FULLT TUNGL Í LJÓNSMERKINU

FULLT TUNGL Í LJÓNSMERKINU

Lestrartími: 5 mínútur og 20 sekúndur

Áður en fjallað er um orkuna frá fulla Tunglinu er rétt að gera aðeins grein fyrir Plútó og Satúrnusi, en báðar þessar plánetur eiga væntanlega eftir að hafa mikil áhrif á næstunni.

Byrjum á Plútó sem er hægt og sígandi að nálgast Vatnsberann, en hann fer hægt yfir og á því eftir að vera á tuttugustu og níundu gráðunni í Steingeit frá 11. febrúar til 23. mars. Umskiptin verða mikil þegar hann fer inn í Vatnsberann, því það tekur Plútó 246-248 ár að fara einn hring um sporbaug sinn og þess vegna hefur hann ekki verið í þessu merki frá því árið 1798.

PLÚTÓ Á SÍÐUSTU GRÁÐUNNI

Tuttugasta og níunda gráðan í hverju merki er gagnrýna gráðan, einkum þegar ytri pláneturnar eru að fara í gegnum hana og þær hafa tilhneigingu til að draga upp á yfirborðið skuggahliðar viðkomandi merkis. Helstu þemu Steingeitarinnar, einkum undanfarin þrjú ár, hafa verið valdhafar sem stjórna að ofan og niður, með sínum reglum og reglugerðum og miklum takmörkunum.

Þess vegna megum við búast við því að frá 11. febrúar til 23. mars, og svo aftur í júní, júlí og síðla í desember – og nokkrum sinnum árið 2024, reyni valdhafar að gera tilraun til að beita takmörkunum, en þær koma til með að hafa lítil áhrif vegna þessara umskipta yfir í orku Vatnsberans.

Plútó er pláneta valdsins/kraftsins og hann er að fara úr Steingeitinni, en hún er táknræn fyrir valdstjórn að ofan frá ríkisstjórnum, stofnunum og stórfyrirtækjum – yfir í Vatnsberann, sem er táknrænn fyrir frelsið og fólkið. Það þýðir ekki að valdið fari yfir til fólksins á einum degi, viku eða mánuði – heldur verða þetta langtíma umskipti sem munu standa yfir til ársins 2044. Við eigum eftir að sjá og finna fyrir því í heimi okkar – og það mun bætast við hina uppreisnargjörnu orku frá Úranusi, sem sjá má nú þegar um allan heim.

SATÚRNUS Í FISKUM

Þann 8. mars næstkomandi fer Satúrnus inn í Fiskana og því mun fylgja greinileg orkubreyting. Satúrnus býr yfir herpandi og takmarkandi orku, lokunum og raunveruleikatékki – og hefur þau áhrif á það stjörnumerki sem hann er í hverju sinni.

Sem dæmi má nefna að þann 22. mars 2020 – fór Satúrnus inn í Vatnsberann, en Vatnsberinn er táknrænn fyrir frelsið. Hvað gerðist þann 23. mars nánast um allan heim? Nánast öllum löndum var lokað. Sem sagt samdráttur og takmörkun á frelsi og lokanir til langs tíma.

Satúrnus hefur reyndar líka aðrar birtingarmyndir og hann á eftir að vera í Fiskunum fram í febrúar árið 2026. Fiskarnir tengjast tálsýn, sjálfsblekkingu og ranghugmyndum, einnig leikhúsum, kvikmyndum og myndböndum.

Þeir eru líka mjög tengdir fjölmiðlum og lyfjum og lyfjafyrirtækjum sem framleiða þau – og í raun alls konar lyfjum og fíkniefnum. Lægsta birting Fiskanna tengist líka svikum og alls konar lygum – svo þegar Satúrnus fer inn í Fiskana, kemur hann til með að hafa herpandi og takmarkandi áhrif á allt það sem talið hefur verið upp hér að framan.

ORKAN Í KRINGUM FULLT TUNGL

          Kortið miðast við Reykjavík

Tunglið verður fullt þann 5. febrúar klukkan 18:28 (GMT tíma) hér á landi á sextán gráðum og 40 mínútum í merki Ljónsins. Fullu Tungli fylgja oft hápunktar eða endalok einhvers, sem ráðast af því í hvaða húsi þessar gráður í Ljóni lenda í persónukortum einstaklinga/þjóða – eða að Tunglið beinir LJÓSI sínu að einhverju sem hulið hefur verið fólki.

Þetta Tungl gæti beint LJÓSI sínu að leiðtogahlutverkum í heiminum þar sem Ljónið er tengt því hlutverki. Þetta er fimmta fulla Tunglið af sjö sem lendir á 16 gráðum í merkinu sem það er í. Sextánda kortið í Tarot spilastokknum er fallandi Turn og mannkynið er svo sannarlega að fara í gegnum hrun Turnsins einmitt núna.

Orkan frá Tunglinu hraðar öllu og við eigum eftir að verða vitni að afar óvenjulegum og athyglisverðum mánuðum í mars, apríl og maí – en það sem gerist í þessum mánuðum er líklegt til að valda straumhvörfum fyrir allan heiminn, hvar sem við búum.

LJÓNIÐ ER LEIÐTOGINN

Ljónið er stöðugt eða fast merki, mjög tengt leiðtogahlutverki í heiminum, en ekki síður okkar eigin leiðtogahlutverki. Allir geta verið leiðtogar, því hlutverkið snýst ekki um form eða titil, heldur um kærleika, hlýju, ástina á eigin lífi og sköpun, en Ljónið er mjög skapandi.

Eiginleikar eins og stolt, heiðarleiki og heilindi eru Ljóninu mjög mikilvægir – og þegar Satúrnus fer inn í Fiskana, kemur orkan til með að snúast um andleg heilindi – og fullt Tungl í Ljóni kemur til með að minna okkur á það. Ljónið er líka eldmerki, sem sendir út kærleik og skapandi orku út til heimsins.

ÚRANUS ÖFLUGUR

Þegar við skoðum kortið fyrir fulla Tunglið sjáum við að Úranus í kortinu er á 15 gráðum og 1 mínútu í Nauti. Fimmtánda gráðan í stöðugu eða föstu merkjunum er í 45 gráðu spennuafstöðu við núll gráðuna í kardinála merkjunum, sem tengir Úranus við Öxul Alheimsins. Því er líklegt að birting hans verði almenningi kunn, en hún getur komið fram sem skyndileg áföll, sjokkerandi hlutir eða upplýsingar og jarðhræringar eða eldgos á öllum sviðum lífsins. Einnig sem rafmagnsleysi eða netárásir, því Úranus tengist rafmagni.

Úranus er líka í mjög nákvæmri T-spennuafstöðu við Sólina og Tunglið, en þau eru alltaf í 180 gráðu spennuafstöðu við hvort annað þegar Tunglið er fullt. Þessi spennuafstaða á eftir að undirstrika eða beina athyglinni að ýmsu því sem fjallað hefur verið um hér að framan.

Persónulega getur Úranus í transit haft aðeins öðruvísi áhrif sem geta komið fram sem eirðarleysi, þörf fyrir breytingu og frelsi og nauðsyn þess að drífa í hlutunum.

MERKÚR OG PLÚTÓ Í SAMSTÖÐU

Það er samstaða á milli Merkúrs og Plútó í korti fulla Tunglsins. Merkúr er á 23 gráðum og Plútó á 29 gráðum í Steingeit. Í hvert sinn sem Merkúr og Plútó eru í samstöðu getur það tengst djúpum eða esóterískum hugsunum, auk þess sem samstaðan er frábær fyrir hvers konar rannsóknir og uppgröft á leyndarmálum, sem tengjast valdafyrirkomulagi, þar sem stjórnað er að ofan og niður.

Við megum því vænta þess að ýmis leyndarmál sem tengjast leiðtogum og valdhöfum komi upp á yfirborðið í þessu bjarta LJÓSI frá Tunglinu í Ljónsmerkinu.

MERKÚR OG SAMSTAÐAN ÁRIÐ 2020

Hið sérstæða er að Merkúr sem er á 23 gráðum í Steingeit – er í innan við 15 mínútna fjarlægð frá samstöðunni, sem varð á milli Satúrnusar og Plútó á 22 gráðum og 45 mínútum í Steingeit  þann 12. janúar árið 2020.

Allir stjörnuspekingar fjölluðu þá um þessa herpandi, erfiðu og takmarkandi samstöðu – og enginn vissi hvernig úr henni myndi spilast. Þessi samstaða markaði hins vegar upphafið að „farsóttinni“ árið 2020.

Merkúr er nú í um 15 mínútna fjarlægð frá þeirri afstöðu sem þá varð. Líklegt er að menn fari því að fara aftur til þeirrar atburðarásar sem hófust þá og þeirra takmarkana sem fylgdu næstu þrjú árin – og endurmeta og rannsaka það ferli allt og varpa á það skæru LJÓSI.

Spurningin er hvort komist verði að nýrri niðurstöðu, hvort við fáum nýtt sjónarhorni á málin eða hvort einhver leyndarmál verði afhjúpuð í LJÓSI þessa fulla Tungls.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Nánar má lesa um þær breytingar sem við erum að fara í gegnum í bók minni LEIÐ HJARTANS

Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn til að fá reglulega sendar greinar um sjálfsrækt, andleg málefni, stjörnuspeki og náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.

Myndvinnsla: Guðrún Bergmann

Heimildir:  Útdráttur úr skýringum breska stjörnuspekingsins Pam Gregory, sem þýddar eru með hennar leyfi. Skýringar hennar í fullri lengd má finna HÉR. Sjá einnig vefsíðu hennar: www.pamgregory.com 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 584 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram