GERVISÆTUEFNIN
Flestir vilja sæta matinn sinn eitthvað þótt þeir vilji sleppa sykri. Þá er leitað í gervisætuefni eða sykuralkahól, sem hefur sætt bragð en ekki sömu áhrif á líkamann og sykur og er ekki með eins margar hitaeiningar.
Hér á eftir fylgir skýring á þremur helstu gervisætunum sem eru á markaðnum og þeim gervisætuefnum sem best er að forðast.
STEVÍA ÚR STEVÍULAUFI
Í fyrsta skipti sem ég smakkaði stevíu í árið 1994, var hún dökkbrún á litinn og það þurfti einungis 1 dropa til að sæta töluvert magn af matvælum. Svona dökk var hún unnin úr heilum laufum af stevíuplöntunni og ekki fínhreinsuð, en þannig var hún notuð í Japan, Brasilíu og Kína, löngu áður en hún kom á markað í Bandaríkjunum og Evrópu.
Ljósi vökvinn úr stevíulaufinu sem við sjáum í hillum heilsuvöruverslana nú var fyrst samþykktur til sölu af FDA í Bandaríkjunum árið 2008. Hann er fínhreinsaður og í mörgum tilvikum hefur verið bætt í hann bragðefnum. Sætan úr stevíulaufinu er tvö til þrjú hundruð sinnum sætari en sykur, og því þarf MJÖG lítið af því.
Mitt fyrsta val er alltaf stevía úr stevíulaufum eins og til dæmis frá NOW. Ég les líka innihaldslýsinguna vel til að skoða hvort í henni sér erythritol, sem er sykuralkahól, því það er yfirleitt unnið úr maís og ég er með mikið óþol fyrir honum.
XYLITOL ER NÁTTÚRULEGT SYKURALKAHÓL
Þessa gervisætu er að finna í birki og nokkrum öðrum plöntum. Xylitol er næstum jafn sætt á bragðið og venjulegur hvítur sykur, en er einungis með um ¾ af hitaeiningum hans. Of mikið Xylitol – um 30-40 gr eða 7-10 teskeiðar – geta valdið niðurgangi eða haft truflandi áhrif á meltingarkerfið. Viðbrögðin fara þó alfarið eftir því hversu viðkvæmur einstaklingurinn er.
Í bakstri getur verið gott að nota Xylitol, því það þolir yfirleitt hitann í bökunarofninum vel. Til greina kemur líka að nota gervisætu eins og maltodextrin (sem er framleitt úr maíssterkju) sem gefur samskonar þenslu og sykur gerir í það sem bakað er.
ERYTRITOL ER SYKURALKAHÓL
Erythritol er í mörgum gervisætuefnum og það er líka notað í margar sykurskertar vörur. Erythritol er verksmiðjuframleitt sætuefni, en vinnsla þess hefst með vatnsrofi á sterkjunni úr maís, svo hægt sé að búa til glúkósa. Glúkósinn er síðan gerjaður með geri (yeast) eða öðrum sveppum til að búa til erythritolið.
GERVISÆTUR TIL AÐ FORÐAST
Aspartame er efst á lista yfir þær gervisætur sem gott er að forðast. Þrjár mismunandi rannsóknir leiddu í ljós að það olli krabbameini í rottum og músum. Samkvæmt International Agency for Research and Cancer, má gera ráð fyrir því að gervisæta sem veldur krabbameini í dýrum valdi einnig krabbameini í mönnum.
Sakkarín er líka á „forðist“ listanum, þar sem það er talið auka hættu á krabbameinum.
Mynd: Guðrún Bergmann
Heimildir: www.nutritionaction.com – en.wikipedia.org – www.nutritionactiion.com
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025