VIÐBRÖGÐ ÓNÆMISKERFISINS VIÐ COVID-19

VIÐBRÖGÐ ÓNÆMISKERFISINS VIÐ COVID-19

Ég hef varið síðustu dögum í að hlusta á fyrirlestra og lesa greinar um Covid-19 til fræðast um áhrif vírusins á líkamann, hvað er mikilvægast til varnar og af hverju sumir ná sér en aðrir ekki.

Í grein á vefsíðunni Elemental-Medium er fjallað um mismunandi einkenni hjá þeim sem smitast og mismunandi viðbrögð ónæmiskerfisins. Einkenni sumra líkjast vægu kvefi, á meðan aðrir lenda á sjúkrahúsi eða jafnvel deyja vegna þess að lungu þeirra verða svo bólgin og fyllast af vökva.

ÓNÆMISKERFIÐ RÆÐUR MESTU MÁLI

Þótt vísindamenn standi enn ráðþrota gagnvart þessum nýja kórónavírus, kemur sífellt betur í ljós að ónæmiskerfið ræður mestu um það hvort þú náir þér ef þú smitast af vírusnum eða deyrð af honum.

Svo virðis sem flest dauðsföll tengd kórónavírusnum verði vegna þess að ónæmiskerfið sýnir ýkt viðbrögð, ekki vegna vírusins sjálfs. Svo hvað gerist í líkama þínum þegar þú færð vírus og hverjir eru í meiri hættu á slæmri sýkingu en aðrir?

HÓSTI EÐA NIÐURGANGUR

„Það sem venjulega gerist er að það kemur tímabil þar sem vírusinn kemur sér fyrir í líkamanum og líkaminn byrjar að bregðast við honum. Við vísum þá yfirleitt til þess sem mildra einkenna,“ segir Mandeep Mehra læknir og prófessor við læknadeild Harvard háskóla og yfirmaður hjarta- og æðasjúkdómadeildar við Brigham and Woman‘s sjúkrahúsið. „Fólk fær hita. Ef vírusinn sest að í öndunarfærunum færðu hósta. Ef hann sest að í slímhúð þarma og ristils, færðu niðurgang.“

Sótthiti er yfirleitt merki til annarra hluta líkamans um að hann hafi orðið yfir árás. Hóstinn og niðurgangurinn eru hins vegar leið líkamans til að losa sig við veiruna.

FESTIR SIG VIÐ ACE2 MÓTTAKA

Þessi nýi kórónavírus kemst inn í frumurnar með því að hengja sig á sérstakt prótein sem kallast ACE2 móttaki og situr á yfirborði frumna. Mest er af þessum móttökum í lungunum og þess vegna telst Covid-19 vera öndunarfærasjúkdómur. Næstmestan fjölda ACE2 móttaka er að finna í þörmunum, sem skýrir hvers vegna margir sem smitast fá niðurgang.

„Vírusinn smitast með dropasmitun og ef hann kemur inn í gegnum munninn, fer hann niður í munnkok. Þaðan getur hann annað hvort farið niður í lungu þegar þú andar að þér, en ef þú bregst við með því að kyngja, þá fer hann niður í maga,“ segir Mehra. „Þannig getur hann haft áhrif á bæði þessi svæði líkamans.“

ÓNÆMISKERFIÐ TEKUR ÞÁ VIÐ

Náttúruleg viðbrögð ónæmiskerfisins eru að koma böndum á vírusinn og koma í veg fyrir að hann fjölfaldi sig á miklum hraða, áður en sérhæft varnarsvar ónæmiskerfisins hefur tíma til að bregðast við og hefta útbreiðslu hans.

Hjá sumum fjölfaldar vírusinn sig og dreifir sér hratt, áður en ónæmiskerfið nær tökum á honum. Ein ástæða þess getur verið að of mikið magn af vírusum komist í líkamann á stuttum tíma. Því fleiri sem vírusarnir eru, þeim mun erfiðara er fyrir líkamann að ráða við sýkinguna.

Önnur ástæða þess að líkaminn missir tök á vírusnum, felst í ónæmiskerfinu sjálfu. Yfirleitt eru þeir sem eldri eru með skertar ónæmisvarnir, þar sem yfirleitt dregur úr styrk ónæmiskerfisins með aldrinum.

Þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eru líka með skertar ónæmisvarnir – sjá greinina: ÓNÆMISKERFIÐ ÞARF AÐ VERA ÖFLUGT – og þá eru viðbrögð ónæmiskerfisins of hægvirk, þannig að vírusinn nær að dreifa sér frá frumu til frumu áður en ónæmiskerfið fer að grípa inn í.

CYTOKINE STORMURINN

Ef vírusinn tekur sér bólfestu í lungum getur það leitt til lungnabólgu, samhliða því að fleiri og fleiri frumur sýkjast og bólga eykst. Vírusinn er ábyrgur fyrir hluta af skaðanum, en ónæmiskerfið sjálft getur líka valdið skaða þegar það er að reyna að eyðileggja og losa líkamann við þessar sýktu frumur.

Þegar hér er komið sögu getur sjúkdómurinn farið í tvær áttir: Ónæmisvarnirnar geta verið stöðugar og náð tökum á vírusnum og yfirunnið hann með T-frumum og mótefnum. Eða ónæmiskerfið getur farið á yfirsnúning og sýnt ýkt viðbrögð, með því að framleiða með ógnarhraða meira og meira af bólgumyndandi próteinum sem kallast cytokines (frumuboðefni), í örvæntingarfullri tilraun til að drepa vírusinn. Síðari leiðin veldur miklum frumudauða í lungum og getur leitt til aukinnar sýkingar, öndunarörðugleika og jafnvel dauða.

„Þeim sem farnast verst og geta látist eru þeir sem fá þessi ýktu viðbrögð – cytokine storminn,“ segir Warner Greene, MD og PhD, yfirmaður Gladstone Center for HIV Cure Research og prófessor í örverufræði og ónæmisvörnum við Kalifornínuháskóla í San Francisco. „Lungun fyllast af vökva og þeir geta ekki súrefnisbundið, eða þeir fá blóðeitrun og geta ekki viðhaldið blóðþrýstingi og deyja. Öll þessi viðbrögð eru aðallega drifin áfram af eða mögnuð upp af ónæmiskerfinu.“

D-VÍTAMÍN STYRKIR ÓNÆMISKERFIÐ

Í viðtali við bandaríska lækninn Tom O‘Bryan (www.TheDr.com), sem stundað hefur heildrænar lækningar í mörg ár, á Our Health Talks nú um helgina lagði hann mikla áherlsu á að viðbrögð okkar hvers og eins við vírusnum byggðust númer eitt, tvö og þrjú á því hversu öflugt eða skert ónæmiskerfi okkar væri.

Hann talaði líka um að ef ónæmiskerfið væri skert, væri það lengi að bregðast við, meðal annars út af D-3 vítamínskorti. Þegar það loks næði að bregðast við væri það á svo kröftugan hátt að það myndaðist cytokine stormur í líkamanum.

D-3 er því að hans mati eitt mikilvægasta bætiefnið til að efla ónæmiskerfið og þá er hann að tala um 4-6.000 iu af D-3 vítamíni á dag. Bæði má taka það inn sem bætiefni eða sitja/ganga úti í sólinn án sólarvarnar í 15-30 mínútur þegar hennar nýtur við. Þar sem við búum ekki í sólríku landi, myndi ég halda að bætiefnakosturinn væri vænlegri fyrir flesta.

Hitt bætiefnið sem Dr. Tom O’Bryan hvetur fólk til að taka til að styrkja ónæmiskerfið, samhliða D-3 vítamíni er C-vítamín.

Mynd: CanStockPhoto.com / Arsgera

Heimildir: Grein Dana G. Smith á Elemental-Medium

Viðtal við Tom O‘Bryan lækni á OUR HEALTH TALKS

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 609 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram