FULLT TUNGL Í STEINGEIT

FULLT TUNGL Í STEINGEIT

Í dag, þann 21. júlí – degi áður en Sólin fer inn í Ljónsmerkið þann 22. júlí – verður Tunglið fullt í Steingeit í annað sinn meðan Sólin er í Krabba. Fyrra fulla Tunglið varð þann 21. júní á fyrstu gráðu í Steingeit, degi eftir Sumarsólstöður.

Tunglið í dag er hins vegar á tuttugu og níu gráðum og átta mínútum í Steingeit og verður fullt hér á landi klukkan 10:16 að morgni. Þessi síðasta gráða merkisins er gjarnan kölluð gagnrýna gráðan, vegna þess að hún býður upp á tækifæri til að segja eitthvað, benda á það sem miður vel hefur farið eða draga fram leyndarmál, sem lengi hafa verið falin en þurfa að komast upp á yfirborðið.

KRABBI OG STEINGEIT

Krabbinn er umhyggjusamur og vill hugsa vel um sig og sína, en hann á oft erfitt með að tjá sig eða koma hugsunum sínum í orð og segja öðrum hvað hann þarf. Hann er tilfinningaríkt vatnsmerki og þegar að honum er sótt setur hann gjarnan upp varnarskel og dregur sig til baka eins og krabbinn í náttúrunni gerir.

Steingeitin er hins vegar táknræn fyrir stjórnvöld og stjórnkerfi, sem víða virðast vera að hrynja. Við heyrum og sjáum gagnrýni á “kerfin” allt í kringum okkur, enda er Plútó sem er táknrænn fyrir stjórkerfi og hvers konar kerfi, að yfirgefa Steingeitina á þessu ári og verður ekki í því stjörnumerki aftur fyrr en eftir um það bil 240 ár.

Plútó brýtur niður, endurmetur og endurskapar og byggir svo upp á ný. Kerfin sem koma til með að byggjast upp verða allt öðru vísi en núverandi kerfi, því Plútó er að fara inn í Vatnsberann. Flestir eru uggandi um það hvað við tekur þegar þau hrynja. Tilfinningunni má líkja við augnablikið áður en þú stekkur af stökkbretti. Þú getur enn hætt við, en veist samt að leiðin er fram á við og að þú endar með að stökkva.

SPENNA OG KRAFTUR

Þemað fyrir þetta fulla Tungl í dag er spenna og kraftur. Það nær fyllingu sinni innan við viku eftir hina öflugu samstöðu á milli plánetanna Mars og Úranusar, sem var áhrifaríkust dagana 14. til 16. júlí, þótt áhrifanna gæti yfirleitt í nokkra daga fyrir og eftir slíka samstöðu. Úranus er táknrænn fyrir hið óvænta en Mars fyrir hið öfgakennda og árásargjarna.

Að auki voru þessar plánetur í samstöðu við fastastjörnuna Algol, en hún táknar afhöfðun, eða fall þjóðhöfðingja. Afstaðan var því mjög táknræn fyrir tilræðið gagnvart Donald Trump forsetaframbjóðanda, þar sem byssumaðurinn beindi skoti sínu að höfði hans.

SAMSTAÐA PLÚTÓS VIÐ TUNGLIÐ

Á þessu fullu Tungli 21. júlí er mögnuð samstaða á milli Tunglsins á tuttugu og níu gráðum og átta mínútum í Steingeit og Plútós á núll gráðu og fimmtíu og fjórum mínútum í Vatnsberanum. Plútóníski krafturinn er oddhvass, óbilgjarn og grefur upp hlutina sem oft eru neðanjarðar eða undir því yfirborði sem við sjáum.

Það tekur Plútó um 240 ár að fara einn hring um sporbaug sinn, svo segja má að hann dvelji í hverju stjörnumerki í heila kynslóð. Hann færist fram og til baka um nokkrar gráður á ári hverju. Nú er hann um það bil að fara alveg yfir í Vatnsberann, en við þau umskipti fer hann líka fram og til baka um nokkrar gráður.

Plútó fór inn í Vatnsberinn í janúar á þessu ári, en mun fara aftur í síðasta sinn á þessum hringferli sínu núna inn í Steingeitina frá 1. september til 19. nóvember. Eftir það fer hann alveg inn í Vatnsberann þar sem hann verður næstu tuttugu árin.

Dans Plútós milli Steingeitar og Vatnsbera minnir um margt á fræga tilvitnun ítalska anarkistans Antonio Gramsci:

„Gamli heimurinn er að deyja og nýi heimurinn
á í erfiðleikum með að fæðast; nú er tími skrímslna.”

Við getum því velt fyrir okkur hvers konar heim við viljum skapa, þegar þessi kerfi sem við búum við núna hrynja. Munið að Plútó brýtur niður, endurmetur og endurskapar og byggir svo upp. Þegar hann kemur inn í Vatnsberann miðast allt við dreifða stjórn og valdið færist meira til fólksins. Við þurfum því að efla okkar eigið sjálfræði og taka völdin í eigin lífi til að geta skapað friðsælli heim með meira jafnræði manna á milli.

TUNGLIÐ OG FÓLKIÐ

Þótt Plútó færist hægt fram og til baka um sporbaug sinn, hreyfist Tunglið mjög hratt, í raun hraðast af öllum plánetunum. Tunglið og Plútó eru því aðeins í samstöðu í nokkra daga á ári hverju – og í þetta sinn þegar Tunglið er baðað fullu ljósi frá Sólinni.

Stjörnuspekilega séð endurspeglar Tunglið dýpstu tilfinningalegu þarfir okkar og viðleitni til öryggis. Þar sem það er uppljómað og í samstöðu við Plútó frá 20. til 23. júlí, getum við átt von á því að einhverjar myrkar og djúpt faldar tilfinningar leiti upp á yfirborðið. Þær geta verið óþægilegar, en líka heilandi því aðeins í ljósinu er hægt að vinna úr þeim og umbreyta þeim til betri vegar. Það má til dæmis gera með uppgjöri og fyrirgefningu. Þegar það er gert sleppum við tökum á því gamla og getum hleypt hinu nýja og kærleiksríka að.

TUNGLIÐ OG CHIRON

Tunglið er að fjarlægjast þá níutíu gráðu spennuafstöðu sem það hefur verið í við Chiron á tuttugu og þremur gráðum í Hrút. Plánetan Chiron (Kíron) er táknræn fyrir áfall eða áföll okkar í æsku eða snemma á lífsleiðinni og þau tilfinningalegu áföll sem við þurfum að vinna úr.

Allt sem hefur valdið okkur áfalli á yngri árum sest að í undirvitund okkar (djúpar faldar tilfinningar – sjá hér að ofan) og mótar hjá okkur hegðunarmynstur, sem þarf nú að heila og endurmóta. Núna er því tíminn til að vinna úr þessum áföllum.

TUNGLIÐ OG NEPTÚNUS

Tunglið á tuttugustu og níundu gráðu Steingeitar myndar í skamman tíma hvetjandi sextíu gráðu samhljóma afstöðu við Neptúnusi á tuttugu og níu gráðum í Fiskum. Sú afstaða getur verið táknræn fyrir einhvers konar hugsjónastefnu – eða blekkingu ef við sjáum ekki skýrt í Neptúnusar þokunni. Þessi tilvísun í þoku minnir mig aðeins á þykka þokuna sem ég keyrði í gegnum frá Blönduósi og niður í Norðurárdal á leið minni frá Akureyri til Reykjavíkur í fyrradag.

Eins og þið vitið getur þokan villt okkur sýn, en þokan sem við gætum verið að fara í gegnum núna getur falist í ýmis konar blekkingum, til dæmis stjórnvalda, sem vilja ekki að kerfin hrynji.

AFSTAÐAN AÐ BREYTAST

Það er búin að vera hundrað og tuttugu gráðu samhljóma afstaða á milli Tungls og Plútó annars vegar og Úranusar og Mars hins vegar, sem er nú að leysast upp. Tunglið fer að fjarlægjast Úranus, sem er nú á tuttugu og sex gráðum í Nauti. Mars fer aðeins hraðar yfir en Úranus og er nú kominn inn á núll gráðu í Tvíburunum.

Þar er Mars í samstöðu við dvergplánetuna Sedna, sem alltaf boðar umbreytingar í formi þess að við verðum að sleppa hinu gamla til að umbreytast í hið nýja. Það á við hvort sem um er að ræða okkur sjálf eða samfélagið og stjórnkerfið sem við búum við. Mars er táknrænn fyrir bæði ótta og hugrekki, kraft, árásargirni og jafnvel ofbeldi. Það verður því áhugavert að sjá hvort og þá hvernig sú orka umbreytist í samstöðu hans við Sedna.

Úranus tengist byltingu og þótt Mars og Úranus séu ekki í fullkominni samstöðu lengur, þá eru ekki nema fjórar gráður á milli plánetanna, svo samstaðan og áhrif hennar eru enn virk um sinn.

UMBREYTINGIN ER ÓUMFLÝJANLEG

Sú umbreyting sem er að eiga sér stað í heiminum er óumflýjanleg. Við vitum að hún er að eiga sér stað en við vitum ekki hver útkoman verður. Við erum hins vegar þátttakendur í umbreytingunni og með hugsunum okkar getum við sem meðskapendur haft áhrif á það sem er á gerast í heiminum.

Við getum öll unnið að innri friði, því friðurinn byrjar hjá hverju og einu okkar. Við getum hugleitt til að þjálfa upp innri ró til að geta haldið henni í gegnum öldudali breytinganna og við getum beðið fyrir friði og sent kærleiksríkar hugsanir út til heimsins sem við búum í. Þannig getum við verið meðskapendur að nýrri framtíð og nýrri Jörð.

STJÖRNUKORT – Ef þú hefur áhuga á að eignast persónulegt stjörnukort með dvergplánetunum, sem eru plánetur framtíðarinnar, geturðu pantað þér kort með því að SMELLA HÉR!

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum

Myndir: Shutterstock.com Guðrún

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram