GRASKERSSÚPA – BRAUÐFINGUR – KRYDDAÐ CAFÉ LATTE
Þessar dásamlegur uppskriftir eru í anda Hrekkjavökunnar, sem er í næstu viku. Þær koma frá Ólöfu Einarsdóttur í Kryddhúsinu. Ólöf bjó lengi í Bretlandi og kynntist þar sið heimamanna í tengslum við Hrekkjavöku – og þessar uppskriftir geta svo sannarlega “kryddað” hvaða Hrekkjavökupartý sem er, með einhverju bæði fyrir börn og fullorðna.
GRASKERSSÚPA KRYDDHÚSSINS (fyrir 6)
INNIHALDSEFNI:
1 lítill laukur
850 gr grasker (kjötið innan úr því)
1 sæt kartafla (eða hálf ef hún er mjög stór)
3 msk Sætkartöflukrydd frá Kryddhúsinu
600 ml vatn
1 tsk kanill malaður
½ tsk engifer malað
¼ tsk negull malaður
salt og rósapipar eftir smekk
olía til steikingar
1 dós kókosmjólk
graskerafræ og Nigella fræ til skrauts
AÐFERÐ:
- Skerið “lok” á graskerið og hreinsið kjötið innan úr því með skeið. (Passið að taka fræin frá)
- Skerið laukinn smátt og steikið hann við miðlungshita í potti.
- Kartaflan afhýdd og skorin smátt.
- Kartöflunni og graskerinu bætt út í pottinn og allt látið hitna vel í gegn. Hrærið annað slagið í á meðan.
- Hellið 600 ml af vatni út í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Saltið og piprið vel og látið allt malla í 20-30 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.
- Allt sett í blandara eða maukað með töfrasprota til að fá fallega áferð á súpuna.
- Ef hún er of þykk þynnið hana þá með vatni og hugsanlega þarf að krydda hana aðeins til eftir smekk hvers og eins.
- Fallegt og næringarríkt er að strá graskerafræum og Nigella fræum yfir hverja súpuskál fyrir sig, þegar súpan er borin fram.
GLÚTENLAUSIR BRAUÐFINGUR Í ANDA HREKKJAVÖKU
- 1 poki Fiberbröd brauðblanda frá Sukrin.
- Fylgið leiðbeiningum á pakkanum um hvernig gera á deigið.
- Mótið deigið í fingur eins og sést á myndinni.
- Þrýstið möndlu (nögl) niður á annan endann á fingrunum.
- Penslið yfir fingurnar með volgu vatni og stráið Nigella fræum yfir áður en þeir eru bakaðir samkvæmt leiðbeiningum á brauðblöndupakkanum.
Úr þessari uppskrift fékk Ólöf sjö “fingur”.
KRYDDAÐ CAFÉ LATTE MEÐ MÖNDLUMJÓLK OG GRAND MARNIER
INNIHALDSEFNI OG AÐFERÐ:
- möndlumjólk (ef lagað er í tvo bolla þá hitið 1 bolla af möndlumjólk)
- 1 sterkur kaffibolli eða 2-4 espresso
- 2 tsk af Monki möndlusmjöri
- 1 msk hlynsíróp (má sleppa)
- um það bil ½ tsk af heimagerðu “Pumpkin spice” kryddblöndunni
- 2 sjússar af Grand mariner liqueur
- kókosrjómi (Cocos whip)
Gott að þeyta kókosrjómann og hafa hann tilbúinn áður en drykkurinn er blandaður. Hitið möndlumjólkina. Hellið henni því næst í blandara ásamt öllu nema kaffinu og blandið vel saman. Hellið kaffinu í tvö glös/bolla og hellið möndlumjólkinni út í hvort glas fyrir sig.
Sprautið kókosrjómanum yfir og “dash-ið” aðeins af heimagerðu kryddblöndunni yfir allt saman.
HEIMAGERT “PUMPKIN SPICE”
Þetta er dásamleg náttúrulega sæt kryddblanda, sem hægt er að nota út í svo margt – en í hana fara eftirfarandi krydd. Magnið miðast við það hvernig Ólöf gerir hana, en hægt er að minnka kryddmagnið ef hlutföllum er haldið:
- 1 hluti kanill (8 msk)
- ½ hluti engifer malað (4 msk)
- ¼ hluti allrahanda malað (1 msk)
- ¼ hluti múskathneta, rifin á rifjárni (rifin í 1 msk)
Öllu blandað vel saman og geymt í lokuðu íláti. Þetta er dásamlega kryddblanda á grasker og rótargrænmeti, auk þess sem nota má hana í kryddkökur og heita drykki.
Myndir: Ólöf Einarsdóttir – Kryddhúsinu
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025