvald, ríkisstjórnir og stofnanir sem hafa í gegnum tíðina haft völd – og beitt þeim ofan frá og niður.

Þemað snýst um samstuð á milli einstaklingsvalds og ríkisvalds. Fullveldisréttur einstaklinga er því að koma mjög sterkt upp með þessum afstöðum og Úranus styður við það. Hann er á margan hátt líkur Eris, því hann er pláneta uppreisna og byltinga, jarðskjálfta, eldfjalla og umhverfisáfalla með sinni ósamfelldu orku. Gjósandi orka hans snýst um frelsi og meiri jöfnuð í samfélaginu.

VENUS, ÚRANUS OG MERKÚR

Nautið stjórnar Venusi og gildismat okkar flestra hefur gengið í gengum miklar breytingar á undanförnum árum, en eitt af því sem tengist bæði Venusi og Nautinu eru gjaldmiðlar og fjármál. Í október er myrkvatímabil og sögulega séð hafa sveiflur á hlutabréfamarkaði oft orðið í október.

Úranus er með margar afstöður á þessu Ofurtungli, meðal annars 120 gráðu afstöðu við Merkúr sem er í Meyju en sú afstaða gæti skilað af sér dásamlegum og frumlegum hugmyndum. Svona afstaða milli Úranusar og Merkúrs er næstum tengd huga Guðs og getur falið í sér nokkurs konar ofvirkt innsæisniðurhal hjá fólki, sem getur ekki útskýrt hversu hratt hugur þeirra vinnur.

ÚRANUS, MERKÚR OG PLÚTÓ

Reyndar myndast samhliða þessari 120 gráðu samhljóma afstöðu á milli Úranusar á 22 gráðum í Nauti og Merkúrs á 20 gráðum í Meyju, einnig 120 gráðu tenging við Plútó sem er á 27 gráðum í Steingeit. Þetta er jafnhliða stór-þríhyrningur, nokkuð víður reyndar en mjög virkur samt. Það hafa verið nokkrir slíkir upp á síðkastið, en þeim fylgja mjög nýjar hugmyndir og hugsun, sem gæti annað hvort tengst fjármálum, gjaldmiðlum og hagkerfinu eða matvælaframleiðslu og landbúnaði.

Það er mikil pressa á miðstýrða gjaldmiðla frá stjórnvöldum (CBDC), en stefna framtíðarinnar er ekki miðstýring og Úranus er fulltrúi valddreifingar, ekki bara í gjaldmiðlum heldur líka í samfélögum. Plútó fer líka í janúar á næsta ári inn í Vatnsberann og verður þar í níu mánuði, bakkar aðeins inn í Steingeitina og fer svo að fullu inn í Vatnsberann í nóvember árið 2024 og verður þar í tuttugu ár.

Úranus stjórnar Vatnsberanum en hann er táknrænn fyrir grasrótarsamfélög, nýjar hugmyndir og ýmislegt í kringum heilsuna. Meyjan kemur þeim hugmyndum niður á Jörðina og gerir þær hagnýtar og stuðlar að nýjum kerfum, sem gætu verið ný fjármálakerfi, auk þess sem Meyjan tekur allt það smáa með.

ÞOKA OG HEILSUMÁL

Merkúr í Meyju er í 180 gráðu spennuafstöðu við Neptúnus á 25 gráðum og 59 mínútum í Fiskum. Meyjan er tengd heilsunni og Neptúnus, einkum þegar plánetan er í Fiskum, er tengd við lyfjafræði, lyf af öllum gerðum, fjölmiðla og blóðinu í okkur – svo það kann að vera að við séum að leita upplýsinga um staðreyndir í kringum þá þætti – en Neptúnus getur kastað þoku eða reyk yfir þær upplýsingar, því þannig getur lægri birting hans verið 

Neptúnus verður hins vegar í langtíma 90 gráðu spennuafstöðu allt næsta ár við Miðju Vetrarbrautarinnar á 27 gráðum í Bogmanni og líka í 90 gráðu spennuafstöðu við dvergplánetuna Varda, sem er á 25 gráðum í Bogmanni. Sú spennuafstaða mun vara í gegnum allt árið 2024. Varda er ein af þessum dvergplánetum sem tekur langan tíma í að fara einn hring um sporbaug sinn eða um 300 ár, meðan það tekur Eris 560 ár og Sedna 11.400 ár.

VARDA OG MIÐJA VETRARBRAUTARINNAR

Eins og þið munið skapaði Varda heiminn með eiginmanni sínum Manwe, en Varda sá um að koma Sólinni, Tunglinu og Stjörnunum fyrir á himnafestingunni og koma þeim í hringferli. Hún tók þátt í að skapa hið upprunalega Kosmos, en ef við erum að ganga á vegg hvað þokuna varðar í huga okkar, þurfum við að fara hærra með innsæisvitund okkar. Þeir sem eru með plánetur í afstöðu við 27 gráður í Bogmanni eða í tveggja gráðu fjarlægð frá 27 gráðum, sitt til hvorrar hliðar geta verið sérlega næmir á orku og haft sterkt innsæi.

Við þurfum að fara út fyrir hið þekkta eins og Dr. Joe Dispenza segir eða úr fyrir þriðju víddina og upp úr huga okkar og tengjast huga Guðs, því með Úranus í 90 gráðu spennuafstöðu við Merkúr, er verið að hvetja okkur upp úr þriðju víddinni og út fyrir tíma og rúm, með orku frá bæði Úranusi og Neptúnusi.

SEDNA Í TVÍBURANUM

Svo er það dvergplánetan Sedna sem fór inn í Tvíburann í júní síðastliðnum og er þar núna á núll gráðu og 18 mínútum – og er nú í utan merkja 120 afstöðu við Plútó, sem er sem stendur aftast í Steingeitinni (Jarðarmerki) og Sedna rétt komin út úr Nautinu (Jarðarmerki) og inn í Tvíburann (Loftmerki). Þessar plánetur verða í svona dansi héðan í frá og alveg til loka árs 2024, nema hvað Plútó fer inn í Vatnsberann og þá verða báðar plánetur í Loftmerkjum. Báðar eru tengdar stórum þemum um dauða, umbreytingu og endurfæðingu, auk þess sem þær tengjast missi, sorg og uppgjöf – en umfram allt afgerandi og djúpstæðri umbreytingu. 

Báðar pláneturnar eru tengdar við fullt af nýrri tækni sem kemur inn þegar Plútó fer inn í Vatnsberann og með Sedna í Tvíburanum mun það hafa áhrif á samskiptatækni okkar, þar sem við megum vænta ótrúlega hraðrar þróunar á alls kyns tækni, þar á meðal mjög gagnlegri heilunartækni.  Líklegt er að mikil þróun verði líka á samfélagsmiðlum, svo og gervigreind.

PLÚTÓ, SEDNA OG SÓLIN

Sólin er á sex gráðum í þessu korti, svo í raun er það tákn fyrir annan stóran þríhyrning milli Plútó, Sedna og Sólar, sem við ættum betur með að sjá ef Plútó væri kominn inn í Vatnsberann, því þá væru allar pláneturnar í Loftmerkjum.

 Stórir þríhyrningar eru mjög jákvæðir. Þeim fylgir almennt  heppni og þar sem þetta er í Loftmerkjum, geta það verið alls konar frábærar nýja hugmyndir. Þær geta tengst huganum, en líka því að koma saman sem heild í samfélögum og sú orka mun verða mjög sterk allt næsta ár því dvergpláneturnar hreyfa sig svo hægt og taka um 300 ár hvor að fara einn hring um sporbaug sinn.

OKTÓBER KRÖFTUGUR FYRIR ALLA

Við erum á leið inn í myrkvatímabilið og erum í raun nú þegar komin í orkuna frá því.  Það verða tveir myrkvar í október, svo framundan er mjög kröftugur tími fyrir okkur öll. Hitt sem við þurfum að taka tillit til er að Plútó í transit (á ferð um geiminn núna) verður í annarri viku október í samstöðu við Plútó í fæðingarkorti í Bandaríkjanna, sem miðast við fjórða júlí 1776 í  Philadelphia kl. 17:20 síðdegis. Reyndar verður samstaðan ekki nákvæm upp á mínútu, en nákvæm upp á gráðu.

Samstaðan verður sem sagt í annarri viku október, en þá verður Plútó í transit á 27 gráðum og fimmtíu og þremur mínútum í Steingeit, en það er nákvæmlega upp á gráðu, því í korti Bandaríkjanna er Plútó á 27 gráðum í Steingeit. Þetta er síðasta sinn sem Plútó verður á þessum stað næstu 246 til 248 árin svo þetta er mikilvæg samstaða núna.

PLÚTÓ OG FJÁRMÁLAKERFIN

Þar sem Plútó er í öðru húsi í korti Bandaríkjanna og það í Steingeit tengist það fjármálakerfi landsins, en ekki síður stjórnarskránni, stjórnmálum og öllu stjórnmálakerfinu. Það er því enginn vafi á því að Bandaríkin eru að ganga í gegnum gríðarmikinn tíma umbreytinga, en erkitýpa Plútós er eins og tré sem deyr í skóginum, hrynur til jarðar og rotnar. Við það myndast nýr og frjó jarðvegur fyrir nýtt líf, svo ferli Plútós byggist á dauða, umbreytingu og endurfæðingu.

Ókyrrð vegna umbreytinganna er að eiga sér stað um allan heim en hún er mjög sterk í Bandaríkjunum, sem eru núna að endurfæðast. Ferlið heldur áfram allt næsta ár og væntanlega lengur, en Bandaríkin eru ekki bara að endurfæðast heldur líka að endurmeta gildin sem sett voru fram árið 1776. Verða þau áfam þau sömu eða hafa þau breyst? Er stjórnarskráin í gildi eða þarf að breyta henni? Bandaríkin koma til með að breytast verulega, jafnvel eins og hún hef áður nefnt, á þann hátt að sum ríkin muni brjótast undan sambandsstjórninni.

Deildu þessari grein endilega með öðrum ef þér finnst hún áhugaverð!

Mynd: CanStockPhoto/darkfoxelixir

Heimildir: Útdráttur úr skýringum Pam Gregory á þessu fulla Tungli, þýddar með leyfi hennar. Skýringarnar í fullri lengd er að finna HÉR. ATH! Skýringar Pam miðast við kort fyrir London, svo það geta verið einhvern frávik frá þeim og meðfylgjandi korti sem miðast við Reykjavík. Á kortinu eru líka dvergpláneturnar.

Nánari upplýsingar um bækur og fræðsluefni um stjörnuspeki frá Pam er að finna á vefsíðu hennar www.pamgregory.com

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram