GLÚTENLAUS PIZZABOTN

GLÚTENLAUS PIZZABOTN ÚR SÆTUM OG HAFRAMJÖLI

Ég fann þesa uppskrift í gögnum hjá mér fyrir nokkrum dögum. Ég veit ekki hvaðan hún kemur, en ég deildi henni með þátttakendum á HREINT MATARÆÐI námskeiði hjá mér, þar sem margir eru vanir að hafa pizzu á föstudögum. Einn úr hópnum, Örvar Rafn Hlíðdal, prófaði uppskrifina og líkaði bara vel. Meðfylgjandi mynd er af pizzunni sem hann gerði.

INNIHALDSEFNI: 

1 meðalstór sæt kartafla – eða 2 minni lífrænt ræktaðar
2/3 bollar glútenlausir hafrar frá Bunalun
1 egg -segir í uppskrift en það má nota 1 msk chia-fræ sem hafa legið í bleyti eða 100 ml heitt vatn með 2 tsk af Husk trefjum (fást í lausu í Nettó) ef um eggjaóþol er að ræða.
1/2 tsk himalajasalt
örlítið hvítlauksduft
1 msk ólífuolía

AÐFERÐ:

1 – Hitið ofninn í 200°C . Blandið afhýddri kartöflunni og höfrunum saman á púls stillingu í matvinnsluvél þar til blandan er jöfn og slétt.
2 – Bætið eggi (eða eggjalíki) og kryddi samanvið og blandið aftur á púls stillingu. Blandan ætti að líkjast mjúku deigi.
3 – Setjið blönduna á bökunarplötu með bökunarpappír eða í kringlótt pizzumót. Mótið botninn með höndunum svo hann verði svona 0,75-1 cm þykkur.
4 – Bakið í 25-30 mínútur eða þar til botninn er þurr viðkomu. Takið úr ofninum og látið kólna aðeins.
5 – Snúið síðan botninum við og setjið hann aftur á bökunarplötuna, penslið aðeins með ólífuolíu og bakið aftur í 5-10 mínútur til að fá stökkan top.
6 – Setjið uppáhalds áleggið ykkar á pizzuna – getið notað geitaost eða vegan ost (ef þið notið ekki mjólkurvörur) til að bræða ofan á eða sett næringarger frá Naturata ofan á pizzuna þegar áleggið er komið á hana (ath – það á ekki að bakast en gefur ostalíkt bragð) – og njótið

PIZZASÓSA ÁN TÓMATA:

2-4 dropar stevía
1 tsk himalajasalt
2 tsk paprikuduft
1 tsk malað oregano
1 tsk þurrkað basilíkum
1 tsk þurrkað timían
2 tsk laukduft
1 tsk hvítlauksduft
3 dropar af anísbragðefni eða anísduft (má sleppa)
1/2 bolli vatn

Setjið öll þurrefnin í litla skál. Blandið stevíudropum og anís saman við. Bætið svo vatninu saman við. Dreifið sósunni með gúmmísleikju á pizzabotninn, setjið álegg ofan á og bakið. Sósan dugar fyrir eina miðlungs pizzu.

Mynd: Örvar Rafn Hlíðdal

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 503 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?