5 LEIÐIR TIL AÐ SLAKA Á

5 LEIÐIR TIL AÐ SLAKA Á

Við lifum á ótrúlega spennandi umbreytingartímum, en spennan í kringum umbreytingarnar betur bæði haft góð og slæm áhrif á okkur. Góðu áhrifin tengjast því að við erum full tilhlökkunar og eftirvæntingar og bíðum spennt eftir að sjá hverju fram vindur.

Slæmu áhrifin tengjast því að við byggjum upp spennu og blokkeringar í líkama okkar sem valda ójafnvægi í honum. Ójafnvægið getur haft slæm áhrif á heilsu okkar, heft blóðflæðið, haft áhrif á blóðþrýsting og búið til alls konar streitueinkenni, sem draga úr virkni ónæmiskerfisins.

HVERNIG MÁ VINNA Á SPENNUNNI?

Það eru nokkrar leiðir til að vinna á spennu og kvíða sem byggist upp í líkamanum. Mjög oft eru kvíði okkar áhyggjur byggðar á hugsunum um eitthvað í framtíðinni, sem við ímyndum okkur að geti gerst, en gerist yfirleitt ekki – en hér eru hugmyndir að fimm leiðum til að slaka á og draga úr spennunni.

1 – NOTAÐU VATN TIL SLÖKUNAR

Vatn er mjög tengt tilfinningum okkar og getur því virkað vel til slökunar. Flestir vita hversu slakandi það er að sitja í heitum potti eða baðkari og láta líða úr sér. Enn betra er ef hægt er að bæta Epsom salti (Magnesíum) út í vatnið. Líkaminn tekur það upp í gegnum húðin og þar sem Magnesíum er slakandi efni, hjálpar það okkur að slaka á líkamanum.

Þeir sem ekki eiga heitan pott eða eru ekki með baðkar heima hjá sér, geta slakað á undir sturtunni. Erla heitin Stefánsdóttir, píanókennari og sjáandi, kenndi fólki á námskeiðum sínum að ímynda sér, þegar það stæði undir sturtunni, að vatnið rynni inn í líkamann og út í gegnum hverja orkustöð og hreinsaði hana í leiðinni. Þessi æfing er bæði slakandi og styrkjandi.

2 – ANDAÐU EINS OG UNGBARN

Dásamlegt er að horfa á hvernig ungbörn anda. Þau eru enn ekki búin að læra að hafa áhyggjur af ótrúlegustu hlutum, heldur lifa algerlega í NÚINU og anda djúpt í kviðinn. Með því að sitja, standa eða liggja út af og anda djúpt í kviðinn eins og þau gera, er auðvelt að slaka á og komast í NÚIÐ.

Með því að gera þessa öndunaræfingu nokkrum sinnum yfir daginn er auðvelt að detta inn í slökunarástand og sleppa tökum á hugsunum um kvíða og áhyggjur. Aðalvandinn er að „sækja“ þessar hugsanir ekki aftur um leið og öndunaræfingunni er hætt.

3 – BEINDU HUGANUM AÐ EINU Í EINU

Það er hægt að gera það með því að hugleiða. Hugleiðsla hjálpar okkur að kyrra hugann og leita inn á við. Þeir sem ekki eru vanir að hugleiða og vilja leidda hugleiðslu, geta farið inn á vefsíðuna mína og náð sér í ókeypis MORGUNHUGLEIÐSLU.

Hún er einungis 6 mínútna löng, en kemur jafnvægi á hugann að morgni dags og undirbýr hann fyrir daginn.

Inni á YouTube og öðrum tónlistarveitum er hægt að finna fullt af hugleiðslutónlist, sem hægt er að nýta sér ef ekki er áhugi á leiddri hugleiðslu, en tónlistin ein og sér hefur slakandi áhrif.

4 – ÝMSIR SPENNUVALDAR

Mataræði getur haft áhrif á spennuna í líkama okkar. Þar eru fremstar í flokki fæðutegundir eins og sykur, sælgæti og mikið sykraðar matvörur, auk þess sem kaffi og alls kyns koffíndrykkir viðhalda spennu í líkamanum.

Við ímyndum okkur gjarnan að þessar neysluvörur geri akkúrat hið gagnstæða. Reyndin er hins vegar sú að þær keyra okkur upp frekar en hjálpa okkur að slaka á. Að auki hafa þær ekki góð áhrif á líkamlega heilsu okkar og því er gott að draga úr neyslu á þeim – ef við viljum virkilega slaka á.

Það er auðvitað stóra spurningin hvort það sé óskin, því margir elska að vera í þessu spennuástandi… uns það fer að hafa verulega slæm áhrif á heilsuna.

Ef fókusinn er hins vegar á slökun, er gott að sleppa þessum neysluvörum alveg, eða draga verulega úr notkun þeirra.

5 – GLEYMDU ÞÉR YFIR ÖÐRU

Það dregur oft úr innri spennu þegar maður gleymir sér yfir einhverju skemmtilegu. Hvað telst skemmtilegt hjá hverjum og einum er mismunandi, en mér detta nokkrir hlutir í hug.

Spilakvöld með fjölskyldu eða vinum er góð leið til að gleyma kvíða og áhyggjum og slaka á. Oft fylgir slíkum kvöldum hlátur og góðlátleg keppni milli þátttakenda.

Svo má alltaf dansa og það þarf ekki annað til en góða tónlist og smá pláss á eldhús- eða stofugólfinu til að sleppa aðeins fram af sér beislinu og dansa kvíða og áhyggjur í burtu.

Fyndin bíómynd, sem virkilega er hægt að hlægja yfir er líka góð leið til að halda sér í NÚINU, auk þess sem hláturinn er svo heilandi.  

Einnig getur gott púsluspil verið góð leið til að slaka á, einkum og sér í lagi ef verið er að leggja púsluna með einhverjum öðrum. Þá myndast oft svona róandi tími, þar sem hugurinn er algerlega í NÚINU og slakar á og er hvorki fullur af kvíða né áhyggjum.

MyndirCanStockPhoto.com/ photography33 / sjhuls

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram