SÓSAN ER ALLTAF MIKILVÆG

Rétt er það að sósan er mjög mikilvæg og setur oft punktinn yfir i-ið í matargerðinni. Gildir þá einu hvort um er að ræða sósu út á salatið eða kalda eða heita sósu með öðrum mat. Þegar verið er í HREINT MATARÆÐI hreinsikúrnum er hvorki notaður rjómi, sósujafnari (nema tapíókamjöl eða husk trefjar) né smjör í matargerðinni. Því getur verið flókið að búa til góðar sósur. Hér eru nokkrar tillögur að sósum, aðallega salatsósum og köldum sósum.

Ef þið eruð með soð, t.d. að lambalæri eða lambahrygg, má alltaf þykkja það með möndlu- eða rísrjóma sem fæst í heilsuvöruhillum stórmarkaða.

Þessar uppskriftir að sósum eru úr bókinni minni HREINT Í MATINN. Prentútgáfan af bókinni er löngu uppseld en ég er að vinna í rafbókarútgáfu af henni.

 

GRUNNUR AÐ SALATSÓSU – u.þ.b. ¼ bolli:

Þetta er lítil grunnuppskrift, en hún gefur hugmynd um hlutföllin sem svo má bara margfalda ef gera á meiri salatsósu í einu.

 • 3 msk jómfrúrólífuolía frá Himneskri hollustu
 • 2 msk nýpressaður sítrónusafi – má líka nota eplaedik eða vínedik
 • bleikt himalajasalt eftir smekk
 • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Hristið þetta vel saman í hristiglasi eða tvöfaldið uppskriftina og setjið allt í blandara og blandið vel saman. Svo getið þið bragðbætt grunninn á ýmsan máta.

 

ÍTÖLSK SALATSÓSA

Þá bætist í grunninn:

 • ½ tsk pressaður hvítlaukur
 • ½ tsk ítölsk kryddblanda (Italian Seasoning)
 • örlítið af muldum rauðum piparkornum (má sleppa)

eða

 • ½ tsk laukduft
 • ½ tsk hvítlauksduft
 • ½ tsk oregano

 

SINNEPSSALATSÓSA

Þá bætist í grunninn:

 • 1 tsk ósætt Maille Dijon-sinnep
 • 1–3 tsk agavesíróp – eða 10–15 dropar af bragðlausri Good Good stevíu

 

TAMARI-SALATSÓSA

Þessa er fljótlegt að gera og hún bragðast vel, bæði út á salat og eins út á
hrísgrjónarétti eins og steikta hrísgrjónaafganga með grænmeti.

 • ½ bolli jómfrúrólífuolía
 • 2–3 msk hveitilaus tamarisósa frá Clearspring
 • 2 msk nýpressaður sítrónusafi
 • 1 msk agavesíróp eða 10 dropar af bragðlausri stevíu
 1. Setjið allt í matvinnsluvél og þeytið vel saman á miklum hraða
  í 25–30 sekúndur. Ef ykkur finnst sósan of þykk má bæta í hana
  örlitlu köldu vatni eða aðeins meiri sítrónusafa.
 2. Geymist vel í ísskáp.

 

FERSKJUSALSA

Þetta ferskjusalsa er algjört æði og hentar vel með bauna- og kjúklingaréttum. Gott er að útbúa salsað tímanlega og leyfa því að standa í eins og 1 klst. á borði til að taka í sig bragð áður en það er borið fram.

 • 4 vel þroskaðar ferskjur
 • ½ stór rauðlaukur (eða meira ef þið viljið hafa það bragðsterkara)
 • örlítið af cayenne-pipar
 • safi úr 1 límónu
 • 1–2 tsk agavesíróp eða 5–8 dropar af stevíu
 • handfylli af fersku, söxuðu kóríander
 • himalajasalt eftir smekk
 1. Afhýðið ferskjurnar, skerið í tvennt og takið steininn úr.
 2. Skerið ferskjuhelmingana í litla bita.
 3. Skerið laukinn mjög smátt og saxið kóríanderið.
 4. Blandið öllu saman og bætið límónusafanum saman við.
 5. Bragðbætið með agave (eða stevíu), salti og cayenne-pipar.

 

SINNEPS- OG HINDBERJASULTUSÓSA

Ég er algjör sinnepskona, svo þegar vinkona mín Ragna Þóra sagði mér frá þessari sósu, sem hún notar með dökku kjöti, var ég ekki sein á mér að prófa hana. Og þá varð ekki aftur snúið, henni þurfti að deila með öðrum. Hún getur varla verið einfaldari og það tekur hámark 2 mínútur að gera hana.

 • 2 msk ósætt Maille Dijon-sinnep
 • 2 msk St. Dalfour hindberjasulta (Raspberry) eða hindberja- og granateplasulta (Raspberry & Pomegranate)

Blandið þessu vel saman og notið með eiginlega hverju sem ykkur dettur í hug. Sósan er góð með lambakjöti, andakjöti, hakkbollum og ýmsu öðru. Má líka smyrja á glútenlaust brauð undir t.d. salatblöð og kaldan kjúkling.

 

GRUNNUR AÐ KASJÚHNETUSÓSU

Það er fljótlegt að gera þennan sósugrunn og í hann má bæta ýmsu kryddi til að bragðbæta sósuna enn frekar eftir því með hverju á að nota hana. Þið breytið bragðinu með því að setja í hana krydd eins og sinnep, karríduft, paprikuduft eða laukduft eða saxa út í hana kóríander, steinselju eða dill.

 • 2 bollar ósaltaðar kasjúhnetur
 • 1 ¼ bolli vatn eða Naturata grænmetiskraftur, leystur upp í sama vatnsmagni
 • 1–2 hvítlauksrif
 • 1 tsk fínt himalajasalt
 1. Setjið kasjúhneturnar í skál með köldu vatni, sem flýtur yfir þær. Látið þær liggja í bleyti í 2 tíma (alls ekki lengur því þá verður sósan vatnskennd).
 2. Hellið hnetunum í sigti og skolið vel undir kaldri vatnsbunu.
 3. Ef þið notið grænmetiskraft er þessi gerlausi í krukkunum frá Naturata frábær. Hann fæst einnig í fljótandi formi, svo það er bara að velja.
 4. Setjið kasjúhneturnar í blandara ásamt vatni (eða vatni með 1 tsk. krafti), hvítlauk og salti og blandið þar til sósan er orðin jöfn.
 5. Geymist í ísskáp í 3–4 daga í lokuðu íláti. Má einnig frysta.

 

GRÆNKÁLSPESTÓ

Það er sérlega fljótlegt að gera þetta pestó, sem smakkast vel með steiktum eða bökuðum fiski, pasta, bökum, ofan á glútenlaust kex og brauð eða sem ídýfa með flögum eins og þaraflögunum frá GimMe. Grænkálið er grunnur en ef ekki er til steinselja má nota spínat eða aðrar grænar jurtir með því. Til tilbreytingar og frekari bragðbætis má svo setja kryddaðar möndlur út í pestóið J.

 • 1½ bolli rifið grænkál – blaðstilkur skorinn frá
 • ½ bolli steinselja
 • ½ bolli ólífuolía
 • 1 lítið hvítlauksrif
 • safi úr 2 litlum límónum
 • fínt himalajasalt eftir smekk
 • múskat á hnífsoddi
 • ¼ bolli næringarger frá Naturata
 • ¼–½ bolli möndlur
 1. Setjið grænkál, ólífuolíu, hvítlauk, sítrónusafa, salt og næringarger í blandarann og blandið á púls-stillingu þar til blandan er orðin jöfn.
 2. Bætið möndlunum (með eða án hýðis) út í og blandið á púls-stillingu þar til þær eru malaðar í þann grófleika sem óskað er.

 

MJÓLKURLAUS GÚRKUSÓSA

Þessari gúrkusósu svipar til raita-sósu, sem margir kannast við úr grískri og tyrkneskri matargerð. Munurinn er sá að þessi er ekki gerð úr mjólkurvörum. Hún er fersk og góð með ýmsum réttum og smakkast líka vel sem ídýfa.

 • ½ lífrænt ræktuð kjarnhreinsuð gúrka
 • 1 dós kókosmjólk frá Dr. Goerg – notið kókosrjómann, þetta þykka
 • safi úr ½–1 límónu eftir smekk
 • 3–4 tsk ferskt dill
 • 1 tsk marinn hvítlaukur
 • himalajasalt og svartur pipar eftir smekk
 1. Afhýðið gúrkuna, kjarnhreinsið og skerið í litla bita eða rífið gróft á rifjárni. Gott er að láta vökvann úr gúrkunni renna aðeins af og þerra bitana áður en þeim er blandað saman við sósuna.
 2. Kókosmjólkin VERÐUR að hafa verið í ísskáp í minnst 2 tíma, áður en sósan er gerð. Skiljið kókosrjómann frá vökvanum í dósinni og setjið í skál. Vökvann má geyma til að nota í þeyting eða safa.
 3. Blandið límónusafa, dilli, hvítlauk og kryddi í sósuna og að síðustu gúrkunni.
 4. Leyfið sósunni að taka í sig bragðefnin með því að standa í ísskáp í 10–15 mínútur áður en hún er borin fram.

 

AVÓKADÓ-MAJÓNES

 • 1 stórt eða 2 lítil vel þroskuð avókadó
 • 1 msk eplaedik frá Demeter
 • ¼ tsk hvítlauksduft
 • ¼ tsk svartur pipar
 • ¼ tsk fínt himalajasalt
 • 4 msk jómfrúrólífuolía
 1. Setjið allt nema ólífuolíuna í matvinnsluvél og blandið vel saman þar til það er orðið að jöfnu mauki.
 2. Stöðva þarf blandarann annað slagið til að skafa hliðarnar á könnunni svo allt avókadóið fylgi með í maukið.
 3. Þegar blandan er orðin jöfn, látið þá olíuna renna hægt ofan í blandarann meðan þið blandið á lægstu stillingu. Þetta er smá þolinmæðisverk, en skilar majóneslíku útliti á sósunni.
 4. Notið strax eða geymið í ísskáp í 3–5 daga í krukku með þéttu loki.

Hugmynd! Við tilraunir komst ég að raun um að það má nota avókadó-majónesið eins og venjulegt majónes og gera t.d. túnfisksalat með það sem grunn.

Heimildir: HREINT Í MATINN eftir Guðrúnu Bergmann
Mynd: Can Stock Photo / fahrwasser

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
 • 503 Posts
 • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?