FULLT TUNGL Í OKTÓBER

 FULLT TUNGL Í OKTÓBER

Fyrstu ellefu dagana í október erum við í orkunni frá síðustu nákvæmu spennuafstöðunni á milli Satúrnusar og Úranusar, en þessar plánetur hafa verið í 90° spennuafstöðu meira og minna allt þetta ár og það síðasta. Orka þeirra er táknræn fyrir árekstur á milli hins gamla og hins nýja. Milli fortíðar og framtíðar, miðstýringar eða valddreifingar, svo og alls annars sem þessar plánetur eru táknrænar fyrir.

UMRÓT Í FJÁRMÁLAHEIMINUM

Sögulega séð er þessi spennuafstaða mjög tengd umróti í fjármálaheiminum. Síðasta spennuafstaða á milli Satúrnusar og Úranusar varð í september, október og nóvember árið 2008 – og við munum öll hvað gerðist á þeim tíma. Þá var um að ræða 180° spennuafstöðu á milli þessara pláneta, en nú er um að ræða minnkandi 90° spennuafstöðu, nokkurs konar lokaafstöðu í þessu ferli.

Því má vænta umróts í fjármálakerfum heims. Úranus er í Nauti fram til 2026, en hann er mjög áberandi núna vegna þess að hann er bæði í spennuafstöðu við Satúrnus og í samstöðu við Norðurnóðuna.

FJÁRMÁLAÖXULLINN

Norðurnóðan er í Nauti og Suðurnóðan í Sporðdreka, en þessi 180° spennuafstaða á milli Nóðanna er almennt kölluð fjármálaöxullinn innan stjörnuspekinnar. Nautið tengist peningum, auðæfum og gjaldmiðlum. Sporðdrekinn tengist stórum fjárhæðum, fjárfestingum, leyndum eða földum auðæfum, lánum, húsnæðisskuldum, lífeyrissjóðum og þess háttar.

Við erum að losa okkur við allt sem er okkur ekki lengur fyrir bestu í gegnum Suðurnóðuna (táknræn fyrir fortíðina) í Sporðdreka, einkum allt það innan fjármálakerfisins sem kann að tengjast eitrunum, en Sporðdrekinn er mjög tengdur hvers konar eitrunum. Þessar eitranir geta tengst líkömum okkar, efnaeitrunum, jafnvel eitruðum hugsunum okkar – en í þessu tilviki eru þær líklegar til að tengjast eitruðu ástandi í fjármálakerfinu, sem er nú að koma upp á yfirborðið. 

UMSKIPTI Í OKTÓBER

Það verða mikil umskipti í orkunni í október, vegna þess að margar plánetur sem hafa verið á ferð aftur á bak um sporbaug sinn breyta nú um stefnu. Merkúr stöðvaðist 2. október til að breyta um stefnu og fara beint fram á við. Slíkt hið sama gerir Plútó 8. október og þann 23. október kemur svo Satúrnus til með að stöðvast til að breyta um stefnu og fara fram á við.

Bæði Satúrnus og Plútó munu á ferð sinni fram á við þrýsta hlutum áfram fram í mars á næsta ári, en þá skipta báðar pláneturnar um störnumerki. Satúrnus fer úr Vatnsberanum inn í Fiskana og Plútó úr Steingeit inn í Vatnsberann og við þau umskipti verða áþreifanlegar breytingar.

Líklegt er að hrun hins gamla gerist mjög hratt næstu tvo mánuði, en það niðurbrot hefur tilgang, því án þess komumst við ekki í gegn inn í nýtt fyrirkomulag hlutanna. Mikilvægt er að muna hver heildarmyndin er – en hún er stærsta framþróunarstökk mannkyns hingað til. Því koma til með að fylgja óþægindi og áskoranir en með heildarmyndina í huga komum við til með að komast í gegnum þær.

SPENNA Í KRINGUM PLÚTÓ

Plútó verður á 26° í Steingeit allan október og borar sig þar niður. Þegar ytri plánetur eins og Plútó, breyta um stefnu eru þær eins og risastórt skip sem er að snúa sér, hreyfast hægt, þar til þær eru komin í rétta stefnu og halda svo rólega af stað í nýja átt.

Táknmynd plánetanna magnast alltaf upp í kringum breytingar á stefnu og við megum eiga von á að það sem Plútó er táknrænn fyrir birtist á sviði heimsins, til dæmis í gegnum fastheldni þjóðarleiðtoga eða ríkisstjórna á völd sín og áframhaldandi valdatafl víða um heim.

Ef þið eruð með einhverjar plánetur eða afstöður á milli 25°-27° í Kardinála merkjunum sem eru Vog, Steingeit, Hrútur og Krabbi, komið þið til með að finna fyrir spennu eða stjórnun (höftum) á einhverjum sviðum lífsins. Skoðið endilega hvort þetta eigi við um ykkar stjörnukort.

FULLT TUNGL Í HRÚT

Framundan er myrkvatímabil, því það verður Sólmyrkvi þann 25. október og almyrkvi á Tungli þann 8. nóvember. Myrkvum fylgja viðvarandi breytingar og þeir eru mjög líklegir til að verða í fjármálaheiminum á ýmsan máta. Verið viðbúin því og þótt ferlið kunni að vera tætingslegt, er tilgangur þess að koma okkur á betri stað í heiminum.

Tunglið verður fullt þann 9. október á 16° og 32 mínútum í Hrút kl. 20:54 í Reykjavík. Við fullt Tungl eru Sól og Tungl alltaf í 180° andstöðu við hvort annað, svo Sólin er í Vog. Hrúturinn er stríðsmerki sem tengist hugrekki, áræðni og brautryðjendakrafti og við sem erum á Jörðinni núna, erum brautryðjendur fyrir Nýja Jörð. Hrúturinn tengist líka seiglu og þetta er árið þar sem við komumst að raun um að við búum yfir miklum styrk, hugrekki og seiglu.

Við ættum því að vera stolt af okkur sjálfum þegar við komum til með að líta til baka til þessa tímabils. Stolt af hugsunum okkar og gjörðum, því við erum sem brautryðjendur að skapa arfleifð fyrir þá sem á eftir koma. Skilningur á brautryðjendahlutverki okkar hjálpar okkur að setja það sem nú er að gerast í annað samhengi.

AFSTÖÐURNAR

Spennuafstaðan á milli Eris á 24° 32 mínútum í Hrút og Plútó á 26° og 6 mínútum í Steingeit – en Plútó sem er í kyrrstöðu þegar Tunglið verður fullt – er hlaðin stríðsorku. Plútó er með sína sterkustu birtingu, því hann er í kyrrstöðu og þá magnast allt sem honum fylgir upp. Við megum því eiga von á að sjá mikið af einbeittu valdi í heiminum í kringum þetta fulla Tungl.

Því er mikilvægt að halda innri friði og ró, vegna þess að því fleiri sem gera það, þeim mun auðveldara verður fyrir okkur að fara í gegnum þetta tímabil. Eins og oft hefur komið fram, snýst þessi spennuafstaða um árekstra milli einstaklinga, þar sem Eris vill að hlustað sé á alla og enginn skilinn eftir útundan – í baráttu við óréttlæti og misrétti – frá stjórnvöldum að ofan sem Plútó er táknrænn fyrir.

FRIÐARMÖGULEIKAR

Hér eru líka möguleikar á friði, því þótt Tunglið í Hrút sé merki stríðsmannsins, þá er Sólin í Vog sem er merki friðarins. Þess vegna er möguleiki á einhverjum friðarsáttmála í kringum þetta fulla Tungl. Því meira sem við leggjum okkur fram um að halda innri friði og biðja fyrir friði, því meiri líkur eru á að hann náist. Þótt afstaða stjarnanna sér hagstæð þurfum við að skapa friðinn með hugarorku okkar, til að hann verði að veruleika.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.

Í væntanlegri bók minni LEIÐ HJARTANS fjalla ég ýtarlega um þær umbreytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum nú og á næstunni, hvernig þær tengjast plánetum og sólum Alheimsins og hvað við getum gert til að auðvelda okkur breytingaferlið.

Ef þú hefur áhuga á að fá stjörnukort og lestur í það geturðu pantað tíma og kort með því að senda póst á gb@gudrunb.is .

Myndir: CanStockPhoto.com / mythja / Andreus

Heimildir: Útdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory, sem þýddar eru með hennar leyfi. Skýringar hennar í fullri lengd má finna á Youtube rás hennar. Sjá einnig vefsíðu hennar: www.pamgregory.com

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 589 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram