VALENTÍNUSARDAGURINN

VALENTÍNUSARDAGURINN

Í dag er Valentínusardagurinn og þótt hefðin í kringum hann hefði upprunalega orðið til í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem fólk sendi óundirskrifuð kort til þess sem það var ástfangið af, hefur hún svo sannarlega breyst og breiðst út um heiminn.

Nú eru það blóm, krúttlegar gjafir með hjörtum á, hjartalaga púðar og annað í þeim stíl sem fólk gefur hvort öðru, ef það á annað borð gefur einhverjar gjafir eða gerir eitthvað með daginn.

KÆRLEIKSRÍKAR TILFINNINGAR

Sem betur fer er þessi dagur ekki sá eini, sem við getum nýtt til að tjá kærleiksríkar tilfinningar okkar, en hann er samt góð áminning til þeirra sem segja ekki oft: “Ég elska þig”, við maka sinn, sambýling eða börn að nota þessi orð í dag.

Mikil breyting hefur orðið á tjáningu kærleiksríkra tilfinninga frá því ég var barn. Þá var yfirleitt ekki verið að eyða orðum í að tjá tilfinningar sínar mikið, en í dag heyrir maður foreldra mun oftar segja við börnin sín að þau elski þau, enda er fólk almennt mun opnara í að tjá tilfinningar sínar nú til dags.

Þetta með – “Þú veist ég elska þig” – og þarf því ekki að eyða mörgum orðum í að endurtaka það aftur og aftur, dugar nefnilega yfirleitt ekki, hvorki fyrir börn né fullorðna. Við þurfum að heyra þessi orð reglulega og kannski enn frekar skynja tilfinningarnar sem fylgja þeim. 

Hjartatenging hefur sjaldnar verið mikilvægari en núna, þegar við erum að halda inn í ÖLD KÆRLEIKANS.

KÆRLEIKUR Í EIGIN GARÐ

Það er einnig mikilvægt að tengjast sínu eigin hjarta og bera í brjósti kærleik í eigin garð. Það er dásamlegt að vera elskaður af öðrum, en það er ekki síður dásamlegt að elska sjálfan sig, nákvæmlega eins og maður er hverju sinni.

Það að elska sjálfan sig tengist á engan hátt sjálfselsku, heldur þvi að við erum sátt við okkur eins og við erum og líður vel í eigin skinni. Ef þú hefur engan í lífi þínu til að tjá þér ást sína, er gott að standa fyrir framan spegil og segja við sjálfan sig: “Ég elska þig!”

Ég hef í rúm þrjátíu ár verið að kenna fólki einmitt þetta einfalda, að læra að elska sig sjálft. Enn þann dag í dag heyri ég frá þátttakendum á námskeiðum mínum að það sé erfitt að segja þetta við spegilmynd sína. Ef við eigum erfitt með að elska okkur sjálf, en væntum þess að aðrir elski okkur – er þá ekki eitthvað bogið við þá mynd?

NÝTTU DAGINN

Hvort sem þú heldur upp á Valentínusardag eða ekki er frábært að nýta daginn til að tjá öðrum ást sína. Ef þér finnst erfitt að segja “Ég elska þig” – notaðu þá orð eins og “Mér þykir svo vænt um þig”. 

Við berum oft sterkar tilfinningar í brjósti til einhverra í fjölskyldu okkar, en segjum þeim ekki frá því fyrr en í minningargreinum sem við skrifum að þeim látnum. Ég er fullviss um að þeim orðum er betur varið í að segja viðkomandi frá því í lifanda lífi – og að þau orð munu gleðja viðkomandi mikið þegar hann heyrir þau.

NÚNA er alltaf besti tíminn til að sýna sjálfum sér ást og virðingu, fagna hverjum degi og leyfa öðrum í lífi okkar að heyra að þeir séu elskaðir.

Myndir: CanStockPhoto/ kristypargeter/Leaf

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 601 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram