Um leið og ég óska þér og þínum gleðilegra jólahátíðar, langar mig að segja þér smá sögu sem alltaf tengist mínum jólum.
Á morgun er aðfangadagur, sem í mínum huga er alltaf meira en bara aðfangadagur. Rétt eftir miðnætti aðfaranótt aðfangadags fyrir 47 árum fæddist frumburður minn. Guðjón hafði látið bíða dálítið eftir sér, því hans var von í heiminn í kringum 9. desember. Til að stytta biðtímann og dreifa huganum, varð ég að finna mér eitthvað að gera.
ALT FOR DAMERNE REDDAÐI MÁLUNUM
Ég var áskrifandi að Alt for Damerne í þá daga, eins og svo margar aðrar konur voru þá á Íslandi. Þar fann ég uppskrift að jólasveinum, sem prjónaðir voru utan um ölflöskur. Ég settist niður með rautt garn og prjóna númer tvö og hálft og byrjaði að prjóna. Áður en Guðjón kom í heiminn voru tveir jólasveinar, karl og kona, tilbúnir. Þeir eru ennþá til og prýða nú heimili hans á hverju jólum.
Þar sem ég var að fæða fyrsta barn, hafði ég nokkrum sinnum spurt móður mína, hvernig ég myndi finna að komið væri að fæðingu. Hún svaraði mér einfaldlega með því að segja: „Þú finnur það!“ – og það gerði ég um klukkan ellefu að morgni á sjálfan Þorláksmessudaginn.
FÆÐINGAHRÍÐAR ALLA ÞORLÁKSMESSU
Ég var nú á því að ég ætlaði ekki að fara að láta barnið koma í heiminn svona rétt fyrir jól, en eftir því sem leið á daginn ágerðust hríðarnar. Það var því greinilegt að barnið ætlaði ekki að bíða með að koma í heiminn fram yfir áramót, eins og ég hafði sagt lækninum í skoðun tveimur dögum fyrr, þegar hann vildi koma fæðingunni af stað.
Um klukkan ellefu um kvöldið var því ákveðið að panta sjúkrabíl og ég var flutt upp á Fæðingarheimilið við Eiríksgötu. Heima sátu foreldrar mínir, bræður og mágkona, móðursystir mín og maður hennar og biðu spennt eftir fréttum af mér.
Eitthvað leiddist þeim nú biðin og fólk var orðið svangt, svo rúmlega hálfeitt eftir miðnætti dró mamma fram hangikjötslærið sem hún var búin að sjóða fyrir jóladag og það var borðað þarna um nóttina af bestu lyst.
TENGDUR HÁTÍÐ LJÓSSINS
Guðjón kom í heiminn klukkan 01:15. Þá stóð hangikjötsveislan sem hæst, því enginn farsími var til í þá daga, til að láta samstundis vita af fæðingu drengsins og senda mynd, svo þau fengu ekki fréttir af honum fyrr en um tvöleytið.
Þessar minningar eru rifjaðar upp ár hvert og ekki síður það að í kringum miðnætti þetta kvöld varð austurborg Reykjavíkur rafmangslaus. Út um glugga fæðingarstofunnar sá ég því á vinstri hönd dimma borgina, en mér á hægri hönd var vagga með nýja ljósinu í lífi mínu, drengnum sem er órjúfanlega tengdur þeirri hátíð ljóssins sem jólin eru.
Gleðilega hátíð ljóss og friðar
Guðrún
Myndir: CanStockPhoto og mynd sem Guðjón sendi mér
af jólasveinunum sínum, sem eru jafngamlir honum.
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025