EINU SINNI Á 166 ÁRA FRESTI

EINU SINNI Á 166 ÁRA FRESTI

Einu sinni á 166 ára fresti mætast pláneturnar Júpiter og Neptúnus í Fiskamerkinu. Það gerist næst þann 12. apríl, en stjörnuspekingurinn Pam Gregory kallar þetta einhverja fallegustu afstöðu ársins. Saman eru þessar plánetur í Fiskunum táknrænar fyrir hið dulræna og dulmagnaða – en líka svo margt annað.

Samstaðan verður á 21° og 25 mínútum í Fiskum. Þeir sem eru með plánetur á 21°- 23° í hinum vatnsmerkjunum, það er að segja í Sporðdreka og Krabba, geta átt eftir að finna mikið fyrir þessari samstöðu – en hún mun líka hafa áhrif á alla aðra.

JÚPITER FER HRINGINN Á 12 ÁRUM

Júpiter og Neptúnus eru mismunandi lengi að fara einn hring um Jörðina. Júpiter tekur 12 ár í að fara hring um Jörðina og þar með í gegnum stjörnukortið. Hann er því í yfirleitt í sérhverju merki og húsi stjörnukortsins í eitt ár. Sjá grein um TÓLF HÚS STJÖRNUKORTANNA

Einfalt er að fylgjast með áhrifum Júpiters því honum fylgir mjög oft velgengni og útþensla eða þá að við lærum að meta hlutina í lífi okkar á nýjan máta. Honum getur líka fylgt viðurkenning á einn eða annan máta og Júpiter fylgir yfirleitt jákvæð orka þegar hann fer í gegnum hvert merki fyrir sig.

NEPTÚNUS FER HRINGINN Á 165 ÁRUM

Neptúnus tekur hins vegar 165 ár í að fara einn hring í kringum Jörðina – og þess vegna húsin í stjörnukortunum. Hann er því mun lengur í hverju húsi og stjörnumerki eða í kringum fjórtán ár. Áhrif hans eru því ekki eins áberandi og áhrifin frá Júpiter, sem eru mjög skýr.

Þessar plánetur hittast alltaf þrettánda hvert ár, en ekki endilega í Fiskamerkinu. Staðreyndin er sú að það gerist einungis á 166 ára fresti. Síðast voru þær í samstöðu  á 18° í Fiskamerkinu árið 1856.

HVAÐ GERÐIST 1856?

Með því að líta til baka og skoða hvað gerðist árið 1856, sjáum við áhrifin sem urðu þá og getum spáð í hver þau verða nú. Fiskurinn er táknrænn fyrir óheft eða óhamið vatn og Neptúnus fyrir hafið. Júpiter þenur svo hlutina út – og hvað gerðist árið 1856? Meðal annarra hluta sem áttu sér stað það ár var mikið af stórflóðum í Evrópu, einkum í Frakklandi – svo líkur eru á að við megum vænta flóða nú, jafnvel líka táraflóða.

Neptúnus tengist umbreytingarástandi og ef við förum aftur til ársins 1856 og skoðum hvað var að gerast þá, hafði spíristista (spiritualist) hreyfingin farið af stað tíu árum fyrr. Þegar kom að árinu 1856 „flæddi“ hún um allt og fólk sótti fundi með ýmsum andlegum leiðbeinendum og beið í röðum eftir að komast á miðilsfundi – en nú megum við öll vænta aukins persónulegs næmis.

JÁKVÆÐ ÁHRIF SAMSTÖÐUNNAR

Þessari samstöðu fylgir undurfögur og fíngerð orka á mjög hárri tíðni. Hún er töfrandi, dulmögnuð og undursamleg, nokkurs konar kraftaverkaorka og tengist því að snerta hið dulmagnaða og guðlega í lífinu.

Þessi orka kemur til með að geta magnað upp hæfileika okkar til að gera hluti að raunveruleika. Samstöðunni fylgir helg orka sem minnir okkur á að allir hlutir eru tengdir. Allar mannverur eru samtengdar, en við virðumst hafa tapað sjónum á því síðustu tvö árin, þar sem aðgreining og aðskilnaður hafa tröllriðið öllu.

Þessi samstaða mun leiða til þess að fleiri koma til með að vilja hafa meiri andlegan tilgang í lífi sínu og endurheimta þá EININGU sem við höfum tapað. Líklegt er að dulskyggni eða dulskynjun eflist vegna alls Photon LJÓSSINS sem streymir inn til Jarðar og  örvar heilaköngul okkar.

Þar sem samstaðan er einungis þremur vikum á eftir Jafndægrum í Hrút, en þau eru upphafið á stjörnuspekiárinu, er tjaldið á milli sviðanna þynnra og orkan því magnaðri.

ÓSKILYRTUR KÆRLEIKUR

Við eigum eftir að fá risamikinn andlegan drifkraft, líkt og um andlega „tsunami“ flóðöldu sé að ræða í kringum þessa samstöðu milli Júpiters og Neptúnusar.  Hún á eftir að auka næmi okkar og dulskynjun, gera okkur kleift að stunda hugsanaflutning og skynja með tilfinningum okkar hvar aðrar mannverur eru staddar á bak við orðin.

Þessari afstöðu fylgir óskilyrtur kærleikur og orkan frá bæði Fiskunum og Neptúnusi kemur til með að ýta við okkur að sýna meiri trúrækni eða tilbeiðslu. Að við leysum upp egóið og tengjum okkur við eitthvað sem er stærra en sjálfið.

Fiskarnir eru merki hins andlega leitanda og hægt er að birta þá andlegu eiginleika með því að setjast að í helli og senda þaðan óskilyrtan kærleik um heiminn, eða senda þá kærleiksorku til annarra í gegnum tónlist, í riti eða ræðu – í listaverkum eða ljóðum. Hvaða leið sem verður fyrir valinu, er þetta dásamleg afstaða til að koma kærleikanum skýrar á framfæri.

Júpiter er líka mikill hugsjónamaður og tengist framtíðinni. Hann vill teygja sig út í kosmósið og leyfa sér að dreyma stóra drauma, stærri en við höfum áður talið mögulega. Vegna þeirrar andlegu fljóðbylgju sem fylgir þessari samstöðu Júpiters og Neptúnusar hellist yfir okkur ný orka og nýir möguleikar – og ekki bíða eftir morgundeginum, því við erum nú þegar í þessari orku og hún mun fylgja okkur í langan tíma eftir samstöðuna.

AÐ SJÁ UNDIR YFIRBORÐIÐ

Með því að skoða Fiskana sem eru vatnsmerki, Júpiter sem þenur allt út og Neptúnus sem stjórnar Fiskunum og var konungur hafsins má gera eftirfarandi myndlíkingu. Ef þú hefur einhvern tímann kafað eða snorklað í heitum sjó, hefurðu væntanlega fengið þessa VÁ! tilfinningu þegar þú fórst fyrst undir yfirborð sjávar – því það sem þú sást var einfaldlega ótrúlegt. Undir yfirborðinu er nefnilega heill heimur af lífi, litum, plöntum og fiskategundum, sem þú hafðir ekki séð áður.

Þessi heimur undir yfirborði sjávar var alltaf þarna. Þú hafðir bara ekki séð hann fyrr, en þegar þú sást undir yfirborðið, var eins og þú breyttir um vídd, skynjun og skilning og við þér blasti þessi dásamlega veröld sem hafði verið þér hulin, bara af því að þú sást hana ekki.

Samstaða Júpiters og Neptúnusar þann 12. apríl snýst einmitt um breytingu á skynjun og skilningi, vídd og tíðni. Hún snýst um mikla umbreytingu upp á hærri tíðni fyrir okkur öll. Takist okkur að sigla á þessari andlegu öldu getur það haft verulega umbreytingu á tíðni okkar – og samfara því opnast okkur nýr heimur.

MIÐUR JÁKVÆÐU ÁHRIFIN

Ýmis miður jákvæð áhrif tengjast þessari samstöðu Júpiters og Neptúnsuar í Fiskamerkinu. Þau eru meðal annars flóð, ýmis eituráhrif og mengun vatns sem gætu komið upp. Neptúnusarorkan getur líka tengst ringulreið eða glundroða og dáleiðsluástandi – og Júpiter getur þanið það dáleiðsluástand og þá sjálfsblekkingu út í samfélaginu.

Neptúnus tengist lygum, svikum og því að hlutirnir eru ekki eins og þeir virðast vera. Júpiter getur þanið slíkt út – en hann býr líka yfir þeim eiginleika að opna fyrir og afhjúpa lygana, svikin og opinbera spillinguna. Framundan getur því verið mikill opinberunartími.

Neptúnus tengist einnig lyfjaframleiðslu og öllum eitrunum sem kunna að tengjast henni. Við gætum því orðið vitni að því að Júpiter myndi opna fyrir og afhjúpa þá ormagryfju.

Neptúnus er líka tengdur olíu og þar af leiðandi bensíni á bílana okkar. Í hvert sinn sem Neptúnus og Júpiter eru í samstöðu er engu líkara en það myndist mikil blaðra, sem getur tengst verðbólgu, til dæmis í kringum bensín, en bensínverð hefur hækkað mikið á síðustu vikum og mánuðum.

Þessi grein er byggð á útdrætti úr skýringum Pam Gregory stjörnuspekings á samstöðunni milli Júpiters og Neptúnusar í Fiskamerkinu þann 12. apríl árið 2022. Fullt leyfi er fyrir þýðingu á skýringum hennar. Skýringarnar í heild sinni er hægt að finna inni á YouTube rásinni Pam Gregory Astrologer.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn ef þú hefur áhuga á að fá reglulega sendar greinar með fræðslu um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til að vernda og styrkja heilsuna.

Heimildir: Pam Gregory stjörnuspekingur – www.thenextstep.uk.com

Mynd: Omkar Jadhav á Unsplash

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 586 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram