PLÚTÓ, ÚRANUS OG UPPREISN FÓLKSINS

PLÚTÓ, ÚRANUS OG UPPREISN FÓLKSINS

Þann 4. júlí árið 1776 var sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna undirrituð í borginni Philadelphia. Undirritunin fór fram kl. 17:10 síðdegis og síðan þá hafa stjörnuspekingar notað þann dag og tíma til að gera kort fyrir þjóðina eða ríkjasambandið.

Í stjörnukorti Bandaríkjanna frá árinu 1776 er Plútó í öðru húsi en það hús er táknrænt fyrir peninga, tekjur og öll fjár- og efnahagsmál. Stöður pláneta eru fastar í fæðingarkortum, en svo hafa pláneturnar sem eru á ferð um himinhvolfið áhrif inn á pláneturna í kortunum.

ENDURKOMA PLÚTÓ

Þann 22. febrúar síðastliðinn lenti plánetan Plútó eftir 246 ára ferðalag um sporbaug sinn aftur á 27 gráðum í Steingeit og er því nú í samstöðu við Plútó í korti Bandaríkjanna. Plútó er táknrænn fyrir dauða, umbreytingu og endurfæðingu.

Þar sem Plútó er í fjármálahúsinu í korti Bandaríkjanna kemur þessi dauði, umbreyting og endurfæðing til með að tengjast efnahagskerfi landsins – og þar sem öll efnahagskerfi heims eru samtengd, mun sú umbreyting væntanlega hafa áhrif á öll önnur kerfi.

Þegar Plútó fer í gegnum Steingeitarmerkið, sem er mjög tengt fjármálastofnunum eins og bönkum, stórfyrirtækjum, fjárfestingarfyrirtækjum, stjórnvöldum landa og stórfyrirtækja –tengist orka plánetunnar líka því að opinbera eða grafa upp, alla spillingu, yfirhylmingar og óheilindi sem til staðar eru meðal þessara stofnana.

ÁSTÆÐA SJÁLFSTÆÐISYFIRLÝSINGARINNAR

Áhugavert er að gera sér grein fyrir ástæðu sjálfstæðisyfirlýsingarinnar árið 1776. Landnemarnir (bresku), sem höfðu flúið Bretlandi vegna skattaáþjánar af hendi bresku krúnunnar[i], en hún hafði fylgt þeim yfir hafið og slegið eign sinni á landnemasvæðið, sýnt þeim vanvirðingu og beitt þá viðskiptaþvingunum og áframhaldandi sköttum. Þeir, eða við fólkið, gerðu því uppreisn gagnvart yfirráðum stjórnvalda, sem þeim fannst þeir ekki eiga neinn talsmann hjá og staðfestu með yfirlýsingunni við heiminn að þeir byggju í sjálfstæðu ríki.

Í inngangi Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar[ii] segir: „Við lítum á það sem satt og sjálfgefið (e. self-evident) að allir menn séu skapaðir jafnir og að Skapari þeirra hafi gefið þeim ákveðin óafsalanleg réttindi, meðal þeirra réttindi til lífs, frelsis og leitar að hamingju.

Árið 1791 voru gerðar nokkrar breytingar á stjórnarskránni og þar talað um þau réttindi sem Guð gaf.

SAMA ÞEMAÐ NÚNA

Þessi yfirlýsing um frelsi og jafnræði var sett fram fyrir tæpum 250 árum síðan. Hún kemur samt að mati breska stjörnuspekingsins Pam Gregory[iii] til með að vera bakgrunnur fyrir það sem framundan er vegna samstöðu Plútó við Plútó í korti Bandaríkjanna.

Endurkoma Plútó í samstöðu við Plútó í kortinu er því ekki bara líkleg til að valda andlegri umbreyting á gildismati, stjórnkerfi og efnahag Bandaríkjanna, heldur má gera ráð fyrir því að þetta verði líka endurfæðing á því hver þjóðin er – og á birtingu hennar út á við. Þær breytingar eru líklegar til að leiða til breytinga um allan heim.

UPPREISN FÓLKSINS

Sagan virðist á vissan hátt vera að endurtaka sig og víða um heim má sjá svipaðan kraft og birtist hjá landnemunum, þegar þeir börðust fyrir frelsi sínu. Fólk hefur á undanförnum tveimur árum komið saman víða um heim með kröfur um frelsi og jöfn réttindi fyrir alla, eins og við höfum til dæmis séð í nýafstöðnum mótmælum í Kanada, svo og í Ástralíu, Frakklandi, Ítalíu, Svíþjóð, Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi og víðar.

Í gegnum grasrótina rís fólkið upp í eigin krafti, til að mótmæla þvingunum og valdbeitingum, sem ganga á hin óafsalanlegu réttindi þess til frelsis, leitar að hamingju og rétti til lífs. Plútó í Steingeit er nefnilega líka að vekja upp hjá einstaklingnum skilning á að allt vald er í raun innra með honum. Hann þarf því að taka stjórn á því, standa á rétti sínum og hætta að hlýða ytri valdboðum.

ORKAN FRÁ ÚRANUSI ER STERK

Ýmsir stjörnuspekingar tala um að pláneturnar í kringum okkur séu að stuðla að og styðja okkur á Jörðinni í gegnum þær breytingar sem nauðsynlegar eru nú. Úranus (frelsi og sannleikur) var í spennuafstöðu við Satúrnus (stjórnvöld, reglur) allt síðasta ár og verður það út þetta ár líka.

Hins vegar hefur orðið umbreyting í valdajafnvægi milli plánetanna og Úranus, sem er í Nautsmerkinu fram til ársins 2026, er sterkari en Satúrnus nú og kemur því að endingu til með að sigra. Úranusi fylgir orka frelsis og uppreisnar, svo og sannleika og uppljóstrana, eins og berlega er að koma í ljós.

Orka Úranusar tengist líka öfgafullu veðurfari og jarðskjálftum og eldgosum, bæði í Jörðu og hjá mannfólkinu – svo og aukinni vitundarvakningu. Úranus er rafmagnaður og orka hans er því tengd öllu rafmögnuðu, meðal annars netinu og þar af leiðandi netárásum. Við megum því eiga von á þeim á þessu ári.

Allt tengt Úranusi gerist hratt og án nokkurs fyrirboða. Því er ómögulegt að spá fyrir um áhrif plánetunnar á þessu ári. Allar líkur eru samt á að þetta verði róstusamt ár eins og átökin í Úkraínu gefa nú þegar til kynna.

Hvað sem á dynur er samt mikilvægt að halda inni ró, því allt mun þetta eins og annað líða hjá – og við taka ný og betri Jörð. Þú getur náð þér í ókeypis MORGUNHUGLEIÐSLU á síðunni minni, til að koma á jafnvægi og ró fyrir alla daga.

Sjá líka greinina: INNSÝN Í ÁRIÐ 2022

Myndir: CanStockPhoto / tristan 3D/mcgill

Heimildir:

[i] https://www.archives.gov/founding-docs/declaration/what-does-it-say

[ii] https://www.archives.gov/founding-docs/declaration-transcript

[iii] www.pamgregory.com – Pam Gregory astrologer á YouTube

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 551 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?