DREKARNIR FJÓRIR

DREKARNIR FJÓRIR

Á Hátíð Drekans, sem skipulögð var af Huldustíg eða Bryndísi Fjólu Pétursdóttur og Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands, sem haldin var við Goðafoss í Skjálfandafljóti þann 18. júlí var eftirfarandi kínversk þjóðsaga sögð. Sögumaður var Þorgerður Anna Björnsdóttir,  sem kennir íslenskum börnum kínversku.  

KÍNVERSK ÞJÓÐSAGA

Endur fyrir löngu voru hvorki fljót né vötn í Kína, bara hið stóra Austur-Haf, þar sem bjuggu fjórir drekar. Þeir hétu Langi dreki, Guli dreki, Svarti dreki og Perlu dreki.

Þorgerður Anna flytur þjóðsöguna

Dag einn flugu drekarnir upp úr sjónum og svifu um himinhvolfin. Þeir flugu upp og niður – hátt og lágt – og léku sér í feluleik innan um skýin.

“Komið fljótt!” hrópaði Perlu drekinn skyndilega.

“Hvað sástu?” spurðu hinir drekarnir þrír og litu í áttina þangað sem Perlu drekinn benti. Niðri á jörðinni sáu þeir fólk sem raðaði upp ávöxtum og kökum og kveikti á reykelsi. Þau voru að biðjast fyrir. Gömul gráhærð kona, með lítið barn í burðarpoka á bakinu, kraup á jörðinni og bað; “Góði himnaguð, sendu okkur rigningu fljótt til að gefa börnum okkar hrísgrjón að borða.”

Það hafði ekki rignt í langan tíma – uppskeran visnaði, grasið gulnaði og akrarnir skrælnuðu undir steikjandi sólinni.

“Æ, aumingja fólkið, hvað það á bágt!” sagði Guli drekinn. “Þau munu deyja ef það rignir ekki fljótlega.”

Langi drekinn kinkaði kolli. Síðan lagði hann til: “Förum og biðjum Jaði keisarann um rigningu.” Um leið og hann sleppti orðinu flaug hann af stað upp í skýin og hinir drekarnir flýttu sér með, áleiðis að Himnahöllinni.

Jaði keisarinn stjórnaði öllu á himni, jörðu og í sjó og var því mjög valdamikill. Hann var ekki ánægður á svipinn þegar drekarnir komu aðvífandi: “Af hverju komið þið hingað – í stað þess að vera í sjónum og haga ykkur vel?”

Langi drekinn steig fram og svaraði: “Uppskeran á jörðu niðri er að visna og eyðileggjast, yðar hátign. Ég grátbið þig að senda niður rigningu, fljótt!

“Allt í lagi, en snúið nú heim til ykkar fyrst og ég skal senda rigningu á morgun,” sagði Jaðikeisarinn og þóttist vera sammála drekunum en var eiginlega að horfa á litla söngálfa við æfingar.

“Takk, yðar hátign!” hrópuðu drekarnir fjórir og sneru heim glaðir í bragði.

Tíu dagar liðu án þess að einn einasti regndropi félli til jarðar. Fólkið þjáðist enn meira og fór jafnvel að borða trjábörk og grasrætur.

Drekarnir urðu mjög leiðir að sjá þetta, því að þeir vissu að Jaðikeisarinn hugsaði bara um að skemmta sér – en aldrei um hag fólksins. Þeir yrðu að stóla á sjálfa sig til að hjálpa fólkinu – en hvernig ættu þeir að fara að því?

Langi drekinn leit yfir hafið og mælti: Ég fékk hugmynd!

“Hvað? Segðu okkur!” hrópuðu hinir drekarnir þrír.

“Sjáið, er ekki meira en nóg af vatni í sjónum, þar sem við búum? Við ættum að ausa því upp og úða því upp í skýin. Vatnið verður eins og regndropar – fellur niður og bjargar fólkinu og uppskerunni”

Börnin máluðu búta af drekanum sem síðan voru settir saman til að móta drekann

“Góð hugmynd!” sögðu hinir drekarnir og klöppuðu.

“En”, sagði Langi dreki eftir smá umhugsun, “við gætum lent í vandræðum ef Jaðikeisarinn kemst að þessu.”

“Ég vil gera hvað sem er, til að bjarga fólkinu” sagði Guli drekinn ákveðinn.

“Hefjumst handa!” sögðu Svarti drekinn og Perlu drekinn.

Þeir flugu út að sjónum, steyptu sér niður með opin ginin og fylltu munninn af vatni. Svo flugu þeir aftur upp í himininn og spúðu vatninu yfir jörðina. Þeir flugu fram og aftur, og sóttu alltaf meira vatn svo það var orðið mjög þungskýjað og grátt yfir. Áður en langt um leið varð sjóvatnið að regndropum sem féllu til jarðar.

“Það rignir! Það rignir! – Uppskeran bjargast!”

Fólkið grét og hoppaði af gleði.

Í moldinni lyftu nú hveitistönglarnir höfði og kornplönturnar réttust við.

Sjávarguðinn sá hvað gerðist og tilkynnti Jaðikeisaranum.

“Hvernig dirfast drekarnir fjórir að setja af stað rigningu án míns leyfis?!” Jaðikeisarinn varð bálreiður og fyrirskipaði varðmönnum sínum að handtaka drekana fjóra.

Varðmennirnir náðu fljótt drekunum fjórum, handtóku þá og fóru með þá í himnahöllina.

“Farðu og sæktu fjögur fjöll sem við getum lagt ofan á hvern þeirra” skipaði keisarinn Guði fjallanna.

Guð fjallanna notaði galdramátt sinn og lét fjögur fjöll svífa til þeirra með því að blístra upp í vindinn sem barst langar leiðir. Hann þrýsti einu fjalli ofan á hvern dreka svo nú gátu drekarnir fjórir sig hvergi hreyft.

Þótt þeir væru nú fangar, undir fjöllunum, sáu drekarnir ekki eftir neinu. Þeir voru ákveðnir að reynast fólki áfram vel og breyttu sjálfum sér í fjögur fljót sem streymdu út úr háum fjöllunum og í gegnum djúpa dali. Fljótin renna þvert í gegnum landið frá vestri til austurs, alla leiðina út í Austur-Haf.

Þannig mynduðust hin fjögur stórfljót Kína; Heilongjiang (Svarta dreka fljót) lengst í norðri, Huanghe (Gula áin) í miðju Kína, Changjiang (oft kallað Yangzi eða Langafljót)lengra suður og Zhujiang (Perlufljót) alveg syðst í landinu.

Fljótin eru lífæðar fólksins í landinu og viðhalda frjósemi jarðarinnar.

Myndir: Frá hátíðinni og Freepik.com

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Deila áfram